Birt þann 26. mars, 2016 | Höfundur: Nörd Norðursins
Bókarýni: Stúlkan með náðargjafirnar
Samantekt: Söguþráður er góður og persónusköpun er að mestu leyti góð og trúverðug.
4.5
Góð bók!
Védís Ragnheiðardóttir skrifar:
„Einlæg, vægðarlaus og átakanlega mannleg … jafnfersk og hún er hræðileg. Perla.“ Þessi orð lét Josh Whedon falla um Stúlkuna með náðargjafirnar (Upprunalegur titill The Girl with all the Gifts) samkvæmt kápu bókarinnar. Ekki voru aðrir gagnrýnendur neikvæðir, einn kallaði bókina meistaraverk, annar sagði hana frumlega, æsispennandi og magnaða. Ég er alltaf hrædd þegar ég hef lestur á bókum sem fá svona rosaleg ummæli, ég hef of oft upplifað það að verða fyrir algjörum vonbrigðum með bók sem gagnrýnendur halda ekki vatni yfir, eða sem vinir og kunningjar hafa hrósað í hástert. Lofi bók því að hún sé meistaraverk þá ætlast ég til þess að hún komi sem næst því – og fyrir mitt leyti stendur Stúlkan með náðargjafirnar undir gífuryrðunum.
Hér er ekki um að ræða hefðbundnar formúlubókmenntir; það er kjöt á þessu beini.
Ég get raun afskaplega lítið sagt um söguþráðinn án þess að spilla upplifun lesandans. Sagan er nokkurs konar hryllingssaga sem gerist í dystópískri framtíð og þótt hún hafi í einhverjum tilfellum verið flokkuð sem ungmennabók á hún fullt erindi við fullorðna. Söguþráður er góður og persónusköpun er að mestu leyti góð og trúverðug. Hér er ekki um að ræða hefðbundnar formúlubókmenntir; það er kjöt á þessu beini. Sagan er sögð frá sjónarhorni aðalpersóna til skiptis, lesandi heyrir hugsanir persóna og upplifir tilfinningar þeirra. Þetta veitir áhugaverða innsýn í ólíka hugarheima persónanna og gæðir bókina dýpt. Þessi sjónarhornaskipting neyðir lesanda einnig til að hugsa um hinar ólíku stöður sem persónur bókarinnar eru í, og þær hugsanir kveikja upp siðferðilegar spurningar, hverju erum við tilbúin að fórna til að bjarga okkur?
Bygging sögunnar er afar skemmtileg, upplifunin er nánast eins og maður sé að horfa inn um hurð, í fyrsta kafla sér maður aðeins gegnum skráargatið en eftir því sem líður á bókina opnast dyrnar meira og meira þar til skyndilega blasir sannleikurinn við manni. Vandinn við þessa byggingu er hins vegar að ef maður veit fyrirfram eitthvað um efnistök er maður rændur þessari upplifun – svo ég mæli með því að forðast að gúgla bókina, lesið bara og upplifið!
Sagan er byggð á verðlaunasmásögu höfundar og fer hún þessa dagana gegnum aðra aðlögun, en kvikmynd byggð á sögunni er í framleiðsluferli og gera má ráð fyrir að hún verði frumsýnd síðar á þessu ári.
Sagan er byggð á verðlaunasmásögu höfundar (M.R. Carey) og fer hún þessa dagana gegnum aðra aðlögun, en kvikmynd byggð á sögunni er í framleiðsluferli og gera má ráð fyrir að hún verði frumsýnd síðar á þessu ári. Þegar tilkynnt var hvaða leikarar höfðu orðið fyrir valinu varð strax ljóst að ákveðin breyting hefði orðið á sögunni þar sem litarhafti persóna hafði verið umsnúið. Margar gagnrýnisraddir heyrðust, enda hefur kvikmyndaiðnaðurinn legið undir ámælum upp á síðkastið fyrir að endurspegla ekki fjölbreytileika samfélagsins. Áhugavert verður að sjá hvernig verður unnið með söguþráðinn í myndinni og hvort þessi umsnúningur sé til marks um að miklu verði breytt. Söguþráðurinn mun ugglaust virka vel á kvikmyndatjaldi, en ég mæli þó með að allir lesi bókina, enda er andrúmsloftið í henni heillandi og ekki er víst að gæsahúðarvaldandi smáatriðin komist til skila á stóra tjaldinu.
Þýðing Magneu er góð og bókin er að mestu leyti laus við stafsetningar- og málfarsvillur, nokkuð sem má vel hrósa fyrir á tímum þar sem metnaður í frágangi virðist sífellt fara minnkandi. Björt, útgáfumerki Bókabeitunnar, hefur greinilega metnað til að færa Íslendingum vandaðar bókmenntir í vönduðum umbúðum, og yfir því má gleðjast.
Myndir: Bókakápa og Wikimedia Commons (Chingchan Holz)