Fréttir

Birt þann 12. júní, 2018 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

E3 2018: Gerist Death Stranding á Íslandi? – Nýtt sýnishorn

Takmarkað af nýju efni var kynnt til sögunnar á E3-kynningu Sony þetta árið. Það má segja að hápunktar kynningarinnar hafi verið sýnishornin úr The Last of Us Part II og svo Death Stranding. Það er japanski leikjahönnuðurinn Hideo Kojima og stúdíóið hans, Kojima Productions, sem vinna að gerð leiksins en Hideo Kojima er hvað þekktast fyrir aðskomu sína að Metal Gear seríunni.

Í nýja sýnishorninu sem sýnt var á E3 sjáum við aðalpersónu leiksins, sem Norman Reedus leikur, ráfa um svæði sem minnir óneitanlega á íslenska náttúru…

Allt frá upphafi hefur Death Stranding vakið mikinn áhuga í leikjasamfélaginu þó svo að það sé heldur óljóst nákvæmlega út á hvað leikurinn gengur eða hvernig hann kemur til með að spilast. Í nýja sýnishorninu sem sýnt var á E3 sjáum við aðalpersónu leiksins, sem Norman Reedus leikur (Daryl úr The Walking Dead sjónvarpsþáttaröðunum), ráfa um svæði sem minnir óneitanlega á íslenska náttúru eins og sést á myndunum hér fyrir neðan. Norman notar einkennilegan tækjabúnað sem virðist nota lifandi fóstur sem orkugjafa og notar tækið svo til að skannaa svæði fyrir yfirnáttúrulegum verum eða öndum sem annars sjást ekki. Andrúmsloftið í Death Stranding vægast sagt sérstakt og nokkuð drungalegt. Auk Norman Reedus fara þau Mads Mikkelsen, Léa Seydoux, og Lindsay Wagner með hlutverk í Death Stranding.

E3 sýnishornið úr leiknum

Kenningar hafa verið uppi meðal áhugamanna um Death Stranding um að leikurinn gerist á Íslandi.

Kenningar hafa verið uppi meðal áhugamanna um Death Stranding um að leikurinn gerist á Íslandi. Umhverfið minnir óneitanlega á íslenska náttúru þar sem sést meðal annars í mosa, hraun og fjalllendi. Auk þess var notast við tónlist frá íslensku hljómsveitinni Low Roar í sýnishorni frá 2016. Menn vilja einnig tengja Decima leikjavélina sem notuð er við gerð Death Stranding við Ísland þar sem finna má mynd af Reynisfjöru í kynningarefni Decima. Þess má geta þá heimsótti Kojima Ísland árið 2014 í tengslum við hugmyndavinnu fyrir Metal Gear og er hugsanlegt að heimsóknin hafi gefið honum einhvern innblástur [Eurogamer]. Eins og er eru þetta kenningar og verðum við bara að bíða og sjá hvort þær reynast sannar þegar nær dregur.

Enginn útgáfudagur er kominn á Death Stranding.

Er þetta íslensk náttúra sem við sjáum?

 

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑