Leikjarýni

Birt þann 28. júlí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Magic 2014: Duels of the Planewalkers

Magic The Gathering tölvuleikirnir hafa bæst í hóp leikja sem koma út á hverju ári með lítilsháttar breytingum og lagfæringum. Þeir hafa sinn hóp aðdáenda sem verða ekki sviknir og henta mjög vel fyrir spjaldtölvur og snjallsíma enda koma þeir í ár út á Android, iPad ásamt Xbox 360 og PS3 eins og áður. Undirritaður spilaði Magic 2014, eins og hann er almennt kallaður, á PS3.

Þetta verður stutt rýni, ég fjallaði almennt um leikinn síðasta ár og ég reikna með að flestir sem eru að spá í hann þekki eitthvað til, annars er hægt að kynna sér reglur Magic The Gathering á netinu. Leikurinn sjálfur er líka með ágætis kennslu; í byrjun er hægt að velja hvort maður sé alger byrjandi, vanur eða þar á milli. Eftir það er spilarinn látinn taka nokkra æfingaleiki þar sem farið er yfir helstu reglur MTG. Þegar maður er búinn með kennsluna og kominn í hefðbundna leiki er hægt að hafa vísbendingar áfram í gangi. Það var samt einn hnökur á en ég sá hvergi útskýringar á ýmsum aukaeiginleikum skrímsla eins og bloodthirst, annihilator og undying. Ég þurfti að fletta þessum orðum upp þar sem ég er ekki það vanur spilari.

Helstu nýjungarnar í ár miða að því fá spilarinn til að prófa MTG í „alvörunni“ og felst það aðallega í nýjum flokki sem kallast „Sealed play“. Spilarinn fær grunnpakka með spilum að handahófi og þarf sjálfur að búa til sinn eigin stokk eins og gert er í raunverulega Magic þ.e.a.s. velur liti, fjölda landa o.s.frv. Hann notar þennan stokk í röð leikja við mismunandi andstæðinga í leiknum sjálfum og fær svo „booster packs“ af og til í verðlaun til að bæta stokkinn sinn (einnig er hægt að nota hann í fjölspilun). Það er einnig hægt að borga fyrir það að geta verið með fleiri stokka. Þetta er ágætis nýjung og skapar mótvægi við aðalleikinn (campaign) sem er mun hefðbundnari í sniðum þ.e.a.s. andstæðingarnir eru alltaf með sömu spilin og setja þau út í nokkurn veginn sömu röð. Þessi hefðbundna „campaign“ snýst semsagt um að bregðast við ákveðnum fyrirsjáanlegum aðstæðum.

Magic 2014

Einnig er hægt að glíma við þrautir sem eru nokkurs konar hliðstæða við skákþrautir (ég hef áður talað um Magic sem skák spilanördans). Þú ert settur inn í ákveðna stöðu og þarft að spila réttum spilum út og í réttri röð til að leysa þrautina. Magic er einmitt mjög gott spil til að reyna á heilasellurnar og þroskandi fyrir ung börn. Ég hef verið að spila Magic 2014 með sex ára syni mínum og hann er nokkuð glúrinn í þessu.

Fjölspilunin er ágætis skemmtun og hægt er að velja að spila á móti einum eða fleiri keppendum (2 á móti 2). Einnig er hægt að nota sinn eigin bunka (Sealed play). Gallinn er að mjög erfitt er að ná tengingu og fáir virðast spila leikinn í fjölspilun. Ég hef einnig lent í því að stundum klárast ekki leikurinn vegna sambandsslits og maður fær ekki sigur eða tap skráð. Það er oft erfitt að vita af hverju fjölspilun er ekki að virka; kannski er ég að prófa á röngum tíma (hef verið að prófa um miðjan dag) eða einhverjar aðrar ástæður eru að baki eins og t.d. hvort maður spili á móti heiminum eða Evrópu. Kannski er líka PS3 ekki besti vettvangurinn fyrir fjölspilun á þessum leik.

Magic 2014

Gervigreindin er ekki alveg að standa sig og mætti vera betri. Tölvuandstæðingurinn gerir stundum furðuleg mistök, sem betur fer sjaldan, en ég hef oftar en einu sinni lent í stöðu þar sem tölvugreindin gerði stór mistök þegar hún gat gert út um leikinn eða hindrað tap. Einnig hægist mjög á þegar mörg skrímsli eru á borðinu og ákveðin áhættuhræðsla virðist vera almennt hjá tölvunni.

Á heildina litið er Magic 2014 fínasta skemmtun fyrir ekki mikinn pening. Þessi útgáfa er vel fínpússuð, notandaviðmót er mjög gott, góð fjölbreytni er til staðar og þrátt fyrir að tölvugreindin mætti vera aðeins betri þá stendur hún sig yfirleitt vel.

 

Höfundur er Steinar Logi Sigurðsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑