Birt þann 6. júlí, 2016 | Höfundur: Þóra Ingvarsdóttir
Spilarýni: Machi Koro – „gott og hnitmiðað spil“
Samantekt: Machi Koro er gott og hnitmiðað japanskt spil í fallegri útsetningu sem mjög margir geta haft gaman af.
3.5
Krúttlegt
Machi Koro er tiltölulega nýlegt spil (kom fyrst út 2012) fyrir 2-4 spilara, þar sem keppst er um að smíða sem stærsta og glæsilegasta borg.
Hver bygging sem byggð er gefur eiganda hennar undir mismunandi kringumstæðum mismunandi fjölda gullpeninga, sem síðan eru notaðir til að kaupa fleiri byggingar. Sá sem er fyrstur að byggja fyrirfram ákveðið sett af dýrum byggingum vinnur síðan spilið.
Machi Koro er ekki flókið í uppbyggingu – það samanstendur af spilastokki, slatta af pappírspeningum, og nokkrum teningum. Spilin sýna mismunandi tegundir bygginga sem hægt er að setja upp í borginni, allt frá hveitiökrum til verslunarmiðstöðva og flugvalla, ásamt því hvað kostar að byggja það og hvaða tekjur það veitir. Hver spilari byrjar með einn akur og eitt bakarí. Nokkur spil úr stokknum eru dregin blindandi og höfð í miðju borði, það eru síðan byggingarnar sem spilarar geta valið úr til að kaupa, og þar með byggja.
Spilið notast við teningakast á máta sem svipar örlítið til Settlers of Catan. Hver spilari kastar teningum í sinni umferð, og öll þau spil (óháð því hvaða spilari á þau) sem eru númeruð með tölunni sem kemur upp í teningakastinu „virkjast“ og hafa áhrifin sem standa undir þeirri byggingu, sem eru yfirleitt þau að eigandi byggingarinnar fær ákveðinn fjölda peninga. Það eru nokkrir mismunandi byggingaflokkar – sumar byggingar gefa bara peninga þegar það er eigandi þeirra sem fær viðeigandi tölu á teningana (en þær gefa þá yfirleitt mun fleiri peninga en aðrar byggingar), sumar gefa alltaf peninga sama hver kastaði teningunum, og sumar taka peninga frá öðrum spilurum. Síðan má spilarinn, ef hann hefur efni á því, velja hvort hann vill kaupa sér eina byggingu áður en næsti spilari á leik. Með því að fjölga smám saman byggingum borgarinnar aukast tekjur spilarans, sem getur þá unnið sig upp í að kaupa dýrari byggingar, og þaðan koll af kolli þangað til að einn spilari er búinn að byggja þær byggingar sem tilteknar eru í sigurskilyrðunum.
Þó að það þurfi vissulega að nota ákveðið mikla strategíu til að ákveða hvaða byggingar maður vilji kaupa og hvenær, koma teningaköstin í veg fyrir að það sé hægt að vinna á útsjónarseminni einni saman.
Þó að það þurfi vissulega að nota ákveðið mikla strategíu til að ákveða hvaða byggingar maður vilji kaupa og hvenær, koma teningaköstin í veg fyrir að það sé hægt að vinna á útsjónarseminni einni saman. Nokkur óheppin teningaköst í röð geta sett ákveðið ófyrirsjáanleikastrik í reikninginn og eyðilagt bestu borgarplön spilara, ef t.d. tölur koma síendurtekið upp sem þýða að hinir spilararnir fái að taka peninga af einhverjum einum spilara. Einnig er hætta á að teningaköstin virki í hina áttina, að einhver einn spilari fái það mörg heppin teningaköst í röð að hann fái töluvert forskot á hina spilarana, og það getur verið erfitt að jafna þegar einn er kominn langt á undan hinum. Auðvitað hafa allir spilarar jafn miklar líkur á að þetta gerist, en það er alltaf súrt þegar handahófskennd teningaköst eyðileggja vandlega skipulagða strategíu.
Þar sem umferðirnar eru svo stuttar gengur spilið yfirleitt býsna hratt, og þar sem teningaköstin geta haft áhrif á alla spilara óháð því hver er að kasta þeim, er sjaldan dauður tími hjá neinum spilara, og spilið í heild sinni tekur stundum ekki nema hálftíma. Spilið er upprunalega frá Japan, og er eftir því krúttlegt – spilaspjöldin eru litrík með fjölbreyttum og fallegum myndum. Það getur því hentað vel sem fjölskylduspil (krefst stutts athyglis spans) eða fyrir fólk sem er kannski ekki forfallið borðspilanörd.
Machi Koro er kannski ekki fyrir allra mestu strategíuspilarana, en það er gott og hnitmiðað spil sem mjög margir geta haft gaman af.