Birt þann 9. apríl, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Kvikmyndarýni: Captain America: The Winter Soldier
Ef að þið eruð að lesa þessa gagnrýni, þá hafið þið líklega séð flestar (ef ekki allar) nýjustu Marvel ofurhetjumyndirnar, frá Hulk til nýjustu myndarinnar Captain America: The Winter Soldier. Og ef að þið eruð eitthvað eins og ég, þá hafið þið misjafnar skoðanir á öllum þessum myndum. Ég held því t.d. fram að Iron Man myndirnar hefðu aldrei verið vinsælar án ákveðins manns sem var fæddur til að leika Tony Stark. Því að þó að Iron Man myndirnar geti verið skemmtilegar að horfa á, þá skilja þær ekki mikið eftir sig.
Sem betur fer á það ekki við nýjustu Captain America: the Winter Soldier. Ég ætla að reyna að rýna í myndina eins og ég get án þess að segja of mikið en mæli helst með því að vita sem minnst um CA: The Winter Soldier áður en þið farið að sjá hana. Eina sem ég segi: Ykkur mun ekki leiðast og það er hægt að horfa á þessa mynd án þess að hafa nokkurn tíma horft á hinar Marvel myndirnar (þó að ég mæli ekki með því).
Þá byrjar gagnrýnin. Núna þegar upprunasaga Captain America er búin kynnumst við nýja lífi Steve Rogers þar sem hann aðlagast nútímanum og vinnur fyrir SHIELD ásamt Black Widow.
Það sem ber mest að marka hvað varðar nýja Captain America er hversu ótrúlega raunverulega heimur þeirra virkar. Já, Captain America er ofurhermaður búinn til í seinni heimstyrjöldinni til að kýla Hitler. Já, hann er ótrúlega sprækur miðað við að hafa verið frosinn í nokkra áratugi. Já, bestu vinir hans eru meðal annars guð, grænt tröll, bogamaður og Robert Downey Jr. Allir þessir þættir eru náttúrulega stórfurðulegir en myndin lætur þetta allt líta út fyrir að vera mjög hversdagslegt. Allar persónurnar haga sér eins og raunverulegt fólk.
Myndin leyfir okkur að kynnast Sam Wilson (Falcon) sem venjulegum, fyrrverandi hermanni áður en hann gengur til liðs við CA og Black Widow með vængi á bakinu. CA vinnur við það að slást við hryðjuverkamenn en hann spjallar við Black Widow um hversdagslíf sitt á meðan. Nick Fury segir CA frá afa sínum, líklega eina sem við höfum fengið að vita um einkalíf Nick Fury hingað til. Við fáum meira að segja góða ástæðu fyrir því að vondu karlarnir vilja það sem þeir vilja í staðinn fyrir að segja bara, „hey, ég er vond manneskja, best að byrja að drepa fólk og taka yfir heiminum.“ Kaldhæðnislega þá er eina persónan sem fær ekki mikinn tíma á skjánum, er the Winter Soldier.
Ef að þú þekkir til persónanna í þessari mynd eða bara þekkir leikarana, áttu eftir að sjá fram á hvað gerist. En það eyðileggur ekki endilega hasarinn þar sem þetta er ennþá aðlaðandi mynd með nokkrar breytingar hvað varðar persónurnar til þess að gera þetta mun áhugaverðara. Svo geturu skemmt þér við að sjá og heyra nokkrar vísbendingar um næstu myndir, þar á meðal nafn á ákveðnum skrítnum einstaklingi sem er muldrað uppá þaki. Eitt er víst, næsta Avengers mynd mun innihalda tvöfalda skemmtun.
Höfundur er Sandra Rós Björnsdóttir,
teiknari, áhuganörd um flest allt.