Bíó og TV

Birt þann 5. febrúar, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

DVD rýni: AVGN Vol. 2

Fyrir þónokkru fór ég á hryllingsmyndahátíðina Chiller Theatre í Parsippany, New Jersey og tók viðtal við James Rolfe sem er reiða leikjanördið (The Angry Video Game Nerd). Hann var með ýmsan varning til sölu og ég keypti tvær seríur af reiða leikjanördinu og stuttmyndina The Deader the Better.

Í þessari umfjöllun og gagnrýni tek ég fyrir AVGN Vol. 2 sem inniheldur efni frá árinu 2007, en hann hefur gert yfir 100 þætti og það eru til 7 DVD sett með þáttunum hans. Í þessu þriggja diska setti er að finna 19 þætti á fyrstu tveim diskunum og á þriðja er allt aukaefnið. Á diski eitt, er að finna eftirfarandi þætti:

 

(Intro)
(TMNT tape destruction)
Atari 5200
Ghostbusters
Ghostbusters Follow Up
GAVGN2hostbusters Conclusion
Spider-Man
Sega CD
Sega 32X
Silver Surfer
Die Hard
Independence Day
The Simpsons

Á diski tvö, er að finna eftirfarandi þætti:

Bugs Bunny’s Birthday Blowout
Atari Porn
Nintendo Power
Fester’s Quest
The Texas Chainsaw Massacre
Halloween
Dragon’s Lair
An Angry Nerd Christmas Carol

Á diskunum tveimur með þáttunum er valmöguleiki á að spila allt í röð. Fyrsti diskurinn byrjar á öðruvísi útgáfu af þemalagi þáttarins, sem hefur verið endurhljóðblandað í teknó-stíl. Eftir það er stutt brot af endanum á gagnrýninni hans fyrir Teenage Mutant Ninja Turtles 3 þar sem hann eyðileggur VHS spóluna af þeirri mynd. Eftir það koma þættirnir hver á eftir öðrum með titilkortin en án þemalagsins sem er eflaust gert til þess að spara pláss á diskunum.

AVGN2

Það hefur verið mjög gaman að fylgjast með reiða nördinu frá byrjun og sjá þróunina á formúlunni og þáttunum. Í byrjun voru þættir undir eða yfir 5 mínútum og þegar er komið að öðru árinu eru þættirnir oft undir eða yfir 10 mínútum. Það sést greinilega að metnaðurinn jókst frá öðrum þætti til annars og hugmyndaflæðið fékk að leika lausum hala. Jafnvel á fyrsta árinu náði James Rolfe að gera skemmtilega hluti eins og að klóna sjálfan sig þegar hann mætti sjálfum Freddy Kreuger þegar hann gagnrýndi A Nightmare on Elm Street. Hann heldur hér uppteknum hætti og fær t.d. Köngulóarmanninn og Kalla kanínu í heimsókn til sín. Fjölbreytileikinn hjálpar gríðarlega þegar farið er í gegnum þættina og einn þáttur er t.d. helgaður tölvuleikjablaðinu Nintendo Power og aðrir fara lauslega yfir sögu ákveðinnar leikjatölvu. Síðan er gert mikið úr hrekkjavökunni og jólunum og eru oft veglegir þættir í boði þá.

Ég get þakkað MySpace fyrir að hafa kynnt mér fyrir reiða leikjanördinu, því ég uppgötvaði hann fyrir tilviljun þegar fyrsta rýnin hans fyrir Castlevania 2 var á forsíðunni einn daginn þegar ég skráði mig inn. Ég er ekki alveg viss hvenær þetta gerðist, alveg sama hvort það var á fyrsta árinu eða öðru þá horfði ég á allt sem hann hafði gert upp að þeim tímapunkti. Maður hafði mestu tenginguna við þættina þar sem maður kannaðist eða jafnvel hafði spilað áður og í mínu tilfelli voru það NES leikirnir Top Gun og Ghostbusters. En þrátt fyrir að hafa ekki þjáðst sjálfur að spila aðra leiki sem reiða leikjanördið tekur fyrir sér kemur það ekki niður á skemmtanagildinu. Það er óendanlega gaman að sjá hann þjást yfir leikjunum og blóta öllu í sand og ösku. Maður er þó alltaf sammála honum að þessir leikir séu ansi gallaðir eða einfaldlega lélegir og maður fer að velta fyrir sér rétt eins og nördinn: Hvað voru leikjasmiðirnir að hugsa þegar þessir leikir voru búnir til!?

AVGN2

Það er ótrúlegt hvað það eru mörg klassísk augnablik á þessu setti, næstum því hver einasti þáttur er gull. Það er grátbroslegt að fylgjast með nördinum reyna að tengja Atari 5200 leikjatölvuna, spila Silver Surfer þar sem ein snerting við hvað sem er drepur mann og fara í gegnum sína eigin fortíð, nútíð og framtíð með hjálp drauga rétt eins og Ebenezer Scrooge gerði í Jólasögu Charles Dickens. Það er gaman að sjá James fara í gervi Addams-fjölskyldunnar í Fester’s Quest þættinum og félagar hans Kyle Justin og Mike Matei standa sig vel sem Köngulóarmaðurinn og klikkaði gaurinn í Texas Chainsaw Massacre rýninni (og líka Kalla kanínu). Veiku hlekkirnir að mínu mati eru þó Independence Day og Halloween rýnirnar. Sú fyrri var frekar stutt en til málsbóta var lítið hægt að segja um þennan hræðilega leik og seinni því efniviðurinn var ekki eins sterkur og fyrri hrekkjavökuþátturinn sem var á undan.

DVD útgáfan

Aðalvalmyndin á diskunum eru ósköp einföld en valmyndin á diski tvö stelur senunni þar sem hermt er eftir Mega Man valmyndinni og nördinn fer að ýta á eftir manni ef maður velur ekki þátt strax.

AVGN2

Mynd-og hljóðgæðin á þessu setti eru fín miðað við upptökuformið og upptökuskilyrðin; þættirnir eru teknir upp á ódýra myndtökuvél í heimahúsi. Í sumum skotum er bakgrunnurinn meira í fókus heldur en leikararnir, skærrauður litur kemur ekki vel út og veldur að það svæði verður kubbalegt. Einnig er myndefnið samtvinnað (á ensku, interlace) og þá fer það eftir DVD spilaranum hversu vel það tekst að fela þann vanda sem er vel sjáanlegur ef þú spilar diskana á PC tölvu. Þetta kemur líklegst svona út þegar það fer frá myndvinnsluforritinu og það er ekki hægt að vera of harður á myndgæðin þar sem þau eru náttúrulega betri en á netinu. Eini munurinn er að þættirnir eru í sumum tilfellum ekki alveg eins og þeir voru upprunalega á netinu. Þeir hafa þurft að skipta út tónlist og myndskotum til að forðast kærur vegna höfundaréttar. Þrátt fyrir það er þetta ekki mjög áberandi nema maður þekki þættina vel og hefur lítil sem engin áhrif á ánægju manns af þáttunum.

Þriðji diskurinn er helgaður aukaefni og það er af nógu að taka:

Top 10 Nerd Moments of 2007
Nerd Room Tour
YouTube Trailers
Intros
Vintage Nerd Material
Commentaries
Outtakes

Topp tíu listi frá reiða nördinu sjálfu sem er kynnt af Handsome Tom og Stuttering Craig frá GameTrailers.com. Þetta er allt efni sem er á disknum og því ekkert nýtt eða merkilegt að sjá. Mín vegna hefði verið í lagi að sleppa því að hafa þetta á disknum. Um 7 mínútna túr um gamla nördaherbergið er mjög fróðlegt að sjá. James Rolfe gengur með myndavélina og sýnir okkur þetta litla rými sem hann tók þættina upp fyrstu árin.

AVGN2

Það eru 15 YouTube stiklur fyrir alla þættina nema Nintendo Power og Dragon’s Lair. Á sínum tíma voru þessar stiklur gerðar til þess að láta áskrifendur reiða nördsins á YouTube vita að nýir þættir væru komnir á GameTrailers.com. Ekkert svakalegt og eiginlega ekkert nýtt að sjá hérna og hefði alveg mátt sleppa þessu líka. Svo eru 2 byrjanir á þáttum sem innihalda efni frá aðdáendum nördans í formi tónlistar og mynda.

Eftir það eru 3 gömul myndskeið sem innihalda eldgamalt nördaefni. Það fyrsta er frá árunum 1989 til 1991 þar sem James fer í gegnum þónokkra NES leiki. Áhugavert að fara í gegnum þetta þar sem þetta er eiginlega þar sem þetta byrjaði. Hin tvö eru frá 1995 og er ekki eins gaman að fara í gegnum. Bæði eru hálfgerð útvarpsleikrit, tekin líkegast frá kasettu, með myndefni klippt við það. Það fyrra er hálfgerð auglýsing fyrir GameBoy útgáfuna af Street Fighter 2. Hið seinna er kallað Midnight Demon Theatre og er útvarpsleikrit með hljóðum frá Doom leiknum ef mér skjátlast ekki. Þessi tvö myndskeið passa ekki eins mikið við þennan pakka og hefði alveg mátt sleppa.

AVGN2

Það eru yfirlestrar fyrir 4 þætti: Bugs Bunny þáttinn þar sem James Rolfe og Mike Matei tala um gerð þáttarins, Spiderman þáttinn þar sem James fær Kyle Justin með sér í lið að tala um þáttinn og James er síðan einn að tala um þættina Fester’s Quest og Texas Chainsaw Massacre. Það er mjög gaman að heyra þessa gaura tala um þættina og það er ekki mikið um glens og grín heldur fær maður að vita það helsta sem kom upp við gerð þáttanna. Eitt enn um yfirlestrana, þættirnir eru ekki nákvæmlega eins og þeir eru venjulega; það er stundum stoppað eða myndskeiðum skeytt inn til að sýna hvernig þeir tóku vissar senur upp. Frekar sniðugt en maður hefði haldið að það væri bara auðveldara að setja hljóðið upp við þættina á viðkomandi diski.

Í restina eru tökur sem ekki voru notaðar, ekki allt mistök heldur eru sýndar tökur á brellum og það er áhugavert að sjá hvernig þær eru teknar upp. Ekki nóg með það að hafa ónotaðar tökur fyrir 4 þætti frá árinu 2007, sem þetta sett stendur saman af, þá eru einnig ónotaðar tökur fyrir 6 þætti frá árinu 2008 sem eru á DVD setti númer 3. Frekar skrítið að setja þetta með þessu setti og vita ekki samhengið ef maður hefur ekki séð þá þætti eða á ekki það DVD sett.

AVGN2

Frá 2007 eru það þættirnir Bugs Bunny, Texas Chainsaw Massacre, Halloween og An Angry Nerd Christmas Carol. Frá 2008 eru það þættirnir Virtual Boy, Wizard of Oz, Super Mario Bros 3, Doublevision, Star Trek og Batman. Það er gaman að renna í gegnum þetta fyrir utan helst Halloween þar sem seinni hlutinn er nokkrar mínútur af þeim að reyna ná krakka að segja eina setningu í hljóðnema en það gengur hægt fyrir sig. Svo er gaman að sjá slagsmálasenuna úr Batman óklippta; þeir voru með sniðuga hugmynd að fara í gegnum allar Batman kvikmyndaseríuna og kvikmynda í stíl hvers og eins þeirra en það hefur líklegast tekið of langan tíma og ákveðið að halda í gamla Adam West Batman stílinn.

Yfir heildina litið þá er þetta góður pakki, 3 og hálfur tími bara af nörda þáttunum og með aukaefninu þá fer þetta auðveldlega yfir 4 tíma. Maður hefði þó haldið að það hefði verið hægt að setja allt efnið á 2 diska í staðinn fyrir 3 og kannski sleppt því sem virkar sem óþarfi á mann. Þrátt fyrir það þá er þetta pakki sem enginn nörd ætti að láta framhjá sér fara.

 

Höfundur er Jósef Karl Gunnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑