Bækur

Birt þann 2. desember, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Bókarýni: Eldur eftir Mats Strandberg og Söru B. Elfgren

Eldur er önnur bók í Englafoss þríleiknum en fyrsta bókin, Hringurinn, kom út í fyrra, sú bók hlaut mörg verðlaun og var meðal annars valin besta þýdda táningabókin af starfsmönnum bókverslana hér á landi. Rýni á þeirri bók birtist hér hjá Nörd Norðursins fyrr á árinu og má lesa hér.

„Hinar útvöldu eru að hefja annað árið í menntaskóla. Allt sumarið hafa þær óttast næstu aðgerðir demónanna en ógnin kemur úr átt sem þær hefðu ekki getað ímyndað sér. Það verður augljósara með hverjum deginum að eitthvað mjög alvarlegt er á seyði í Englafossi. Fortíð og nútíð fléttast saman, lifandi og dauðir mætast. Menntaskólastúlkurnar verða sífellt nánari og það kemur æ betur í ljós að galdrar eru gagnslausir þegar ástarsorgir eru annars vegar.“ (forlagið.is)

Þegar ég las Hringinn fyrr á árinu var lesturinn vægast sagt upplifun, bók hefur sjaldan gripið mig jafn hressilega og ég var heilluð frá fyrsta orði; ég fékk gæsahúð, hraðan hjartslátt og ég gladdist og grét til skiptis með persónunum. Persónusköpun var fyrsta flokks og á bókinni voru nánast engir vankantar sem ég fann, hún var svo sannarlega fimm stjörnu bók. Væntingar mínar voru því skiljanlega algjörlega í botni þegar ég byrjaði á Eldi, ég dauðhlakkaði til að sökkva mér í framhaldið og sjá hvað drifi á daga stúlknanna. Því miður varð ég fyrir vonbrigðum. Bókin náði aldrei því flugi sem Hringurinn náði og hún hlaut þau örlög sem miðbækur bækur í þríleikjum hljóta oft, hún varð að einhvers konar hægum millikafla þar sem lesandi er búinn undir lokabaráttuna.

Stúlkurnar þurfa að kljást við ýmis vandamál í bókinni, þær þurfa samtímis að verjast gegn demónunum og yfirboðurum sínum en það sem fór þó mest fyrir í bókinni var einkalíf stúlknanna. Við lesturinn var ég alltaf að bíða eftir að eitthvað gerðist, að einhverju yrði uppljóstrað, eftir 100 blaðsíður, 200 blaðsíður, 300 blaðsíður var ég farin að verða verulega óþolinmóð. Ég fann að ég hafði takmarkaða þolinmæði fyrir unglingstúlknadrama og ég upplifði sem höfundar hefðu lagt mun minni vinnu við gerð Elds en Hringsins. Í Hringnum höfðu persónurnar mikla dýpt, vandamál þeirra snertu mig og ég náði að samsama mig með persónunum, mér fannst ég nánast komin aftur á unglingsárin. Við lestur Elds upplifði ég ekki sömu tilfinningar; dýptin var að hluta til horfin, vandamálin virtust klisjur og ég stóð sjálfa mig að því að rúlla augunum að fléttunni.

EldurÍ Hringnum fluttist sjónarhornið milli fjögurra stúlkna sem hver á sína fjölskyldu, vinahóp og líf sem lesandi þurfti að halda utan um og tókst það ágætlega. Í Eldi var sjónarhornið frá fimm stúlkum og af þeim voru tvær sem sjónarhornið var aldrei hjá í Hringum og lesandi kynntist því fyrst í Eldi. Með þessari viðbót missti ég alla yfirsýn, hérna var kominn gríðarlega stór hópur persóna sem ég þurfti að halda utan um og oft var ég hreinlega búin að gleyma aukapersónum þegar þær birtust aftur og þurfti að hugsa „bíddu hver var þetta aftur?“  Það að fylgjast með unglingadrama 5 stúlkna samtímis er ekkert létt verk og ég held ég hafi fengið minn skammt af því fyrir næstu árin.

Svo ég haldi áfram að bera bækurnar saman þá þótti mér í Hringnum jafnvægi milli fantasíu og raunsæis fullkomið en hér saknaði ég fantasíunnar. Í stórum hluta bókarinnar, allt of stórum hluta bókarinnar að mínu mati, var lítið sem ekkert fjallað um galdrahæfileika stúlknanna og þeirra baráttu við hið yfirnáttúrulega. Þar sem ég kom að bókinni sem fantasíuaðdáandi með eftirvæntingu og tilhlökkun til að sjá hvaða yfirnáttúrulegu raunir biðu stúlknanna varð ég fyrir vonbrigðum. Það sem mér mætti voru óhemju langar lýsingar á ástarsamböndum, skorti á ástarsamböndum og fjölskylduvandræðum. Þetta er eitthvað sem hefði runnið ofan í mig þegar ég var 13 eða 14 ára en ekki alveg jafn auðveldlega núna.

En það er ekki svo að bókin sé án kosta, á köflum er sagan spennandi, stúlkurnar þroskast og kynnast betur sjálfum sér og hverri annarri, við fáum að kynnast betur þeim tveimur persónum sem voru útundan í fyrri bókinni. Þær tvær voru báðar nokkuð yfirborðskenndar týpur þar en dýpka verulega hér, það er ljóst að hugsunum þeirra var markvisst haldið frá lesendum í Hringnum sem hluti af fléttunni og í Eldi fáum við að vita af hverju. Baráttan við demónana stigmagnast, hægt reyndar, og ljóst er að líf bæði stúlknanna og annarra er í hættu. Lausn verður einnig á ákveðnu vandamáli sem var í fyrri bókinni, þó sú lausn hafi reyndar verið alltof langdregin og hefði mátt stytta þann hluta bókarinnar um helming án þess að koma að sök. Bókin er raunar í heildina allt of löng, á sænsku var Hringurinn 516 blaðsíður en Eldur 634 (Bjartur brá á það ráð í útgáfu sinni að minnka letrið í Eldi svo hún virki styttri) og það er hreinlega allt of langt miðað við að ekki gerist meira í bókinni. Takmarkalaus árátta höfunda við að lengja sífellt bækurnar sínar er orðin þreytt. Ég gæti haldið áfram, bókin skiptist í fjóra hluta og milli þeirra voru stórundarleg og löng tímahopp, einn daginn var haust, svo var allt í einu komið fram í mars! Þegar örlög manns sjálfs og heimsins eru í húfi þá efast ég um að það líði reglulega margir mánuðir milli þess að nokkuð gerist. En bókin þurfti að eiga sér stað á heilu skólaári svo þetta var lausnin. Án þess að vilja gefa of mikið upp get ég einnig sagt að afhjúpunin í lok bókar var ótrúverðug, höfundar reyndu að teygja sig langt við að koma lesanda á óvart, svo langt að fyrir vikið misstu þeir algjörlega marks.

Hringurinn náði til breiðs hóps lesenda, en ég held að Eldur eigi meira erindi við unglinga og síður við fullorðna lesendur, nema helst þá sem hafa gaman af að lesa um klassísk unglingavandamál. Kannski eru það væntingarnar sem klúðra bókinni fyrir mér eða kannski er það klúður í bókinni, ég get ekki fullyrt um það. En þetta mun þó ekki halda mér frá þriðju bókinni. Ég vona að Eldur hafi bara dottið í hið klassíska millibilsástand annarrar bókar í þríleik og þriðja bókin endi seríuna með hvelli!

 

Höfundur er Védís Ragnheiðardóttir,
nemi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑