Greinar

Birt þann 2. janúar, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

PlayStation 4 umfjöllun

Að eignast nýja leikjavél er eitt af því skemtilegasta sem leikjaunnandi getur hugsað sér og þegar að nýjar vélar koma út eru ávallt jólin hjá manni sama hvaða tími ársins er.

Eins og aðrir þá sá ég PlayStation 4 í fyrsta sinn í febrúar á þessu ári þegar að Sony kynnti vélina fyrir heiminum. Ég var ekki alveg viss hvað mér ætti að finnast um línulögun vélarinnar og kanta hennar. Það var samt eitthvað við hvössu línurnar sem mér fannst nokkuð flott, það sem ég hafði þó mestan áhuga að sjá og snerta var Dualshock 4 fjarstýringin. Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei verið mikill aðdáandi fyrri pinna, mér fannst alltaf óþægilegt hve stutt var á milli pinna fjarstýringarinnar og hve oft það olli krampa í hendinni hjá mér. Axlatakkar DualShock 3 er síðan önnur saga og ég skil ekki alveg hvað Sony var að hugsa með hönnun L2 og R2 takkanna.

Ég fékk PlayStation 4 vélina mína í hendurnar þann 6. des síðastliðinn frá Amazon.co.uk. Það er erfitt fyrir fólk eins og mig að bíða eftir svona græjum og þegar að vélina frestaðist aðeins hérna heima þá var stefnan tekin á að redda einu stykki fyrir utan landsteinanna.

Ég er búin að eyða sæmilegum tíma í henni síðan að prufa mig áfram og læra á hana og hvað hún hefur uppá að bjóða. Einn stór kostur hjá Sony er að þú getur bara tekið snúrurnar úr PS3 vélinni og sett PS4 í stað hennar undir sjónvarpinu. Það sparar óneitanlega í kostnaðinum á vélinni og fyrri að það sé auðvelt að redda nýjum í staðinn fyrir lítinn aur. Áður en ég gat notað PS4 vélina þurfti að sækja uppfærslu fyrir vélina svo að hún hreinlega virkaði 100%, þetta er eitthvað sem Xbox One eigendur þurftu líka að gera. Það er hægt að setja visst útá þetta fyrir notendur, sérstaklega þá sem yngri eru og búa kannski utan svæða með gott netsamband.

PS4

 

Notendaviðmótið

Það fyrsta sem maður tekur eftir þegar að PlayStation 4 vélin kemur úr kassanum eru hvössu línurnar á vélinni og hve létt og lítil hún er. PS3 slim vélin er t.d bæði stærri og þyngri sýnist mér. Notendaviðmótið á vélinni er góð framför á því úr PS3 sem mér þótti ávallt frekar einfallt og leiðinlegt að það hafði ekkert breyst á þeim sex árum sem vélin er búin að vera á markaðnum hér á landi. Viðmótið á nýju vélinni er blanda af því gamla og nýju og er ekki langt í gamla XMB viðmótið. Þegar þú ýtir upp á fjarstýringunni færðu upp mini xmb sem hleypir manni inná PS Store, vinalistann, skilaboð, prófílinn sinn, trophy‘s og stillingar vélarinnar.

PS4 UI

Vélin er mjög snögg í keyrslu og að flakka um, en ég tók þó eftir því að þegar ég var með mörg niðurhöl í gangi fyrsta daginn þá hægði vélin eða stýrikerfið talsvert á sér þar sem að vélin var að reyna að sækja allar skrárnar í einu og það var engin leið að geyma sum niðurhölin og forgangsraða þeim. Þetta er þó eitthvað sem maður býst við að verði fljótlega bætt úr á nýju ári. Annað sem maður vonar að verði bætt úr fljótlega er að það komi möguleiki til að skipurleggja leikina og annað efni á vélinni betur. Eins og er í hvert sinn sem að leik er bætt við eða prufu útgáfu þá bætist hann við listann á skjánum og eykst hann til hægri á skjánum endalaust eins og er. Það er hægt að ímynda sér eftir fyrsta eða annað árið þegar að fólk er búið að nota vélarnar mikið að þetta yrði skipulags slys að horfa á, til allrar lukku býst maður við að þetta sé auðvelt að laga með möguleikanum að raða í möppur eða annað slíkt.

 

Harði diskurinn

Það sem eigendur PS4 og Xbox One munu sjá (og PC eigendur kannast vel við), er að þurfa að setja upp allan leikinn á harða disk vélarinnar. Þetta er gert útaf því að Blu-Ray drif vélanna teljast ekki vera nógu hröð að færa gögnin á milli og að sé betra að sækja þau beint á harða diskinn.  Þetta mun fljótt fylla 500GB harða disk vélarinnar, enn til allrar lukku á PS4 er lítið mál að taka hlífina af vélinni og skrúfa eina skrúfu lausa og þá er hægt að smella nýjum 2.5 tommu ferðatölvu disk, venjulegum eða SSD sem er talsvert hraðari en líka miklu dýrari. Með þessu er 500GB byrjunar stærðin bara spurning um kostnað og tíma að stækka við sig. Þetta er eitt af því gáfulega sem Sony gerðu með PS3 og er ánægjulegt að sjá þetta halda áfram á PS4.

 

Leikirnir

AC_Black_FlagEn hvað með leikina? Snýst þetta ekki allt um þá er mjög algengt að heyra fólk segja, og já Sony hafa ekki sparað þar og hafa ákveðið að fókusinn verði klárlega á þeim með PS4. Það er eitthvað sem mörgum Xbox aðdáendum og ég tel mig meðal þeirra finnst vanta pínu hjá Microsoft með Xbox One, sem virðist vera að reyna að staðsetja sig í stofu fólks sem alhliða tækið sem getur allt. Vandinn við slíkt eins og svo oft áður er að ef að sú leið er farin þá verður eitthvað annað að lúta í lægra haldi í gæðunum.
Við útgáfu nýju kynslóðarinnar virðist Sony hafa forskotið eins og er á Microsoft í sambandi við gæði leikjanna,  þeir leikir sem eru að koma út á báðar vélarnar virðast almennt vera að keyra betur á PS4 og ná að halda sig í hærri upplausn, má þar nefna; Call of Duty: Ghosts, Battlefield 4, Assasin‘s Creed IV: Black Flag o.fl. Báðar vélarnar eru að keppast við að halda leikjunum í 1080P upplausninni og helst á 30 eða 60 ramma hraða á sek. Almennt virðist Sony koma talsvert betur út í byrjun, en spurningin er auðvitað hvað gerist á næsta ári þegar að framleiðendur leikja hafa náð að eyða meiri tíma að hanna fyrir Xbox One og að forritunartólin fyrir þá vél lagist. Það er skondið við þetta að á sama tíma í byrjun síðustu kynslóðar var staðan öfug og Xbox 360 leikir keyrðu talsvert betur en sömu leikir á PS3. Sony tók sig talsvert á í þessum málum eftir mikla og sanngjarna gagnrýni á PS3 og CELL arkitektúrinn sem sú vél keyrði á.

Ég get auðvitað bara talað um þá leiki sem ég hef spilað á PlayStation 4 og séð á Xbox One og öðrum vélum til samanburðar. Ég nýtti mér uppfærslu tilboð Call of Duty: Ghosts, Battlefield 4 og Assasin‘s Creed IV: Black Flag að uppfæra PS3 útgáfuna uppí PS4 útgáfu fyrir 10 punda kostnað.  Það var mjög þægilegt að gera þetta þar sem að allar stafrænar útgáfur sem þú átt fá afsláttinn sjálfkrafa inn, ég átti Call of Duty á diski og var kóði í kassanum með sem ég sló inní PSN búðina og veitti hann mér afsláttinn og möguleikann að sækja leikinn þaðan.

 

Að sækja leiki og leikjaúrval

Það er pínu öðruvísi að sækja leikina á PS4 og forvera þess, ég þakkaði fyrir að ég var með ljósleiðara tengingu frá Vodafone þegar ég var að byrja að sækja og uppfæra PS4 vélina mína. Ég sótti um 70GB bara fyrsta daginn, þetta er að mestu leyti útaf stærðinni á leikjunum, Cod var um 30GB, AC IV 20GB og síðan „Free2Play“ leikirnir tóku sitt. Það er auðvelt að sjá að fólk með hægari nettengingar og takmarkað gagnamagn muni lenda í vanda fljótt ef að það ætlar sér að fara algjörlega stafrænu leiðina. Þetta er eitthvað sem bæði PS4 og Xbox One þurfa að kljást við og er þetta stærsta ástæðan að mínu mati að við erum ekki tilbúin að fara í 100% stafrænt og sýnir þetta hve mikið slys það hefði geta orðið ef að Microsoft hefði haldið fast í að gefa út Xbox One og hafa hana 100% nettengda og stafræna.

BF4

Ég er búinn að eiga PS4 vélina mína í um þrjár vikur og hef náð að prufa flest allt sem hún hefur upp á að bjóða nema PS myndavélina sem var ekki til þegar ég fékk vélina mína. Ég hef spilað í gegnum Battlefield 4, Call of Duty: Ghosts og er langleiðina kominn í gegnum Assasin‘s Creed IV: Black Flag á ný á PS4 eftir að hafa klárað þá alla nema BF4 áður á PS3. Þessir leikir eru ekki endilega besta sýnishornið á möguleikum PS4 þó að bæði BF4 og AC 4 líta talsvert betur út á nýjum vélbúnaði. Leikir eins og Killzone: Shadow Fall og Knack sem ég hef verið að spila mig í gegnum ásamt LEGO: Marvel Super Heroes eru að koma vel út og sérstaklega þá Killzone sem er ásamt PSN leiknum Resogun líklega það flottasta í boði á PS4 í augnablikinu grafíklega eitt og sér.

Ég er mjög ánægður með vélina almennt og bíð spenntur að sjá hvað 2014 mun færa, ég er strax farinn að hlakka til að spila leiki eins og Thief, DriveClub, inFamous: Second Son og Watchdogs á vélinni og ætti leikjaúrvalið á vélina að verða talsvert betra að 12 mánuðum liðnum eins og er ávallt með nýjar leikjavélar. Aðalhluturinn sem maður vill ekki sjá er viss „leikjaþurrkur“ sem oft skellur á eftir útgáfu nýrra véla, mér er minnistætt með Xbox 360 sem var ekki með neitt af viti frá desember útgáfunni og til í mars 2006 þegar að leikir eins og The Elder Scrolls IV: Oblivion, Fight Night 3 og Ghost Recon: Advanced Warfighter komu út og byrjuðu næstu umferð leikja.

 

Að bíða, eða kaupa núna?

PS4Það sem margir spyrja sig að þegar að nýjar vélar koma á marakaðinn „eru þær þess virði að kaupa strax?“ „er í lagi að bíða?“ og síðan „er eitthvað að spila á þær?“

Fyrir marga er alveg hægt að bíða í nokkra mánuði og skoða þetta þegar að leikir eins og inFamous o.fl. koma út, en fyrir okkur sem hrærast í þessu er ekki spurning um að vélin er þess virði og býður uppá fína skemmtun strax í byrjun, ekki sakar að Sony voru gáfaðir að láta „Free2Play“ leiki eins og DC Universe, War Thunder, Blacklight: Retribution og Warframe koma út á sama tíma og PS4 og gefa þannig fólki eitthvað að grípa í strax þó að það ætti ekki aur fyrir nýjum leik strax eftir að hafa verslað vélina.

Ég myndi mæla með að fjárfesta í PlayStation Plus áskriftinni og er í raun hægt að segja að hún sé nauðsynleg til að fá sem mest úr PS4, þó er ekki nauðsynlegt að vera með hana til að spila suma F2P leikina og nota hluti eins og Netflix. Stór kostur við hana eru leikirnir sem fólk fær afnot af á PS3, PS Vita og PS4. Það er ekki slæmt að fá leiki eins og Resogun og Contrast strax á fyrsta degi og í byrjun Janúar kemur Indie leikurinn Don‘t Starve.

PlayStation 4 mun opinberlega koma út á Íslandi þann 29. janúar 2014 og að sögn Senu ætti að vera nóg af vélum í framboði fyrir fólk, einn lítill kostur við að vélin seinkaði aðeins hér á landi.

 

Höfundur er Sveinn A. Gunnarsson

 

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑