Allt annað

Birt þann 24. desember, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Jólagjafir tímaferðalangsins

Frændi minn hann Gulli er tímaferðalangur… ja nei hann er það reyndar ekki en mikið væri nú gaman að þekkja einn frænda sem væri það og gæfi manni eitthvað mjög merkilegt úr fortíðinni. Hann myndi náttúrulega ekki virða „butterfly effect” þvæluna og allt þetta um að þú megir ekki breyta neinu ef þú ferðast aftur í tímann. Mikið hrikalega væri ég spenntur fyrir pökkunum frá honum. Shiiiiit!

Hér er listi yfir topp 10 jólagjafir sem tímaferðalangar gætu gefið manni á aðfangadag.

 

10. Risaeðluegg

10_risaedluegg

Annað hvort risaeðluegg eða bara risaeðlu. Hún væri þá náttúrulega af einhverri tegund sem væri ekki rándýr. Grasæta væri fín gjöf.

Mynd: Wikimedia Commons

 

9. Ljósmynd af týndu borginni Atlantis

09_atlantis

Mikið væri nú gaman að eiga ljósmynd eða jafnvel smá steinvölu frá borginni Atlantis, ef hún var þá yfir höfuð til. Tímaferðalangurinn myndi náttúrulega komast að því á einhvern óútskýranlegan og flókinn hátt.

Mynd: Wikimedia Commons

 

8. Eyða Jar Jar Binks

08_JarJar

Það væri góð gjöf ef tímaferðalangurinn gæti gefið manni Jar Jar Binks-lausa Star Wars mynd.  Hann myndi þá eyða öllum skissum og hugmyndavinnuna myndi hann einnig eyðileggja. Eða bara ferðast lengra aftur í tímann og sannfæra George Lucas um að persóna nefnd Jar Jar Binks væri ömurleg hugmynd. ÖMURLEG!

 

7. Komast að því hver skrifaði Njálu

07_Njala

Það væri gaman að vita hver skrifaði Njálu bara svona til þess að vita það. Í rauninnni ekkert svakalega spennandi en maður gæti komið í Kastljós og tilkynnt þjóðinni það. 15 mínútna frægð. Svo væri líka hægt að sanna eða afsanna tilgátu Einars Kárasonar.

Mynd: Wikimedia Commons

 

6. Hver byggði pýramídana

06_Piramitar

Það er svo sem margt sem manni langar að vita um fortíðina og væri hægt að gera langan lista um það. Það væri t.d. gaman að vita hvernig í ósköpunum pýramídarnir voru byggðir. Fá það mál alveg á hreint já og Stonehenge, það væri gaman að vita hvernig þeir fluttu steinana.

Mynd og forsíðumynd: Wikimedia Commons

 

5. Fabergé Egg

05_Faberge_egg

52 konunleg Fabergé egg voru gerð þegar rússneska konungsveldið stóð sem hæst. 8 egg hafa aldrei fundist og gaman væri að eiga eitt af þessum týndu eggjum.

Mynd: Wikimedia Commons

 

4. Heilagi kalekurinn

04_holy_grail

Þessi frægasti bikar eða steinn eða hvað sem heilagi kalekurinn er hefur líklega aldrei verið til. Ef hann var til þá myndi tímaferðalangurinn komst að því og kannski gefa manni djásnið. Ég myndi persónulega bæta því í Indiana Jones safnið mitt.

Mynd: Cornelia Kopp

 

3. Antikythera vélin

03_Antikythera_velin

Þessi vél eða tölva er talin vera frá 1. öld fyrir Krist og fannst í kringum 1900. Kafarar fundu gripinn í skipsflaki við strendur grísku eyjunnar Antikythera. Margir vilja kalla þessa vél fyrstu analog tölvuna og hafa vísindamenn ekki almennilega áttað sig á því hvernig tækið virkar. Það væri því kærkomin jólagjöf að fá að vita nákvæmlega hvernig þessi búnaður virkaði og hver smíðaði hann. Já og fá eitt eintak í pakka.

Mynd: Wikimedia Commons

 

2. Eilíft líf

02_Eilift_lif

Ambriosa drykkurinn er úr grískri goðafræði, en hvað með það. Við skulum bara gefa okkur það að þessi drykkur hafi verið til en hann var gefinn grísku guðunum sem öðluðust eilíft líf þegar þeir drukku hann. Ekki slæm jólagjöf það.

Mynd: Wikimedia Commons

 

1. Heimsfrið og koma í veg fyrir hræðilega atburði

01_Slys

Það er eflaust erfitt fyrir hvaða tímaferðalang sem er að koma í veg fyrir t.d. Helförina, 9.11., flóðbylgjur og allt það slæma sem gerst hefur í heiminum, en ef það væri hægt þá væri það eflaust besta jólagjöfin.

Mynd: Wikimedia Commons

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑