Spil

Birt þann 23. júní, 2016 | Höfundur: Þóra Ingvarsdóttir

Borðspil og íþróttir – ónýttur markaður eða ósamræmanleg efni?

Íþróttir eru mörgum sérstaklega ofarlega í huga þessa dagana þar sem íslenska karlalandsliðið í fótbolta hefur verið að leika listir sínar í Frakklandi við góðar undirtektir. Í tilefni þess ákvað ég að fjalla aðeins um íþróttatengd borðspil. Það kemur hinsvegar í ljós við nánari skoðun og yfirlit að þrátt fyrir að bæði íþróttir og borðspil séu og hafi lengi verið hluti af vestrænni afþreyingarmenningu, hefur furðu lítill samruni orðið milli þeirra. Það er hægt að finna borðspil sem ganga út á allt milli himins og jarðar, en það er lítið úrval af góðum íþróttaborðspilum.

Það eru vissulega til spil með íþróttaþema – borðspilið Blood Bowl, sem hefur notið ágætis vinsælda, gengur t.d. út á að spila eitthvað sem líkist mikið amerískum fótbolta með liðum sem samanstanda af Warhammer fantasíupersónum (Blood Bowl tölvuleikurinn hefur líka verið ansi vinsæll), og borðfótboltaspilin og borðhokkíspilin sem allir þekkja eru auðvitað líka á vissan hátt borðspil. Svo eru ýmis minna þekktari spil sem njóta þó einhvers fylgis, eins og t.a.m. gamla fígúruspilið Subbuteo eða annað amerískt fótboltaspil, 1st And Goal.

Blood_Bowl_spil

Svo er það önnur hlið á flokknum að það eru auðvitað til spil sem keppt er í svipað og í hefðbundnum íþróttum þó þemað sé ekki íþróttatengt. Magic: The Gathering er gott dæmi um vinsælt spil sem mikið er keppt í með formlegum hætti, og svo mætti auðvitað nefna viðburði eins og spilamótin sem Nexus heldur reglulega í spilum eins og Pandemic og fleirum. Tölvuleikurinn Hearthstone er í eðli sínu kortaspil, og hann hefur lengi vel verið einn vinsælasti áhorfsleikurinn á Twitch. Síðan er póker auðvitað líka spilaður sem áhorfsíþrótt, og hann er að sjálfsögðu klassískt kortaspil.

Maður hefði haldið að íþróttir, þar sem fólk keppir sín á milli í að ná sem bestum árangri og oft sem flestum stigum, myndu henta vel til aðlögunar að borðspilsforminu, en það virðist einhvernveginn ekki hafa verið gert eins mikið og maður hefði haldið, eða að minnsta kosti ekki vel.

Maður hefði haldið að íþróttir, þar sem fólk keppir sín á milli í að ná sem bestum árangri og oft sem flestum stigum, myndu henta vel til aðlögunar að borðspilsforminu, en það virðist einhvernveginn ekki hafa verið gert eins mikið og maður hefði haldið, eða að minnsta kosti ekki vel. Hugsanlega er hér um einhverjar gamlar stereótýpur að ræða – að boltabullur spili ekki borðspil, og spilanördar hafi engan áhuga á íþróttum, þannig að það taki því þess vegna ekki að sameina þessa tvo markhópa. En er þetta ekki búið að breytast mikið í dag? Gæti ekki verið kominn markaður fyrir fleiri íþróttaborðspil? Eða hvað, eru stereótýpurnar kannski réttar, og ástæðan fyrir því að svona fá vinsæl íþróttaborðspil eru til er að það sé enginn áhugi til staðar þar sem þau falli í tómið á milli tveggja óskyldra markhópa, að það sé bara ekki hægt að gera nógu gott íþróttaborðspil til að það nái neinum vinsældum?

Hvað finnst fólki? Mættu vera til fleiri íþróttaborðspil eða er bara ekki nægur áhugi til staðar fyrir þeim?

Myndir: Blood Brawl og Wikimedia

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑