Fréttir

Birt þann 20. ágúst, 2015 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Box Island kemur út eftir helgi – Rökfræðilegur þrautaleikur fyrir krakka

Box_Island_ipadÍslenska tölvuleikjafyrirtækið Radiant Games mun gefa út tölvuleikinn Box Island þriðjudaginn 25. ágúst hér á Íslandi. Um er að ræða „soft launch“ þar sem leikurinn verður aðeins fáanlegur iPad notendum hér á landi til að byrja með en gert er ráð fyrir því að leikurinn verði fáanlegur víðar um heim á þessu eða næsta ári. Þetta er fyrsti leikurinn sem Radiant Games gefur út en Radiant Games tók þátt í Imagine Cup árið 2012 og lentu þar í 4.-5. sæti með leikinn Robert’s Quest.

Radiant Games hafa verið nokkuð áberandi í umræðunni undanfarna mánuði og tóku meðal annars þátt í Slush PLAY ráðstefnunni í Reykjavík og voru viðstaddir Nordic Game Conference í Malmö til að kynna Box Island.

Box Island er rökfræðilegur þrautaleikur (e. logical puzzle game) fyrir iPad spjaldtölvur sem á að auðvelda krökkum að beita grunngildum forritunar og efla rökfræðilegan hugsunarhátt að sögn Vignis Arnar Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Radiant Games. Út frá því sem við sáum og heyrðum á kynningu Radiant Games á Slush PLAY verður leikurinn litríkur þar sem fókusinn er fyrst og fremst settur á að gera leikinn skemmtilegan í spilun fyrir krakka, en á sama tíma kenna þeim grunngildi í forritun. Markhópurinn eru krakkar á aldrinum 8-12 ára.

Í leiknum stjórnar spilarinn Hiro, sem er aðalsöguhetja leiksins:

Í leiknum taka krakkar þátt í ævintýri á eyjunni Box Island, en þar fer aðalsöguhetjan Hiro í leiðangur til að bjarga vini sínum eftir að loftbelgur þeirra brotlenti á eyjunni.  Spilunin í leiknum virkar þannig að krakkar þurfa að hjálpa Hiro að komast framhjá ýmsum hindrunum á ferðalagi sínu um eyjuna, ásamt því að safna loftbelgsbútum til að setja loftbelginn aftur saman.

segir Vignir Örn og útskýrir í framhaldinu hvernig leikurinn er spilaður:

Spilarinn þarf að nota verkfærakistu sem inniheldur þrjár tegundir af forritunaraðgerðum (hefðbundnar aðgerðir, lykkjur og skilyrðissetningar) til þess að leysa þrautirnar. Aðgerðir eru einfaldlega dregnar úr verkfærakistunni og settar saman í aðgerðarunu (forrit) til að hjálpa Hiro að ferðast áfram. Þrautirnar eru framsettar á borði sem hefur mismarga reiti eftir þraut. Á borðinu geta verið óvinir, holur, kassar, skeljar, og fleiri hlutir sem geta annað hvort hjálpað eða skemmt [fyrir spilaranum].

Yfir 50 borð eru í núverandi útgáfu leiksins og ferðast spilarinn um eyjuna, meðal annars á strönd, í skóg og á eldfjall eyjunnar.

Við hjá Nörd Norðursins munum að sjálfsögðu halda áfram að fylgjast með Box Island og hvetjum foreldra, kennara og aðra áhugasama til að kíkja á og prófa leikinn þegar hann kemur á App Store 25. ágúst næstkomandi.

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑