Leikjarýni

Birt þann 3. apríl, 2016 | Höfundur: Nörd Norðursins

Leikjarýni: Unravel – „gullfallegur þrautaleikur“

Leikjarýni: Unravel – „gullfallegur þrautaleikur“ Nörd Norðursins

Samantekt: Góður leikur fyrir þá sem hafa gaman af þrauta-platformerum með smá tvisti.

4.5

Mjög góður


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Unravel er þrautaleikur frá sænska indí leikjafyrirtækinu Coldwood Interactive sem var gefinn út í seinasta mánuði á PlayStation 4, Xbox One og PC. Í leiknum stjórnar spilarinn hinum ofur krúttlega Yarny sem er búinn til úr garni og þarf að ferðast á milli staða í náttúrunni og elta minningar.

Spilarinn fær ekki að vita mikið í byrjun leiks. Gömul kona gengur upp tröppurnar heima hjá sér og úr körfunni hennar dettur rautt garn sem verður að Yarny, söguhetju leiksins. Yarny getur gengið um hús konunnar og skoðað fjölskyldumyndir sem eru til sýnis um húsið. Hver mynd inniheldur borð sem spilarinn þarf að klára og í því fangar hann minningar og fær með hverju kláruðu borði að kynnast baksögunni betur.

Ég þarf að koma þessu frá mér sem fyrst: Leikurinn er gullfallegur!

Ég þarf að koma þessu frá mér sem fyrst: Leikurinn er gullfallegur! Strax í byrjun nær Unravel að fanga augað með fallegu landslagi og raunverulegri grafík. Náttúran í leiknum minnir mann oft á það sem finnst í íslenskri nátturu og getur verið ótrúlega róandi að hlusta á hljóðin í fuglunum, sjónum og rigningunni. Umhverfi leiksins er það vel gert að það er mjög auðvelt að detta hratt inn í leikinn. Það sama á við um Yarny, hann er vel gerður en ofan á það er hann svo saklaus og krúttlegur að það er hreinlega erfitt að falla ekki fyrir honum og þykja vænt um greyið. Ofan á þessa þætti bætist svo söguþráður leiksins.

Unravel_02

Söguþráðurinn er í raun ekki mjög djúpur en með því að gefa spilaranum aðeins lítil brot af baksögunni eftir hvert borð nær það að halda spilaranum forvitnum. Hvert borð tekur ekki nema u.þ.b. 10-30 mínútur að klára og er því mjög freistandi að hoppa strax í næsta borð og sækja næsta sögubrot.

Unravel er þrauta-platformer. Rauði þráðurinn í leiknum er – rauði þráðurinn!

Unravel er þrauta-platformer. Rauði þráðurinn í leiknum er – rauði þráðurinn! Eins og áður sagði er Yarny búinn til úr rauðu garni og skilur eftir sig rauða slóð af garni hvert sem hann fer. Þannig getur hann flækt sig, sveiflað sér á milli staða og bundið garnið við hluti í umhverfinu. Þrautirnar eru sjaldnast mjög erfiðar en það koma þó hóflega mörg tilfelli þar sem nauðsynlegt er að klóra sér aðeins í hausnum og hugsa.

Unravel er gullfallegur þrautaleikur sem nær að halda góðu flæði gangandi í gegnum leikinn með þrautum, fegurð og baksögu. Það eina sem ég fann við leikinn sem angraði mig svolítið er að þessi fáu skipti sem maður festist í leiknum þá gefur leikurinn ekki kost á því að gefa þér vísbendingar um næsta skref. Þetta er þó ekki stór galli þegar á heildina er litið. Þetta er klárlega leikur fyrir þá sem hafa gaman af þrauta-platformerum með smá tvisti.

Bjarki Þór Jónsson

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnEfst upp ↑