Bíó og TV

Birt þann 10. maí, 2017 | Höfundur: Jósef Karl Gunnarsson

Kvikmyndarýni: Guardians of the Galaxy Vol. 2

Kvikmyndarýni: Guardians of the Galaxy Vol. 2 Jósef Karl Gunnarsson

Samantekt: Verndarar vetrarbrautarinnar eru mættir aftur og kunna að skemmta fólki. Stórgóð skemmtun!

4

Stórgóð!


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Allt gengið er mætt aftur og allt hefur verið lagt í sölurnar til að gera framhaldið í það minnsta eins gott og fyrri myndin.

Fyrri myndin sýndi okkur hvernig þessar ólíku persónur hittust og unnu saman til að bjarga vetrarbrautinni. Í þessari framhaldsmynd er talsvert auðveldara að fylgjast með sögunni þar sem við höfum kynnst persónunum áður og næsta ævintýri getur byrjað strax. Auðvitað nær hópurinn að espa upp lið og eru margir á eftir þeim. Í öllum hamaganginum hittir Peter Quill (Chris Pratt) alvöru föður sinn, Ego, en hann er leikinn af engum öðrum en Kurt Russell og er guð sem er líka pláneta.

Það er mikið grín í myndinni en einnig dramatík milli vissra persóna án þess að vera of væmið. Þó svo að samband Quill og föður hans ætti að vera miðpunkturinn þá stela hreinlega allir aðrir senunni frá Chris Pratt sem í rauninni fær lítið að gera hvað varðar húmorinn í þessari mynd. Vöðvatröllið Drax (Dave Bautista) er líklegast með bestu línurnar þar sem hann er ansi hreinskilinn. Michael Rooker, sem leikur Yondu, og Kurt Russell stimpla sig rækilega inn í þessari mynd og eigna sér hana.

Marvel heimurinn er alltaf að stækka og fyrir þá sem þekkja eitthvað til þá eru margar nýjar verur og plánetur sem koma við sögu. Þótt það sé ekki sýnt mikið frá þeim þá er alls ekki ólíklegt að við munum sjá meira í öðrum myndum úr Marvel heiminum.

Skemmtanagildið er mjög hátt og allt til fyrirmyndar hvað varðar brellur og að sjálfsögðu tónlistarvalið á seinni snældunni.

Undirritaður er ekki mikið fyrir ofurhetjumyndir en vísindaskáldskapur er meira en velkominn. Því er þessi blanda heppileg fyrir þennan gagnrýnanda. En spurningin hvort þessi toppaði fyrri myndina er snúin því maður sá hana aðeins einu sinni án mikillar vitundar um myndina. Mér finnst eins og ég hafi skemmt mér meira yfir þessari mynd en hinni en þyrfti þó að sjá fyrri aftur núna til að vera viss. Hvernig sem líður þá mun engum leiðast á þessari mynd og lengdin virðist ekki trufla flæði myndarinnar. Skemmtanagildið er mjög hátt og allt til fyrirmyndar hvað varðar brellur og að sjálfsögðu tónlistarvalið á seinni snældunni.

Það þarf nú varla að minnast á það en það er urmull af senum sem koma á milli og eftir enda kreditlistans. Þetta er víst mjög vinsælt að gera nú til dags en með þessa þá er allavega eitthvað sem er hægt að horfa á þar sem kreditlistinn er fallega skreyttur á meðan hann rúllar.

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑