Leikjarýni

Birt þann 6. október, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: FIFA 14

Allir þeir sem hafa spilað FIFA undanfarin ár munu finna fyrir öllum þeim breytingum sem hafa verið gerðar. Oft eru það litlu hlutirnir sem gera góða leiki enn betri, það á svo sannarlega við í FIFA 14.

Helsti galli FIFA undanfarin ár hefur verið njósnakerfið, klunnalegt og í raun hundleiðinlegt að nota. Nú er töluvert einfaldara að senda njósnara og fylgjast með hvað þeir eru að gera. Stjórnborð leiksins hefur verið tekið í gegn og minnir alveg ótrúlega mikið á stjórnborðið í Xbox leikjavélinni. Það nýtur sín best í Career Mode, það sem var klunnalegt í fyrri leik er núna töluvert flottara og betra í notkun.

Ultimate Team hefur lítið sem ekkert breyst frá fyrri leik. Nú þarf að hugsa meira um að búa til rétta efnablöndu af leikmönnum í uppstillingunni svo spilarinn fái sem mest úr sínum hópi. Í FIFA 14 var bætt við að hægt er að spila leiktíð með vini á netinu, þrátt fyrir að samspil sé ekkert nýtt fyribæri þá er þetta skemmtileg viðbót við leikinn. Það er mjög einfalt að setja upp fjölspilun á netinu og búa til mót, hellingur af valmöguleikum fyrir leikmenn til að fá sem mest úr spiluninni.

FIFA14

EA hafa aukið raunveruleikann í leiknum og núna snýst þetta allt um eðlisfræði. Hreyfing og jafnvægi er miklu næmara og hefur nú miklu meiri áhrif á tæknigetu leikmanna. Það sést þegar leikmaður reynir að stilla skrefin til að ná betra skoti eða til að ná betra hlaupi inn í eyðurnar sem vörnin skilur eftir. Eðlisfræðin á bakvið boltann var líka tekin í gegn, þetta sést með því að núna þurfa spilarar virkilega að vanda sig þegar lagt er upp í skotin. Þessi breyting skilar sér stundum í þvílíkum mörkum eða skot tilraun sem endar í innkasti. Þyngdin spilar núna miklu stærra hlutverk fyrir leikmenn en í fyrri leikjum, minni leikmenn geta ekki haft svipaðan líkamsmassa og stærri leikmenn. Gervigreindin er töluvert betri núna og gaman að sjá að önnur lið í deildinni breyta uppstillingum fyrir leiki til að verjast spilara betur.

Hraðinn í leiknum hefur minnkað því leikmennirnir eru núna líklegri til að eiga slæmar snertingar á örlagaríkum augnablikum. Í stuttu máli, FIFA 14 er töluvert erfiðari í spilun en fyrri leikir. Hraðinn í leiknum er ekki eins ofsafenginn og núna þurfa leikmenn að finna gott jafnvægi til að byggja upp sóknina. Það er ekki lengur hægt að hlaupa upp kantinn og tæta þannig upp vörnina. Núna byggist leikurinn meira á að halda boltanum, finna rétta taktinn og yfirspila andstæðinginn.

FIFA14

EA eru þekktir fyrir að framleiða leiki ár eftir ár sem fer mikið fyrir brjóstið á sumum. Sem er alveg skiljanlegt ef þeir bættu ekki neinu við leikina, sem á svo sannarlega ekki við um þennan leik. FIFA 14 stendur klárlega undir væntingum og virkilega gaman að sjá hvað spilun leiksins hefur breyst mikið frá leiknum sem kom út fyrir ári síðan. Leikurinn lítur vel út en gæti samt verið flottari. Því verður gaman að sjá hvernig FIFA 14 mun líta út í Ps4 og Xbox One, þar fáum við loksins að sjá Ignite vélina frá EA og hvernig hún mun gera leikinn enn betri. Að sjálfsögðu eru gallar í öllum leikjum, en þeir eru svo litlir að þeir skipta varla máli í þessu tilfelli. Leikurinn er vel gerður, skemmtilegur í spilun og töluvert erfiðari en fyrri leikir. Það verður að minnast á tónlistina í leiknum, gaman að sjá hvað hún hittir alltaf í mark í hverjum leik. Ef þú hefur gaman af fótbolta og hefur spilað FIFA áður þá er þetta svo sannarlega leikur fyrir þig!

 

Höfundur er Helgi Freyr Hafþórsson,
fastur penni á Nörd Norðursins og nemi í fjölmiðlafræði.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑