Leikjarýni

Birt þann 1. mars, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Gran Turismo 6

Mín fyrstu kynni af Gran Turismo leikjaseríunni voru á gömlu góðu PlayStation leikjatölvunni en einn vinur minn átti annað hvort fyrsta eða annan leikinn. Grafíkin telst nú til dags ekkert til að hrópa húrra yfir en á þeim tíma fannst mér þetta líta ansi vel út og frekar raunverulegt. Því miður þá var það ekki nóg fyrir mig og hafði ég meira gaman af Need for Speed 2 eða Destruction Derby 2.

Ég er mjög lítið fyrir bíla, sé þá bara sem tæki til að koma mér á milli staða og því veit ég lítið sem ekkert um bíla. Þannig að ég hef ekkert vit þegar kemur að bílamálum eins og hversu mikið bíllinn eyðir á hundraði eða hversu mörg hestöfl hann hefur. Ég get sett bensín á hann, mælt olíuna og skipt um dekk en allt annað er of flókið fyrir mig. Þrátt fyrir allt þetta þá þýðir það ekki að ég geti ekki dáðst af flottum bílum hvort sem þeir eru gamlir eða nýir. En nóg um það… Sjötti og nýjasti Gran Turismo leikurinn kom í verslanir síðastliðinn desember og kominn tími til að nördinn kíkti undir húddið á þeim leik.

Í einspiluninni þarf maður að vinna sig upp í metorðastiganum, safna stjörnum sem aflæsa prófum sem gerir manni kleift að keppa í öðrum klassa. Maður vinnur sér inn pening og þarf fyrst að nota það í bílakaup eða uppfærslur þegar maður er hálfnaður upp metorðastigann. Bílarnir sem maður byrjar á og fær í gjafir eftir hvern klassa eru engar glæsikerrur og því er nauðsynlegt að kaupa hraðskreiðari bíla þegar keppnin harðnar.

GT6

Einnig eru aukaþrautir og áskoranir sem eru vel þegnar þegar maður er þreyttur á kappakstrinum. Sumar eru tímaþrautir, sparneytisakstur og að fella eins margar umferðarkeilur og maður getur innan ákveðins tíma. Sumt af þessu er lúmskt erfitt og getur pirrað mann mikið ef maður vill fá gullbikarinn. Seinna meir aflæsir maður fleiri viðburði eins og brautir þar sem maður þeysist á gömlum klassískum bílum um erfiða braut. Ekki nóg með það þá er hægt að keyra á tunglinu á tungljeppa, eins spennandi og það hljómar þá kemur það ekki til skila í spilun. Annað furðulegt sem var í boði var að taka ljósmyndir af bílum á fallegum stöðum í mismunandi borgum.

GT6

Eins mikið og var lagt í þennan aksturhermi þá vantar svolítið meira til að gera hann raunverulegri. Það fyrsta sem maður tekur eftir eru áhorfendurnir sem fylgjast með kappakstinum bakvið girðingar á brautinni. Viðbrögð þeirra eru of hæg eða ekki í samræmi við það sem maður myndi gera ef maður sæi bíl á fulla ferð í átt að manni, sama þótt það sé girðing eða veggur til varnar. Sumir þeirra urðu einskis varir við beinum árekstrum mínum á steypuklump upp við girðingu sem þeir stóðu bakvið. Tölvustýrðu bílarnir virðast ekki pæla mikið í manni þegar maður er að fara fram úr þeim og þeir fara oftar en ekki í beygjur á réttan hátt. Í einspiluninni er manni ekki refsað fyrir að keyra utan í annan bíl og það hef ég nýtt mér óspart. Eins eru þeir ráðþrota þegar maður er að varna þeim að taka fram úr manni, til dæmis þegar maður er að nálgast brautarlok og vill halda fyrsta sætinu. Síðan getur maður komist upp með að keyra eins og brjálæðingur, keyrandi utan í alla veggi á ógnarhraða og samt komist í mark fyrstur. Þar af leiðandi er bíllinn minn oftast vel rispaður og beyglaður eftir hverja braut. Ef þetta væri raunveruleikinn, þá væri ég líklegast dauður eða stórslasaður. Skemmdir á bílum geymast ekki, en það kemur að því að maður þarf að skipta um olíu og hlúa að bílnum. Ég hefði viljað sjá svipinn á bifvélavirkjanum taka á móti stórskemmdum bílnum. Akstursmunstrið mitt myndi breytast ef ég þyrfti að borga fyrir að laga skemmdirnar.

GT6

Fjölspilunin aflæsist þegar maður vinnur sig upp metorðastigann og þar er keppnin hörð. Það þýðir ekkert að nota þessar blikkdollur sem maður byrjar á í leiknum svo maður þarf að vera viss um að maður sé með góðann bíl í bílaflota sínum. Verst með fjölspilunina að það er erfitt að finna út hvaða keppni maður ætti að velja þegar maður fær að velja á milli spilenda sem eru gestgjafar. Allar takmarkanir á bílum eða reglum eru aðeins sjáanlegar þegar maður er búinn að tengjast gestgjafanum og er kominn á annan skjá þar sem maður þarf að velja sinn bíl áður en maður leggur í hann.

Grafíkin í leiknum er ekkert slor og fá bílarnir alla athyglina en það hefur verið nefnt víða á netinu að eldri útgáfur af bílum úr GT5 eru að finna í leiknum og líta því ekki eins vel út og nýir bílar sem voru gerðir fyrir þennan leik. Ég átti erfitt með að sjá einhvern mun enda var ég uppteknari við það að halda mér á brautinni. En við nánari grennslan þegar kappaksturinn er sýndur aftur í endurspilun er hægt að sjá kannski einhæf munstur á byggingum og það sem stendur mest upp úr munu vera áhorfendurnir sem fylgast með kappakstrinum. En í rauninni þá eru þetta bara smámunir, þetta er virkilega fallegur leikur á að líta.

GT6

Hljóðið í leiknum er gott en er þó ábótavant þegar kemur að bílunum sjálfum. Flestir ef ekki allir bílar í leiknum hljóma frekar kraftlausir og virka mjög rafrænt á mann. Sömuleiðis eru árekstrar við aðra bíla eða mannvirki frekar daufir á að heyra, maður hefði frekar haldið að einhver hefði misst tómt fiskikar á götuna. Það er mikil flóra af tónlist, allt frá rokki og yfir í drum and bass tónlist og það er frekar erfitt að heyra í henni ef maður er með öll önnur hljóð í gangi. Ef maður er með MP3 lög inná PS3 tölvunni þá er hægt að spila þau í leiknum svo lengi sem það er uppsett sem lagalisti, sem er mjög hugultsamt af þeim. Og síðan hvenær eru kappakstursmenn að hlusta á tónlist í miðjum kappakstri?

Ef þú hefur einhvern tímann spilað Gran Turismo þá veistu alveg í hvaða pakka þú ert að fara. Þetta er leikur fyrst og fremst fyrir bílaunnendur en þeir sem vilja stutt fjör ættu kannski að leita annað, þrátt fyrir að það sé hægt að velja „arcade game“ á móti tölvunni og „party play“ fyrir tveggja manna spil. Ég er þó hissa hversu gaman ég hafði af honum, þótt það hafi verið frekar takmarkað. Þetta er ekki leikur sem ég gæti hangið í lengi en smekkur manna er mismunandi og því er ekki ólíklegt að leikurinn fengi eina stjörnu í viðbót ef ég væri bílakall.

 

Höfundur er Jósef Karl Gunnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑