Birt þann 31. janúar, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
09 punktar sem gagnast við gerð uppvakningabúnings
Í dag, fimmtudaginn 31. janúar, kl. 17:30 munum við standa fyrir uppvakningagöngu (zombie walk) í miðbæ Reykjavíkur. Ekki hafa allir breytt sér í uppvakning áður og höfum við því skellt saman níu hugmyndum sem geta gagnast við gerð á uppvakningabúningi. Við hvetjum lesendur sem lauma á fleiri góðum ráðum til að deila því með okkur hinum og kommenta í kommentakerfið hér fyrir neðan.
1. Andlitsmálning
Andlitsmálning fæst til dæmis í Partýbúðinni og Hókus Pókus fyrir lítinn pening. Gott er að þekja andlitið með hvítri málningu og nota svartan lit til að skyggja. Svo er hægt að bæta við bláum eða grænum lit til að gera æðar eða dekkja ákveðin svæði og nota rauðan fyrir blóð. Það tekur smá æfingu að ná þessu vel, en þessi gaur á YouTube er með nokkuð góðar leiðbeiningar.
Einnig er hægt að nota farða sem virkar svipað og andlitsmálning.
2. Gerviblóð
Gerviblóð kemur vel að notum. Eins og við vitum éta uppvakningar þá sem eru lifandi og er því algengt að þeir séu blóðugir í kringum munninn og oft með opin sár í andlitinu. Samblanda af rauðri andlitsmálningu og gerviblóði getur gert góða hluti, en það ber að vara sig á því að blóðið sé ætt ef það á að setja það í og við munninn. Gerviblóð er meðal annars hægt að kaupa í Hagkaup, Partýbúðinni, auk þess er hægt að nota rauða sultu (ekki verra ef hún er með bitum!) eða blanda saman sýrópi og rauðum matarlit.
3. Gervihúð og sár
Hægt er að nota eiturlaust lím, lím til að festa gerviaugnhár eða fljótandi latex til að búa til rifna húð, húðflipa og sár. Þetta YouTube kennslumyndband sýnir allt sem sýna þarf.
4. Föt
Fatnaður getur skipt miklu máli, en uppvakningar geta komið hvaðan sem er; þeir geta verið kaupsýslumenn klæddir jakkafötum, þeir geta verið læknar eða hjúkrunarfræðingar, fótboltamenn eða þessi týpíski Jón Jónsson. Fatnaðurinn getur kryddað upp á búninginn og er hægt að breyta gömlum fötum og sulla smá gerviblóði á flíkurnar til að gera þær raunverulegri.
5. Óhreinlæti
Óhreinlæti er eitt af mörgum einkennum uppvakninga. Þú getur nuddað hárvaxi eða hárnæringu beint í hárið svo það líti út fyrir að vera skítugt og í rugli – já eða bara sleppa því að fara í sturtu í nokkra daga! Einnig er hægt að gera sig óhreinni með því að maka svartri andlitsmálningu á valda staði eða sletta allskonar rugli í fötin sem maður ætlar að klæðast.
6. Göngulag
Hegðun uppvakninga er misjöfn en skiptir miklu máli. Sumir uppvakningar ráfa um líkt og heilalausar skepnur (svona) á meðan nýrri uppvakningar hlaupa um og öskra (svona). Ákveddu hvernig uppvakningur þú vilt vera og æfðu hreyfingarnar og hljóðin heima hjá þér. Æfingin skapar meistarann!
7. Leitarvélar
Farðu á leitarvélar, eins og t.d. Google (Images) eða YouTube, og leitaðu að t.d. „zombie makeup“ eða „zombie tutorial“. Þar er að finna heilan haug af hugmyndum og kennslumyndböndum!
8. Láttu aðra farða þig
Nenniru ekki að standa í þessu veseni og vilt fá einhvern til að gera þetta fyrir þig? Þessi hér getur breytt þér í uppvakning gegn gjaldi.
9. Horfðu á uppvakningamyndir
Horfðu á uppvakningamyndir og skoðaðu uppvakningana. Kannski sérðu einhvern sem veitir þér innblástur.
Forsíðumynd: Wikimedia Commons
Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.