Birt þann 13. september, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0J. H. Williams III og W. Haden Blackman segja skilið við Batwoman
Myndasöguheimurinn varð fyrir áfalli fyrir stuttu þegar J. H. Williams III og W. Haden Blackman sem eru búnir að gera mjög góða hluti með Batwoman bók DC sögðust ætla að hætta að skrifa bókina. Williams sagði frá þessu á bloggi sínu, en þar segir hann að DC hafi ekki verið sátt með hvert söguþráður bókarinnar stefndi. Lausn DC var að láta þá Williams og Blackman breyta ýmsu á síðustu stundu. Meðal annars var brúðkaup Kate Kane (Batwoman) og Maggie Sawyer ástkonu hennar tekið út. Þetta hefur leitt til þess að margir hafa velt því fyrir sér hvort DC hafi einhverja fordóma gagnvart samkynhneigðum.
Stuttu eftir að internetið sprakk gaf DC út yfirlýsingu þar sem þeir sögðust ekki vera með neina fordóma heldur væri það einfaldlega slæm hugmynd að binda karaktera saman á þennan hátt því það lokar sögunni af að einhverju leiti. Þetta sýnir sig í því að DC er búið að vera að reyna að ógilda samband Superman og Lois Lane og að sama skapi hefur Marvel gert það með Spider-Man og Mary Jane.
Það er ótrúlega sorglegt að Williams og Blackman séu hættir að skrifa Batwoman því þeir voru að gera góða hluti en vonandi fá þeir einhver spennandi verkefni í líkingu við Batwoman.
Höfundur er Skúli Þór Árnason,
menntaskólanemi.