Birt þann 2. apríl, 2017 | Höfundur: Þóra Ingvarsdóttir
Spilarýni: Mysterium (Tajemnicze Domostwo)
Frumlegt
Samantekt: Miðlar reyna að leysa morðgátur með aðstoð „draugs“. Glæsilegt spil sem er frumlegt í spilun, fallegt í útliti og fljótlært.
4.5
Tajemnicze Domostwo, eins og það heitir á frummálinu (spilið er einnig til í mjög svipaðri útgáfu á ensku og heitir þá Mysterium, en hér verður notast við pólsku frumútgáfuna), er samvinnuspil fyrir 2-7 spilara sem gengur út á að koma nákvæmum upplýsingum til skila eingöngu með fjölbreyttum myndspilum. Spilarar taka að sér hlutverk miðla sem reyna að leysa morðgátur með aðstoð „draugs“ sem sendir þeim vísbendingar í formi mynda. Nái þeir að túlka myndirnar rétt á nógu fáum umferðum komast þeir að því hver framdi morðið, hvar og með hvaða morðvopni, og hafa þá leyst morðgátuna og unnið spilið.
Spilið hefst á að ákveðið er hver spilaranna verði draugurinn og hinir spilararnir eru þá miðlarnir. Draugurinn skoðar viðeigandi spil og velur í leyni morðvopn, staðsetningu og morðingja fyrir hvern spilara. Hann leggur síðan út spil sem sýna morðvopn, staðsetningar og morðingja – meðal þeirra eru spilin sem draugurinn valdi fyrir hvern spilara en einnig nokkur önnur, þannig að miðlarnir hafa úr þónokkrum kostum að velja. Í hverri umferð dregur draugurinn síðan hönd af spilum með litríkum og fjölbreyttum myndum, sem hann deilir út til miðlanna til að reyna að gefa þeim vísbendingar um hvaða vopn, staðsetning og morðingi (í þeirri röð) tilheyri hverjum miðli. Miðlarnir mega ræða sín á milli hvað þeir haldi að vísbendingarnar eigi að tákna, en draugurinn má að sjálfsögðu ekki taka þátt í þeirri umræðu eða gefa frekari vísbendingar.
Spilararnir sættast á hvaða spil þeir halda að draugurinn sé að benda hverjum þeirra á, og draugurinn má síðan segja til um hvort það sé rétt eða ekki. Miðlarnir sem hafa giskað rétt á sitt spil fá þá í næstu umferð vísbendingar um næsta hlut í röðinni, en þeir sem giskuðu ekki rétt fá fleiri vísbendingar um sama hlut. Ef spilararnir ná að giska á rétt spil allra áður en öllum umferðunum lýkur, er spilið unnið, annars er því tapað.
Spilin í Tajemnicze Domostwo eru mjög fallega hönnuð og mjög fjölbreytt – spjöldin sem sýna morðvopnin, staðsetningarnar og morðingjana eru vel hönnuð að því leyti að þau eru full af litlum smáatriðum sem draugurinn getur nýtt til að tengja við vísbendingaspjöldin, sem eru líka mjög fjölbreytt og falleg. Hvað spilunina sjálfa varðar er hugmyndin frumleg og skemmtileg, einskonar óvenjulegur millivegur milli Cluedo og Dixit, og það er hæfilega erfitt – manni finnst maður eiga möguleika á að vinna en það er samt alls ekki bókað að spilararnir vinni alltaf.
Spilunin mun þó ekki henta öllum – þetta er ekki spil fyrir þá sem vilja harða samkeppni, og það gengur út á innsæi og túlkun miklu frekar en strategíu.
Spilunin mun þó ekki henta öllum – þetta er ekki spil fyrir þá sem vilja harða samkeppni, og það gengur út á innsæi og túlkun miklu frekar en strategíu. Einnig er í eðli spilsins að meðan draugurinn er að gera hafa miðlarnir mjög lítið að gera, og öfugt, og umferðirnar geta tekið svolítinn tíma þannig að spilararnir geta þurft að bíða svolitla stund milli þess sem þeir hafa eitthvað að gera, sem gæti aftur ekki hentað sumum spilurum. Að lokum má nefna að ástæða þess að hér er fjallað um pólsku útgáfuna er að enska þýðingin þykir ekki nærri jafn góð – þar er búið að bæta inn ýmsum fídusum og aukahlutum sem gera mjög lítið fyrir spilið nema að draga það á langinn.
Fyrir réttan hóp spilara er Tajemnicze Domostwo glæsilegt spil sem er frumlegt í spilun og fallegt í útliti. Það er fljótlært og endist þónokkrar endurspilanir.
Myndir: Portal Games