Birt þann 22. apríl, 2018 | Höfundur: Steinar Logi
Leikjarýni: God of War (2018) – „Tímamótaverk“
Samantekt: Sá besti á PS4 í dag.
5
Tímamótaverk
God of War leikirnir eiga sér langa sögu og stóran aðdáendahóp og er undirritaður þar á meðal talinn. Þetta hafa verið skemmtilegir bardagaleikir með áherslu á epíska sögu og það sama er upp á teningnum hér. Nema þessi fylgir ekki alveg formúlunni. Hann tekur það mikið stökk fram á allan hátt að það er erfitt annað en að líta á hann sem tímamótleik; hann er ekki bara góður heldur hreinlega einn af bestu leikjum sem ég hef spilað. Manni finnst eins og Santa Monica Studios hafi fullkomnað nýtinguna á PS4 Pro og tekið algerlega framúr öllum öðrum.
hreinlega einn af bestu leikjum sem ég hef spilað
Flest það sem einkennir GoW seríuna er enn til staðar, það er bara komið í ný og flottari föt þannig að maður skynjar það sem eitthvað annað og betra. Það eru hins vegar tvær stórar breytingar; heimurinn er núna opinn og það eru ýmis aukaverkefni sem maður getur tekið sér fyrir hendur og myndavélin er fyrir aftan Kratos en ekki í þriðju persónu (þetta er jafnað út með því að það blikkar ör frá þeirri átt sem árás kemur úr, einnig vara vinir þínir þig stundum við sem virðast vera áhrif frá Hellblade).
Án þess að hafa nokkuð fyrir því þá held ég að það séu a.m.k. þrír áhrifavaldar á hönnun GoW; Dark Souls serían, Horizon Zero Dawn og Hellblade Senua’s Sacrifice.
Án þess að hafa nokkuð fyrir því þá held ég að það séu a.m.k. þrír áhrifavaldar á hönnun GoW; Dark Souls serían, Horizon Zero Dawn og Hellblade Senua’s Sacrifice. Dark Souls sér maður í aukaáskorunum sem eru spilltu Valkyrjurnar og þær leynast bak við óaðgengilegar dyr (í fyrstu). Þær minna mikið á bardagana í Dark Souls þar sem maður þarf að læra á hreyfingar óvinarins og koma með strategíu. Umhverfið er stórkostlegt (meira um það síðar) en hvernig heimurinn myndar eina heild þar sem þú getur séð hvar þú varst áður og hvert þú ert að fara minnir líka á From software leikina en Cory Barlog og félagar hafa líka gert það vel í gegnum tíðina. Horizon Zero Dawn og Hellblade (sem er með samskonar þema) virðast líka hafa haft áhrif grafík- og leikjalega séð og GoW hefur hreinlega gert það betur. Tek það fram að skjárinn minn hefur uppfærst síðan ég spilaði áðurnefnda leiki og ég upplifði God of War í 4k upplausn, eitthvað sem allir ættu að gera.
Rýnum aðeins frekar í grafíkina. Það er margt sem lét hökuna falla í gólfið en tökum tvö dæmi. Þegar Kratos og sonur hans komast upp á ákveðið fjall þá vaða þeir snjó sem kemur upp að sköflung og sem Íslendingur þá hugsar maður „já, þetta er nákvæmlega svona, svona hagar snjór sér“. Eitt sinn var ég að líta í kringum mig í helli og sá að einn kóngulóarvefurinn bylgjaðist fram og aftur, það raunverulega að maður gat séð að þetta var dragsúgur sem lamdi vefinn að aftan. Það er þetta „extra effort“ sem skilar sér í ótrúlegri upplifun.
Það er þetta „extra effort“ sem skilar sér í ótrúlegri upplifun.
Andlitin (motion capture) og raddleikurinn er algerlega óaðfinnanlegur enda er megnið af sögunni samband Kratos og Atreus. Kratos er maður fárra orða en því að andlitið á honum og minnstu svipbrigði er svo vel fangað þá getur maður lesið í tilfinningar hans og þar kemur raddleikurinn líka mjög sterkur inn. Stargate leikarinn Christopher Judge stendur sig stórkostlega ásamt Sunny Suljic sem sonurinn Atreus og hinn frábæri „karakter-leikari“ Jeremy Davies í hlutverki dularfulls einstaklings. Sagan sjálf er kannski ekki eins „epísk“ og fyrri leikir enda snýst hún núna um ferðalag föður og sonar sem eru að kynnast hvor öðrum. En epísku atburðirnir eru svo sannarlega til staðar og eins áhrifamiklir og þeir hafa alltaf verið, ef ekki meira.
God of War er ekki bara þessi ótrúlega umgjörð heldur er leikurinn sjálfur hreinn unaður enda ekki tilviljun að hann hefur verið að sópa til sín hæstu einkunnum frá erlendum gagnrýnendum.
God of War er ekki bara þessi ótrúlega umgjörð heldur er leikurinn sjálfur hreinn unaður enda ekki tilviljun að hann hefur verið að sópa til sín hæstu einkunnum frá erlendum gagnrýnendum. Það er búið að einfalda og uppfæra bardagakerfið og bæta við það nýjum hlutum hér og þar. Nú er Kratos með, að því virðist, hefðbundna víkingaexi en hann getur kallað hana aftur til sín rétt eins og Þór og hamarinn. Þetta nýtist ekki bara í bardögum heldur líka við að leysa þrautir. Þetta gerir bardaga fjölbreytilegri því maður getur verið framan í óvininum eða veikt hann með því að henda í hann exi lengra frá. Atreus hjálpar líka að sama skapi með bogann sinn og seinna meir getur hann kallað fram vætti til að gera árás tímabundið. Blessunarlega þá er búið að taka QTE (quick time events þar sem spilarinn þurfti að ýta á samsvarandi hnapp sem kemur upp á skjánum innan ákveðins tíma) algerlega í burt enda gat það verið mjög pirrandi.
Það að uppfæra vopn sín og klæði er algerlega nauðsynlegt til að styrkja Kratos og smátt og smátt lærir maður líka nýjar bardagaaðferðir. Áfram þarf maður að finna hluti í kistum til að uppfæra líf sitt og reiði „rage“. Reynslustig eru ekki eins ráðandi og þau voru í fyrri leikjum heldur er þetta vel heppnað samanspil nokkurra þátta.
Leikurinn ætti að snerta margar taugar í Íslendingum því við heyrum mörg íslensk orð og ekki bara það heldur hafa þessi íslensku orð galdramátt. Íslenski kammerkórinn Schola Cantorium (visir.is) er áberandi í tónlistinni sem er búin til af Bear McReary en þar syngur hann á forn-íslensku. Einnig syngur Eivör Pálsdóttir frá Færeyjum í meginþema God of War. Tónlistin almennt er algerlega til fyrirmyndar og hægt er að nálgast hana núna á Spotify.
Það er endalaust hægt að hlaða á þennan leik hrósi en það er búið að gera það núna stanslaust í viku síðan fyrstu rýnirnar birtust erlendis en ég ætla bara að bæta tvennu við. Santa Monica hefur náð á einhvern ótrúlegan hátt að gera þennan stóra leik samfleytta upplifun þ.e.a.s. maður tekur ekki eftir „loading screens“. Ég upplifði heldur ekkert hikst og ekki eina einustu villu (bug eða glitch) í þá 40-50 tíma sem ég hef spilað hann. Það er sjaldgæft nú til dags en ég tók hins vegar eftir að útgáfan er komin upp í 1.11 nú þegar.
Hitt er að ég veit að ég á eftir að spila leikinn áfram eftir að hafa klárað söguna því að það er ennþá nóg að gera og ekkert af því er óáhugavert. Aukaverkefnin virka nánast eins og hluti af sögunni.
Hitt er að ég veit að ég á eftir að spila leikinn áfram eftir að hafa klárað söguna því að það er ennþá nóg að gera og ekkert af því er óáhugavert. Aukaverkefnin virka nánast eins og hluti af sögunni. Ef einhver myndi segja „hérna eru sex stjörnur, notaðu þær bara á 5 ára fresti“ þá myndi ég hiklaust gefa þessum sex stjörnur. Það er svo gott fyrir markaðinn að fá svona meistaraverk núna og vonandi fækkar núna öllum þessum vanhugsuðu og gróðabralls AAA leikjum sem hafa verið að koma á markaðinn síðustu ár. Lengi lifi Kratos!