Birt þann 27. nóvember, 2017 | Höfundur: Magnús Gunnlaugsson
Spilarýni: Arkham Horror: LCG – „ekki alltaf sanngjarnt né auðvelt“
Samantekt: Vel hannað, ríkt af þema og sögum fullum af hryllingi, ógnvekjandi skrímslum og veröld þar sem eitthvað er hulið bakvið tjöldin.
5
Fullt hús!
Það hefur ekki verið skortur á spilum sem byggja á Cthulhu Mythos úr hugarheimi H.P Lovecraft. Fantasy Flight Games hafa verið iðnir við að gefa út margskonar spil sem tengjast því og hafa byggt upp sinn eigin heim sem þeir kalla The Arkham Files.
Auk þeirra hafa verið gefin út fjöldamörg önnur spil einsog Cthulhu Love Letter, Cthulhu Fluxx, Mythos Tales, sem er Lovecraft útgáfan af Sherlock Holmes: Consulting Detective, Pandemic: Reign of Cthulhu og svo má áfram telja. Fyrir þá sem ekki þekkja til söguheims Lovecraft þá fjalla þær oftar en ekki um einhverja yfirnátturlega atburði, fórnir af ýmsum toga og sértrúarsöfnuði sem tilbiðja guði sem ekki eru af okkar heimi. Þessir guðir lifa í geimnum og þrá ekkert heitar en að gleypa hann allan þar til einungis myrkrið verður eftir.
YFIRLIT
Arkham Horror: The Living Card Game (hér eftir AH:LCG) er samvinnuspil fyrir 1-4 þátttakenndur. Leikmenn taka að sér hlutverk persóna sem allar hafa komist í snertingu við eitthvað óvenjulegt og vinna nú saman að því að leysa dularfullar ráðgátur og samsæri en á sama tíma þurfa þær að glíma við sína eigin djöfla.
Leikmenn velja sér eina af fimm mögulegum söguhetjum til að spila og byggja sér stokk sem inniheldur vopn, bandamenn og ýmiskonar sérhæfileika. Samansafn af köflum sem leikmenn spila í gegnum, draga fram heildarmyndina og segja þannig alla söguna. Í hverjum kafla þurfa leikmenn að skoða mismunandi staðsetningar í leit að vísbendingum sem gerir þeim kleift að ljúka hinum ýmsu verkefnum sem knýja framvindu sögunnar ásamt því að takast á við eða flýja, hinar ýmsu hættur sem fylgja þeim í hverju fótspori.
Eftir því sem lengra líður á söguna fá hetjurnar meiri reynslu og innsýn sem gerir leikmönnum kleift að skipta út spilum fyrir öflugri spil. Sagan er enginn dans á rósum því þegar atburðunum fjölgar sem hetjurnar verða vitni að er hætta á að þær missi vitið. Þær verða því að brynja sig fyrir þessum hættum svo hryllingurinn ná ekki heljartökum á þeim á meðan þær reyna lifa af og leysa þessar ráðgátur.
HVERNIG SKAL SPILAÐ
Hver kafli er settur upp eftir kúnstarinnar reglum sem fylgja sérstaklega með hverjum kafla. Settir er upp tveir mismunandi stokkar sem annars vegar kallast Sögustokkur (e. Act Deck) og hinsvegar Örlagastokkur (e.Agenda Deck). Markmið leikmanna að reyna klára Sögustokkin á undan Örlagastokknum svo leikmenn eru sífellt í kapphlaupi við tímann.
Leikmenn geta framkvæmt þrjár aðgerðir í hverri umferð s.s. náð sér í pening, ferðast á milli staða, leitað að vísbendingum, dregið spil, spilað út vopnum og bandamönnum, slegist, nú eða flúið undan hinum ýmsu óvættum sem spilið hefur upp á að bjóða.
Leikmenn nota vísbendingar sem þeir finna til að komast í gegnum Sögustokkinn en í upphafi hverrar umferðar bætast við örlagatákn (e. doom tokens) á örlagastokkinn sem knýja hann áfram. Leikmenn geta framkvæmt þrjár aðgerðir í hverri umferð s.s. náð sér í pening, ferðast á milli staða, leitað að vísbendingum, dregið spil, spilað út vopnum og bandamönnum, slegist, nú eða flúið undan hinum ýmsu óvættum sem spilið hefur upp á að bjóða.
Í langflestum tilfellum þurfa leikmenn að framkvæma hæfnispróf (e. Skill checks) til að finna vísbendingar eða drepa skrímslin. Það er gert með því að draga tákn upp úr Óreiðuskjóðunni, (e. Chaos bag) en það er poki sem er fullur af táknum og tölum, sem í stórum meirihluta innihalda stórar mínus tölur og þær bornar saman við tölugildi/styrk þess hæfileika sem persónan er að notfæra sér. T.d. þá hefur hver staðsetning ákveðið skugga-gildi (e. shroud value). Ætli leikmaður að ná í vísbendingu notar hann vitsmuni (e. Intellect) sína og þarf útkoman að vera jafnhá eða hærri en skugga-gildið á viðkomandi staðsetningu til að geta náð í vísbendinguna eftir að hafa dregið úr skjóðunni.
Leikmenn spila þar til að þeim hefur tekist ætlunarverk sitt með því að klára sögustokkin eða mistekist s.s með því að deyja, missa vitið eða örlagastokkurinn klárist. Vissulega er þriðji möguleikinn í boði en hann er sá að sumar staðsetningar bjóða leikmönnum upp á að segja af sér þ.e. að hætta sér ekki lengra í bili. Það getur verið skömminni skárra heldur en láta Örlagastokinn klárast því af tvennu illu er betra að segja að nú sé komið gott áður en menn steypa sér algjörlega til glötunar.
Í lokin eiga leikmenn að lesa eftirmála kaflans sem fylgdi með uppsetningunni til að sjá hvernig fór fyrir persónum þeirra. Þessir eftirmálar geta verið misgóðir allt eftir frammistöðu leikmanna. Það geta því verið mismunandi niðurstöður í lok hvers kafla sem leikmenn fá.
UPPLIFUN
Spilin eru stórkostlega myndskreytt og textinn laðar fram drungann, hætturnar og þann hrylling sem persónur leikmanna upplifa. Spilið gerir sitt allra besta til að leggja stein í götu leikmanna og leikur þar óreiðuskjóðan stórt hlutverk þar sem manni hreinlega kvíðir fyrir því að stinga hendinni ofan í pokann. Það er því gríðarlega ánægjulegt að ná hæfnisprófunum sem fyrir manni eru sett.
Kaflarnir eru fjölbreyttir og aðstæður mismunandi, í einum kafla er verið að leita uppi meðlimi sértrúarsöfnuðar á meðan í þeim næsta geturðu verið í lest sem er við það að sogast út í svarthol sem skyndilega hefur myndast. Ákvarðanir sem leikmenn taka eða afdrif hvers kafla geta einnig haft áhrif í þeim köflum sem á eftir koma. T.d. hvort leikmönnum hafi tekist að finna uppskrift að efnaformúlu, eða bjargað prófessor í lífshættu. Þá gæti það hafa mistekist að finna efnaformúluna gert þeim erfiðara fyrir að drepa ákveðið skrímsli en prófessorinn sem þeir björguðu gæti samt sem áður aðstoðað þá.
Kaflarnir eru fjölbreyttir og aðstæður mismunandi, í einum kafla er verið að leita uppi meðlimi sértrúarsöfnuðar á meðan í þeim næsta geturðu verið í lest sem er við það að sogast út í svarthol sem skyndilega hefur myndast.
Það sem gerir AH:LCG frábrugðið öðrum Lovecraft spilum frá sama útgefanda er hvað það gefur hönnuðum AH:LCG mikið frelsi. Stundum er leikmönnum sagt að fjarlægja spil af borðinu eða bæta við spilum í stokkin sinn, setja ný tákn í óreiðskjóðuna eða breyta niðurstöðum á þeim vegna þess að allt saman veltur þetta á framvindu sögunar í hverjum kafla fyrir sig. Það er ekkert leikborð heldur einungis staðsetningar sem eru raðað upp á ákveðinn máta og þurfa leikmenn stundum að fara frá einni staðsetningar til annarrar eftir ákveðnum leiðum því þær liggja ekkert endilega allar saman. Þeir m.e.a.s. innihalda mismunandi útgáfur af sumum staðsetningum til að auka fjölbreytnina í uppsetningu hvers kafla.
Hægt er að spila á mismunandi erfiðleikastigum: auðvelt/eðlilegt (e.easy/normal) eða erfitt/sérfræðingur (e.hard/expert) og er óreiðskjóðunni breytt eftir því sem við á. Í óreiðuskjóðunni má einnig finna fjögur tákn sem hafa mismunandi þýðingu í hverjum kafla. Það býður upp á sveigjanleika í hönnunn hvers kafla fyrir sig því markmiðin eru æði misjöfn.
Það er þó ákveðin skuldbinding að ætla sér að spila AH:LCG, því Fantasy Flight Games gefa nefnilega reglulega út misstórar viðbætur við AH:LCG. Hver stór viðbót sem inniheldur nýjar persónur sem hægt er að spila auk slatta af spilum og ýtir úr vör nýjum söguþræði. Næstu mánuði eru svo gefnir út smærri viðbætur; nýir kaflar sem innihalda fleiri spil og klára söguþráðinn smátt og smátt. Þetta er ekki ósvipað og að kaupa sér áskrift og því gott að vera með djúpa vasa ef þú ætlar að eignast allt efnið sem gefið er út.
Þú getur vissulega látið grunnspilið duga og það inniheldur þrjá kafla sem mynda sjálfstæða sögu og dugar fyrir einn til tvo leikmenn, eitt grunnspil setur þér þó ákveðnar takmarkanir þegar kemur að því að smíða stokka eða hvaða persónur þú getur parað saman.
Þú getur vissulega látið grunnspilið duga og það inniheldur þrjá kafla sem mynda sjálfstæða sögu og dugar fyrir einn til tvo leikmenn, eitt grunnspil setur þér þó ákveðnar takmarkanir þegar kemur að því að smíða stokka eða hvaða persónur þú getur parað saman. Með tveimur grunnspilum opnast möguleikarnir umtalsvert og hægt verður að spila með allt að fjórum leikmönnum. Það er að sjálfsögðu fyrir utan alla plastvasana sem maður kaupir utanum spilin og þær ýmsu útfærslur sem hægt er að versla eða útbúa til að halda röð og reglu á þessum hundruði spila sem safnast saman.
SAMANTEKT
Arkham Horror:LCG er vel hannað, ríkt af þema og sögum fullum af hryllingi, ógnvekjandi skrímslum og veröld þar sem eitthvað er hulið bakvið tjöldin. Spilið er ekki alltaf sanngjarnt né auðvelt en ef það er eitthvað sem að heillar þig þá á þetta spil svo sannarlega skilið að vera til í spilasafninu þínu. Vertu bara búinn að gera ráð fyrir því þegar að kemur að mánaðarlegum útgjöldum hvers mánaðar.