Fréttir

Birt þann 17. mars, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Nýr Gauntlet leikur kynntur fyrir Steam

Fyrir stuttu kynntu Warner Bros. Interactive Entertainment að tölvuleikurinn Gauntlet kæmi út í sumar. Ekki er um að ræða endurútgáfu á hinum klassíska Gauntlet frá 1985, heldur endurgerða útgáfu af leiknum sem verður gefinn út á Steam fyrir PC ásamt stuðningi við SteamOS stýrikerfið sem mun keyra hinar nýju Steam Machine leikjatölvur.

Gauntlet er sennilega hvað frægastur fyrir að hafa verið mjög vinsæll spilakassaleikur á miðjum níunda áratugnum, en hann var einnig gefinn út fyrir leikjatölvur og var meðal annars einn af fáu leikjum fyrir NES tölvuna sem leyfði fjórum spilurum að spila samtímis. Í leiknum gátu allt að fjórir spilarar sameinað krafta sína sem stríðsmaðurinn Thor, galdramaðurinn Merlin, valkyrjan Thyra og álfurinn Questor. Saman ferðuðust spilararnir í gegnum dimmar dýflissur, börðust við her af ófreskjum og söfnuðu lyklum til að komast áfram í næsta borð.

Nýji Gauntlet leikurinn, sem er í þróun af Arrowhead Game Studios, mun byggja á svipaðri spilaformúlu og forveri sinn, þar sem áhersla er lögð á samspil leikmanna til að ná markmiðum sínum. Af stiklunni að dæma er útlit leiksins nokkuð flott, og spilunin virkar eins og hraðari en jafnframt einfaldari útgáfa af Diablo 3. Til að byrja með munu PC spilarar aðeins getað spilað við vini sína í gegnum netið, en með tilkomu Steam Machine leikjatölvunnar munu aðdáendur gamla Gauntlet fljótlega geta spilað leikinn á sófanum með vinum sínum.

 

Stikla

Heimild: Eurogamer

 

Höfundur er Kristinn Ólafur Smárason,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑