Spil

Birt þann 9. maí, 2017 | Höfundur: Magnús Gunnlaugsson

Spilarýni: Unlock! – „snilldarlega hannað“

Spilarýni: Unlock! – „snilldarlega hannað“ Magnús Gunnlaugsson

Samantekt: Mjög góð skemmtun fyrir 2-6 leikmenn sem vilja láta reyna örlítið á heilasellurnar.

4

Mjög gott!


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Ég fór einu sinni í Reykjavik Escape með kærustu minni og tveimur öðrum vinum mínum. Reykjavik Escape snýst um það að þáttakendur eru lokaðir inní herbergi uppfullu af misaugljósum vísbendingum sem þeir þurfa svo að púsla saman til að geta sloppið útúr herberginu. Til þess hafa þeir nákvæmlega 60 mínútur. Engir farsímar eru leyfilegir inní herberginu fyrir utan þann sem leikstjórnendur skaffa okkur. Í honum var einungis hægt að senda sms og fá til baka vísbendingu ef við vorum orðin algjörlega ráðlaus og vantaði sárlega aðstoð. Okkur fjórum tókst að sleppa útúr prísundinni eftir sléttar 44 mínútur og án allra vísbendinga. Það er eitthvað gríðarlega ánægjulegt að geta klórað sig í gegnum erfiðar þrautir og gátur sem lagðar eru fyrir mann, við klöppuðum sjálfum okkur á bakið fyrir útsjónarsemi og snilligáfu eftir að hafa leyst þær.

HVERNIG SKAL SPILAÐ

Unlock! er samvinnuspil fyrir 2-6 leikmenn sem snýst um nákvæmlega þessa upplifun! Í spilinu koma þrjú mismunandi ævintýri sem hafa sjálfstæða sögu og sinn stíl. Auk þess kemur örstutt kennslu ævintýri sem útskýrir allar reglurnar í spilinu svo á meðan þú færð smjörþef að því sem koma skal. Það eru engar umferðir leiknar í Unlock! Leikmenn vinna saman í kapphlaupi gegn tímanum og því eru allir sífellt að vinna samtímis.

Unlock! Notast við smáforrit sem telur niður tímann sem leikmenn hafa til að klára hvert ævintýri auk þess sem hægt er að fá vísbendingar séu leikmenn orðnir ráðþrota. Leikmenn þurfa einnig að slá inn fjögurra stafa talnaröð til að opna læstar dyr eða skápa sem leikmenn koma til með að rekast á.

Unlock! Notast við smáforrit sem telur niður tímann sem leikmenn hafa til að klára hvert ævintýri auk þess sem hægt er að fá vísbendingar séu leikmenn orðnir ráðþrota.

Hvert ævintýri hefst með smá inngangi um hvar þið eruð og hver sagan er og hvert takmarkið er. Á bakhliðinni er mynd af herbergi sem sýnir bæði tölur og/eða bókstafi sem merkja áhugaverða staði/vísbendingar. Leikmenn leita því næst í gegnum bunka sem telur 60 spil og mega leikmenn snúa við þeim spilum sem samsvara ýmist tölu- eða bókstöfum í bunkanum og sýnileg eru í herberginu. Í hverjum bunka eru fjórar mismunandi tegundir af spilum, rauð spil sem parast með bláum t.d ef þú finnur rautt spil nr 35 og blátt spil nr 11 þá eiga leikmenn að leggja saman þessar tvær tölur og fá út 46. Ef þeir finna spil merkt 46 í bunkanum mega þeir snúa því við og fleygja spili nr 35 og 11. Græn spil eru alltaf einhverskonar vélar sem búa til rauða tölu sem leikmenn get notað til að para við bláa. Gul spil krefjast þess alltaf að leikmenn slái inn fjögurra stafa talnaröð í smáforritið. Slái leikmenn inn ranga talnaröð þurfa leikmenn að ýta á villuhnappinn og stytta þar með tímann sem þeir hafa til að komast útúr herberginu.

Hægt er að sjá spilun á kennslu ævintýrinu í myndbandinu hér að neðan:
Það spillir vissulega fyrir ykkur kennslu ævintýrið en það hefur engin áhrif á þrjú stóru ævintýrin.

UPPLIFUN

Það koma þrjú ævintýri í Unlock! Hið fyrsta heitir The Formula en þar villast menn niður fyrir neðanjarðarlestarkerfið í NYC í leit að „sannleikslyfi“ sem læknirinn Dr. Hoffmann hefur fundið upp. Rannsóknarstofan er hinsvegar full af gildrum og þrautum sem er hægara sagt en gert að leysa. Annað ævintýrið er í teiknimyndastíl og heitir Squeek and Sausage þar sem hinn illi vísindamaður Dr. Noside hefur gangsett sprengju sem ætluð er til að eyða heiminum. Prófessorinn er illur snillingur, útsmoginn og slóttugur og þurfa leikmenn að leggja allt kapp í að snúa á Dr.Noside í þeirri von um að bjarga heiminum. Í þriðja ævintýrinu, The Island of Mr.Goorse, brotlenda leikmenn á eyðieyju sem er í eigu antíksafnara og milljarðamærings. Brotlendingin veldur því að leikmenn skiptast í tvo hópa sem geta ekki aðstoðað hvorn annann á nokkurn máta nema spilið segi til um það. Hvor hópurinn byrjar því með sitthvorn stokkinn og þurfa að þreifa sig þannig áfram ýmist tvö eða þrjú saman í stað þess að vera öll saman.

Ég verð að segja að þetta spil er að mínu mati snilldarlega hannað og smáforritið bíður upp á ýmsa möguleika þegar kemur að hönnun þrauta.

Ég verð að segja að þetta spil er að mínu mati snilldarlega hannað og smáforritið bíður upp á ýmsa möguleika þegar kemur að hönnun þrauta. Þau voru ófá AHA, YES og SNILLD móment sem upp komu í gegnum spilunina. Að sama skapi var það virkilega taugatrekkjandi að horfa á mínúturnar fjara út á meðan við klóruðum okkur í hausnum yfir þrautum sem við áttum erfitt með að leysa. Smáforritið gefur þó leikmönnum kost á að fá vísbendingar fyrir hvert og eitt spil verði leikmenn úrræðalausir. Tímateljarinn heldur leikmönnum á tánum svo að athyglin er í hámarki þann tíma sem spilið stendur yfir.

Fyrstu tvö ævintýrin eru svipuð í erfiðleikastigi að mínu mati, að geta leyst úr þeim á innan við klukkustund er bara virkilega vel gert. Þriðja ævintýrið gerir leikmönnum mun erfiðara fyrir og efast ég um að okkur hefði tekist að klára það þó við hefðum haft auka hálftíma eða klukkutíma.

Það verður þó viðurkennt að renni leikmenn út á tíma, sem kom einmitt fyrir mig og meðspilara mína í fyrsta ævintýrinu, að þá verður spilið ekki eins spennandi vegna þess að þá er ekki neitt lengur að keppast að. Það eru engar afleiðingar nái leikmenn ekki að klára herbergið á innan við klukkustund. Menn halda einfaldlega áfram þar til að ævintýrinu er lokið en fá lægra skor en ef það hefði tekist innan tímarammans. Annar ókostur við spilið er að þegar þú hefur klárað öll þrjú ævintýrin þá hefur spilið lokið líftíma sínum. Það er enginn möguleiki á endurspilun. Ég hinsvegar naut þess að horfa á aðra spilara rembast við að klára þrautirnar sem ég var nú þegar búinn að leysa.

Í framtíðinni væri svo einnig gaman að sjá ævintýri sem mynda heildstæðan söguþráð í gegnum þrjár spilanir og hvort leikmenn komust út á tilsettum tíma eður ei hefði áhrif á uppsetningu fyrir næsta spil.

Ef þið eruð ekki viss hvort þetta sé spil sem ykkur langar í þá er hægt að ná sér í Print and Play ævintýri…

Ef þið eruð ekki viss hvort þetta sé spil sem ykkur langar í þá er hægt að ná sér í Print and Play ævintýri með því að smella á eftirfarandi slóð: The Elite – Print and Play ævintýri. Ég hef sjálfur ekki spilað þetta ævintýri sem gerist í spilavíti. Þetta kemur í þjappaðri skrá og inniheldur reglurnar á pdf skjali sem og kennslu ævintýrið sem er í myndbandinu hér að ofan.

SAMANTEKT

Unlock! Er mjög góð skemmtun fyrir 2-6 leikmenn sem vilja láta reyna örlítið á heilasellurnar. Ég kem til með að ná mér í næstu ævintýri þegar þau koma út. Fjórar af fimm stjörnum mögulegar.

KOSTIR

Kennslu-ævintýrið gerir reglubókina svo gott sem óþarfa svo einfalt er spilið.

Þrautirnar er vel hannaðar og alls ekki augljósar.

Fallega myndskreitt spil sem krefjast þess að þau sé grandskoðuð í leit að vísbendingum.

Smáforritið nýtist vel við spilun en hefur ekki truflandi áhrif fyrir utan
ambient tónlistina sem er hægt að lækka í.

GALLAR

Lítið endurspilunargildi.

Engar afleiðingar nái leikmenn ekki að leysa úr verkefninu á tilsettum tíma.

Enginn línulegur söguþráður.

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑