Íslenskt

Birt þann 11. nóvember, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Plantan á ganginum – Myndasögusýning í myndasögudeild Borgarbókasafns

Föstudaginn 7. nóvember opnuðu systurnar Elísabet Rún og Elín Edda myndasögusýningu í aðalsafni Borgarbókasafns Reykjavíkur. Á sýningunni er fyrsta myndasaga þeirra í fullri lengd, Plantan á ganginum.

Elísabet Rún stundar nám í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. Elín Edda er á lokaári sínu á eðlisfræðibraut við Menntaskólann í Reykjavík. Samhliða því hefur hún sótt námskeið í Myndlistaskólanum í Reykjavík og stefnir á nám í listum. Þessa dagana vinnur hún að nýrri grafískri skáldsögu. Þær höfðu báðar fengist við myndasögugerð í langan tíma áður en þær ákváðu að vinna saman að gerð Plöntunnar á ganginum.

Plantan á ganginum birtist upphaflega sem vefmyndasaga og fór fyrsti ramminn í loftið þann 20. júní 2012. Systurnar luku sögunni í byrjun ársins 2014 og hafa síðan unnið að því að gefa hana út á prenti. Bókin kom út á sama tíma og sýningin opnaði, föstudaginn 7. nóvember 2014.

Plantan á ganginum fjallar um Geirþrúði sem býr í íbúð fullri af plöntum og blómum í miðbæ Reykjavíkur. Hún umgengst fáa aðra en plönturnar sínar en skrifast á við frænku sína, Ýrr, sem er á sífelldu ferðalagi um heiminn. Líf Geirþrúðar, sem áður var heldur tíðindalaust, breytist þegar hún kemur afar sérstakri plöntu fyrir á stigaganginum í húsinu. Sá atburður leiðir til þess að hún kynnist nágranna sínum, Örvari, og sér þá að þau eiga meira sameiginlegt en hún hafði haldið.

Plantan á ganginum er ljóðræn og tilraunakennd saga um vináttu og að vera öðruvísi. Sagan er samvinnuverkefni systranna og er því teiknuð í tveimur stíltegundum. Auk þess leituðust báðir teiknarar við að leyfa sköpunarkraftinum og fjölbreytileika teikningarinnar að ráða för.

Hægt er að nálgast myndasöguna á slóðinni: http://theplantinthehallway.tumblr.com/.

Eins og áður segir er sýningin staðsett í aðalsafni Borgarbókasafns, Tryggvagötu 15, í myndasögudeild á annarri hæð. Sýningin stendur fram í miðjan janúar 2015.

– Fréttatilkynning frá höfundum

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑