Birt þann 16. desember, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Game Creator 2014 – Samkeppni í tölvuleikjagerð
„Ef þig langar til að búa til tölvuleik, ert með góða hugmynd að leik eða langar til að læra örlítið meira um hvernig tölvuleikir eru gerðir þá er Game Creator fyrir þig.” [Game Creator á Facebook]
Samtök leikjaframleiðenda (IGI) í samvinnu við Háskólann í Reykjavík efna til samkeppni í tölvuleikjagerð. Keppnin ber heitið Game Creator og var síðast haldin árið 2011, en þá sigraði leikurinn Relocator (betur þekktur sem Aaru’s Awakening). Keppnin hefst laugardaginn 18. janúar og er opin öllum nema starfsmönnum fyrirtækja innan IGI. Skiladagur á fullbúnum leik er sunnudagurinn 16. febrúar. Í millitíðinni verður boðið upp á fjórar vinnustofur þar sem sérfræðingar úr leikjaiðnaðinum munu veita aðstoð. Vinnustofurnar verða einnig aðgengilegar á netinu fyrir þá sem ekki komast.
Dagskrá
18. janúar – Kynning á Game Creator
Burkni J. Óskarsson hjá Lumenox Games fjallar um reynslu þeirra í að þróa lítið skólaverkefni yfir í umfangsmeiri tölvuleik.
Staðsetning: Háskólinn í Reykjavík
25. janúar – Leikjahönnun
David Thue frá Háskólanum í Reykjavík verður með stutta kynningu á leikjahönnun, auk þess að fara yfir nokkra punkta og verkfæri sem gætu nýst keppendum.
Staðsetning: Háskólinn í Reykjavík
1. febrúar – Leikjavélar
Hannes Högni hjá CADIA Lab kynnir leikjavélar, umhverfi sem er sérhannað með leikjahönnun í huga. Farið verður yfir helstu möguleika tækninnar og minns á nokkrar vinsælar 2D og 3D leikjavélar, þar á meðal Unity, CryEngine 3 og Construct 2.
Staðsetning: Háskólinn í Reykjavík
8. febrúar – Markaðsfræði og Nordic Game Program
The Nordic Game Program býður upp á þróunarstyrki til leikjafyrirtækja. Ólafur Andri Ragnarsson kynnir ferlið og fer yfir hvernig er sótt um slíkan styrk.
Staðsetning: Háskólinn í Reykjavík
16. febrúar – Skiladagur
Síðasti dagurinn til að skila inn leikjum
Verðlaun
Arion Banki gefur vinningshafa/vinningshöfum 140.000 kr. til að stofna nýtt fyrirtæki. Nýsköpunarmiðstöð Íslands býður upp á aðstoð og skrifstofusvæði í þrjá mánuði. Vinningshafi fær einnig þrjár Unity Pro áskriftir sem gilda í 12 mánuði, ókeypis pláss á netþjóni í 12 mánuði hjá Basis og tveggja ára meðlimagjald í IGI.
Nánari upplýsingar um Game Creator fást á heimasíðu keppninnar, gamecreator.igi.is, og þátttökuskráning fer fram á gamecreator.igi.is/project-registration.
Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.