Spil

Birt þann 23. maí, 2016 | Höfundur: Ingunn Jóna Þórhallsdóttir

Fimm frábær spil í ferðlagið

Það er fátt sem fullkomnar bústaðaferðina, útileguna eða partýið í sumar betur en gott borðspil. Það getur samt verið vandasamt að finna rétta spilið til að taka með sér. Mörg borðspil koma í mjög stórum kössum, hafa mikið af smáhlutum, krefjast þess að hafa stórt og gott borð eða þess vegna allt ofantalið. Hér ætla ég að taka saman nokkur spil sem eru ekki of stór í umfangi, auðveld, skemmtileg og skapa góða stemningu, hvort sem um fjölskylduferð eða partýferð er að ræða.

Cards against humanityCARDS AGAINST HUMANITY

Þetta spil er alls ekki fyrir viðkvæmar sálir. Það inniheldur mikið af ljótu orðbragði og er hannað til að fá fólk til að sjóða saman setningar sem eru ekki við hæfi barna. Í réttum hópi fólks er þetta spil samt mjög skemmtilegt. Það er einfalt í uppsetningu og notkun. Spilið gengur út á það að einn spilari les upp setningu sem inniheldur eyðu. Hinir spilararnir eiga að fylla í þá eyðu með spilum sem þeir hafa á hendi. Þegar allir hafa valið spil af hendi les fyrsti spilarinn upp setningarnar með eyðunum inn í, yfirleitt við mikil hlátrasköll, og velur svo hvaða samsetning honum fannst fyndnust. Eigandi þess spils vinnur og fær 1 stig fyrir. Svona heldur spilið svo áfram eins lengi og spilarar hafa áhuga. Kassinn er ekki stór og mjög hentugt að grípa hann með í ferðalagið, hvert svo sem förinni er heitið.

resistance-avalonTHE RESISTANCE: AVALON

Þetta spil er alger snilld í partýum, á spilakvöldum, í bústaðnum og bara hvar sem er. Þetta er blekkingarspil sem fær fólk til að tala saman, rökræða og jafnvel rífast. Baráttan er á milli góðs og ills. Hver spilari fær hlutverk í upphafi leiksins og vondu karakterarnir vita af hver öðrum en ekki hinir góðu. Hins vegar er einn karakter í góða liðinu sem veit hverjir hinir vondu eru, en má ekki segja það upphátt og verður að tala svolítið undir rós og reyna að fá sitt lið til að hlusta á sig án þess að vera of augljós.

Farið er í nokkra leiðangra í leiknum og eiga hinir vondu að reyna að klúðra þeim. Ef vonda liðið nær að klúðra þrem af fimm leiðöngrum vinna þeir. Tilgangur leiksins er að reyna að fá einungis góða með sér í þessa leiðangra svo að hinir vondu nái ekki að skemma leiðangurinn.

SKULL & ROSES

SKULL-AND-ROSESOfureinfalt spil sem spilast mest í hausnum á spilurum. Spilið gengur út á að leikmenn spila út spilum (eða hálfgerðum glasamottum) á hvolf á borðið fyrir framan sig. Þannig gengur það þar til einhver spilari ákveður að reyna að fletta upp spilunum. Spilarinn ákveður þá hvað hann heldur að hann geti flett mörgum spilum án þess fá upp hauskúpu. Aðrir spilarar geta yfirboðið hann og þegar allir eru sáttir á sá sem vann uppboðið að fletta þeim fjölda spila sem hann valdi og verður að byrja á að fletta sínu efsta spili. Þegar spilari hefur flett upp spilum tvisvar án þess að upp komi hauskúpa hefur sá spilari unnið spilið.
Þetta spil gengur svolítið út á blekkingar og eins smá kænsku. Það er nauðsynlegt að hafa gott pókerfés til að ná langt í þessu spili.

jUNGLE-SPEEDJUNGLE SPEED

Þetta spil er fyrir fólk á öllum aldri og er mjög hentugt í fjölskylduferðir. Spilið inniheldur bunka af spilum og gúmmístöng. Spilunum er skipt jafnt á milli leikmanna og gúmmístönginni komið fyrir í miðjunni þar sem allir hafa jafn gott aðgengi að henni. Takmarkið með leiknum er að losna við öll spilin sín.

Á spilunum eru alls kyns mynstur og tákn, í mörgum litum. Þegar sama táknið kemur upp hjá spilurum eiga þeir að reyna að grípa gúmmístöngina og sá sem nær henni gefur hinum spilaranum bunkann sinn. Til að gera spilið enn erfiðara eru mörg táknanna mjög svipuð og þá getur fólk verið svolítið fljótt á sér og gripið stöngina óvart. Spilið inniheldur líka nokkrar aukareglur sem gera leikinn enn flóknari. Mjög skemmtilegt spil, nema mótspilarar séu með langar og beittar neglur. Það er líka mjög lítið umfangs. Með kassanum fylgir taupoki sem hægt er að geyma bæði spilin og gúmmístöngina í svo það er auðvelt að troða því í hvaða tösku sem er.

TVENNA

Þetta spil er mjög lítið umfangs, bara einn spilastokkur af hringlaga spilum og hentar mjög vel yngstu kynslóðinni. Einnig skemmtilegt fyrir langar bílferðir. Á hverju spili eru átta myndir og inniheldur spilið 50 mismunandi myndir. Hægt er að spila Tvennu á nokkra vegu, en tvær algengustu leiðirnar eru eftirfarandi:

TvennaLeið 1
Allir spilarar fá 1 spil úr stokknum og er það sett á hvolf fyrir framan spilarann. Restin af bunkanum er sett á mitt borðið og vísa táknin upp. Svo mega leikmenn lyfta sínum spilum. Sá sem er fyrstur að finna sama táknið á sínu eigin spili og því í borði segir upphátt hvaða samstæðu hann fann og tekur þá spilið. Svona heldur það áfram þar til öll spil eru búin.

Leið 2
Þessi aðferð er í raun alveg öfug við hina. Þá er stokknum skipt á milli leikmanna og eitt spil sett í miðjuna. Þá er takmarkið að losa sig við sinn stokk á undan hinum leikmönnunum. Leikreglur eru eins, það þarf að taka fram hvaða tvennu leikmaður hefur og svo er það spil sett efst á bunkann í miðjunni.

Þessi listi er langt frá því að vera tæmandi og til er ógrynni af skemmtilegum litlum spilum sem henta vel í ferðalagið. Mæli með að koma við í Nexus eða Spilavinum áður en farið er á vit ævintýranna og grípa eitt spil með sér. Starfsfólk beggja staða eru uppfullir af upplýsingum og geta leiðbeint fólki í rétta átt. Spil þurfa ekki að vera dýr, hægt er að fá mörg góð ferðaspil á lágu verði ef maður veit hvar á að leita.

Gleðilegt spilasumar allir!

Mynd: CAH

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑