Bíó og TV

Birt þann 21. desember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

Topp 5 óhefðbundnar jólamyndir

Hátíðartíminn er nú genginn í garð og er fátt betra en að nýta jólafríið í gott gláp undir hlýju teppi með eitthvað gómsætt að narta í. Auðvitað verða margar týpískar jólamyndir fyrir valinu og sjálfur reyni ég alltaf að vekja upp barnið í mér með ævintýralegum myndum og kannski einverju klassísku á borð við Home Alone 1 eða 2.

Hins vegar þykir mér áhugaverðara að kíkja á aðrar myndir sem gerast einnig um jólin en eru heldur óhefðbundnari og flokkast kannski ekki beint sem jólamyndir. Þær eru yfirleitt lausar við alvöru jólasveina, innihalda ekki „christmas“ eða því um líkt í titlinum og reyna ekki að troða upp á þig jólaanda með tónlist, yfirdrifnu skrauti, tilfinningaklámi og vel innpökkuðum boðskap. Nú ætlum við að henda smákökunum burt og vinda okkur beint í konfektið.

 

5. Brazil (1985)

Árið 1985 kom út mynd frá Monty Python liðanum og súrrealistanum Terry Gilliam sem er kannski ekki jólalegasta mynd sem ég hef séð, en klárlega með þeim skrítnari. Brazil segir frá skrifstofublókinni Sam Lowry, leikinn af Jonathan Pryce, sem leiðist starf sitt og á oft dagdrauma um að bjarga ákveðinni stúlku. Einn daginn reynir hann að leiðrétta mistök sem urðu til þess að vitlaus maður var tekinn föngum og brenndur fyrir hryðjuverk. Þá hittir hann stúlku drauma sinna, Jill Layton sem leikin er af Kim Greist, en hún er einnig grunuð um aðild að hryðjuverkum vegna mistaka skrifstofunnar. Til þess að komast nær henni biður Sam valdamikla móður sína um að redda sér stöðuhækkun og í gegnum stöðu sína bjargar hann Jill og reynir að flýja lögregluna með henni. Vísindaskáldskapur og kolsvartur húmor blandast saman í dystópískri framtíðarsýn í anda Nineteen Eighty-Four eftir George Orwell þar sem tæknin fær of mikið traust og skriffinska er hafin yfir almenna skynsemi.

Þar sem myndin gerist yfir jólin er töluvert um gagnrýni á hátíðinni sem neyslusinnaðri, t.d. með skiptum á tilgangslausum jólagjöfum á milli persóna eða áhuga meðal nunna á skotvopnum í jólainnkaupunum. Eftir að móðir les Jólasögu eftir Charles Dickens fyrir dóttur sína er hún spurð hvort jólasveinnin komist inn til þeirra án stromps. Hún fullvissar dótturina hana um að það reddist og stuttu síðar brýst sérsveit inn um gat á loftinu og fangar föður hennar með stórum poka. Svolítið öfugt við aðferðir jólasveinsins, ekki satt?

 

4. The Long Kiss Goodnight (1996)

Þessi mynd hefur eiginlega gleymst, en stendur að mínu mati jafnfætis Die Hard myndunum. Hér erum við með magnaða spennumynd sem gerist um jólin og býður upp á jafn miklar sprengingar, töffarskap og húmor og Die Hard. En hver er munurinn? Söguhetjan er kvenkyns. Búmm. Svo einfalt er það. Geena Davis leikur saklausa móður og kennara að nafni Samantha Caine. Eftir að hún lendir í bílslysi byrjar hún að sýna á sér aðra hlið sem kann að fara með hnífa og hefur litla þolinmæði fyrir börnum. Með hjálp einkaspæjarans Mitch Henessey, leikinn af Samuel L. Jackson, kemst hún að því að hún er í raun Charly Baltimore, leigumorðingi sem starfaði fyrir CIA og missti minnið eftir verkefni sem fór úrskeiðis. Í leit sinni af sannleikanum er Charly uppgötvuð af gömlum „vinum“ og endar með að þurfa að grafa upp gamla hæfileika til að bjarga lífi sínu og fjölskyldu sinnar.

Myndin gerist í Pennsylvaníu að vetri til og í byrjun myndarinnar sést Charly í jólaskrúðgöngu, klædd sem kona jólasveinsins. Í gegnum myndina sjást jólaskreytingar víðs vegar svo það fer ekki á milli mála hvaða tími árs er, en tengingin við jólin undirstrikar mikilvægi þess að Charly bjargi fjölskyldunni. Hörkukvendið sparkar svo í rassa til að tryggja gleðileg jól og reytir af sér fimmaurabrandara í leiðinni.

 

3. Die Hard 1 og 2 (1988/1990)

Þessar myndir eru yfirleitt á toppi jólamyndalistans, sérstaklega hjá strákum. En auðvitað eru þær ekki beint jólamyndir. Þær eru samt markaðsettar með jólatónlist í byrjunum stiklanna og gerast báðar á aðfangadagskvöldi. Samt voru þær frumsýndar í júlí… ha? Hér eru þó á ferðinni háklassa spennumyndir sem gefa ekkert eftir og eru óhræddar við að sýna smá húmor. Bruce Willis er algjörlega ódauðlegur (sem útskýrir titilinn) í hlutverki rannsóknarlögreglumannsins John McClane, en hann lendir í því óláni að hryðjuverkamenn brjótast inn á vinnustað eiginkonu hans á meðan jólafögnuður er í gangi. Þýski brjálæðingurinn Hans Gruber, leikinn af meistaranum Alan Rickman, fer fyrir hópnum og gerir allt í sinni stöðu til að, á sinn hátt, stela jólunum. Það er því hlutverk McClane að redda málunum, skjóta mann og annan, segja eins marga fimmaurabrandara og hann getur og bjarga jólunum.

Tveimur árum síðar í Die Harder verður hann fyrir svipuðu óláni á flugvelli þar sem hann hyggst sækja eiginkonu sína úr flugi. Þegar hann mætir á flugvöllinn kemst hann að því að hryðjuverkamenn undir stjórn Stuarts ofursta, sem leikinn er af Willam Sadler, hafa náð stjórn yfir flugumferðarkerfinu og koma í veg fyrir að flugvél eiginkonu McClanes geti lent. Því tekur hann að sér hlutverk hetjunnar á ný og gerir allt sem hann getur til bjarga deginum (og jólunum auðvitað). Seinni myndin er nokkuð jólalegri, þar sem hún gerist meira í kringum almenning og utanhúss. Hún gerist ekki í Los Angeles eins og sú fyrri, heldur í Washington og því fær snjórinn að njóta sín. Það er meira að segja vélsleða eltingaleikur og nóg af sprengingum til að tendra borgina í skammdeginu.

 

2. Eyes Wide Shut (1999)

Síðasta mynd meistarans Stanley Kubrick segir frá sambandserfiðleikum hjónanna Bill og Alice Harford sem leikin eru af Tom Cruise og Nicole Kidman. Bill er læknir og fer með Alice í jólaboð hjá ríkum sjúklingi þar sem þau daðra smá við annað fólk. Daginn eftir rífast þau eftir að hún sakar hann um framhjáhald. Hann fer út, sefur næstum því hjá vændiskonu og hittir gamlan vin sinn sem er á leiðinni í einkasamkvæmi til að spila á píanó með bundið fyrir augun. Bill kemst að því hvernig hann getur svindlað sér inn í samkvæmið og fer þangað grímuklæddur eins og hinir. Þar sér hann ýmsar undarlegar athafnir, en samkvæmið byggist að stórum hluta á kynsvalli. Þegar líða tekur á kvöldið fær Bill aukna athygli frá fólkinu í kring og er neyddur til að sýna sitt rétta andlit. Þá hefst dularfull atburðarás sem felur í sér þöggun á því sem Bill hefur séð og hann byrjar að efast um hvort hann geti lifað áfram í blindni.

Myndin er uppfull af jólaskreytingum sem lýsa upp skotin, en sýnir ítrekað tómleika og þýðingarleysi hátíðarinnar í neyslusamfélagi nútímans. Allt hefur sitt gjald, meira að segja mannslíf. Hjónin gera sér grein fyrir því í auknu mæli þegar líða tekur á myndina og eiga erfitt með að losa sig úr fjötrum neyslunnar. Í lokaatriði myndarinnar sjást þau ræða framtíð sína á meðan dóttir þeirra valsar um búð og velur eigin jólagjafir. Myndin er raun laus við allan jólaanda og sýnir hversu merkingarlaus einkenni hátíðarinnar eru orðin. Segja má að Eyes Wide Shut sé eins konar and-jólamynd, eða a.m.k. jólamynd fyrir fullorðna.

 

1. Batman Returns (1992)

Önnur tilraun Tim Burton til að varpa Leðurblökumanninum á stóra tjaldið og þó að Christopher Nolan sé löngu búinn að tryggja sér titilinn fyrir bestu Batman myndina þá finnst mér þessi ennþá þrusu góð. Micheal Keaton endurtekur hlutverk sitt sem Bruce Wayne og Batman. Hann er ekki jafn stífur og í fyrri myndinni og spennan á milli hans og Michelle Pheiffer í hlutverki Kattarkonunnar virkar nokkuð vel. Pheiffer gerir Catwoman ódauðlega með frammistöðu sinni og gerði Anne Hathaway erfitt fyrir þegar hún tók að sér hlutverkið (með starki prýði) fyrir The Dark Knight Rises. Danny Devito kemur einnig sterkur inn sem mörgæsamaðurinn Oswald Cobblepot, betur þekktur sem Penguin. Hann er jafn ógeðslegur og hann er fyndinn, sem er lykilatriði fyrir illmenni í Gotham borg. Einnig fær Christopher Walken smá hlutverk og það er ekki að spyrja hvort hann passi vel inn í Burton mynd. Tim Burton er mjög góður í ákveðnum hlutum og að skapa andrúmsloft sem virkar bæði myrkt og fjörugt á sama tíma er klárlega hans helsti kostur. Þess vegna lifnar Gotham borg sérstaklega í myndum hans, en art deco arkitektúrinn smellpassar við gotneskar áherslur Burtons.

En hvernig koma jólin inn í þetta allt saman? Jú, myndin gerist yfir jólatímann og það er greinilegt í nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi er mikið um snjó í myndinni og tónlist Danny Elfman er sannarlega hátíðleg. Jólaskreytingar eru víðs vegar um borgina og risastórt jólatré er tendrað í hjarta borgarinnar, alveg eins og hjá Rockefeller Center í New York. En fyrir þá sem aldrei hafa spáð í því þá er Gotham auðvitað bara gamalt nafn á New York borg. Þar sem sumir vilja endilega tengja jólin við kristnar hefðir má benda á biblíutengda byrjun myndarinnar. Það eru jól og snjónum kyngir niður á meðan barn fæðist í gotnesku glæsihýsi. Foreldrar þess eru ekki beint ánægðir með útkomuna og læsa barnið í búri. Þegar barnið tætir í sig heimilisköttinn fá foreldrarnir nóg og setja barnið í körfu og láta fljótið bera það til nýrra eigenda. Hljómar þetta kunnuglega (fyrir utan mörgæsir, kattaát og svoleiðis)? Alla vega, þá er sérstakur hátíðarblær yfir þessari mynd og hún leyfir sér að vera drungaleg án þess að taka sig of alvarlega. Hellingur af snjó, temmilegt magn af skreytingum, mörgæsaher, illmenni stökkvandi úr risavöxnum jólapökkum og geðbiluð kona saumar á sig nýja flík fyrir jólin. Batman Returns er klárlega sigurvegarinn í hópi óhefðbundinna jólamynda.

 

Aðrar óhefðbundnar jólamyndir í svipuðum eða jólalegri dúr eru t.d. Edward Scissorhands, Inside, Go, L.A. Confidential, Lethal Weapon, Gremlins og auðvitað Harry Potter myndirnar.

Gleðilegt hátíðargláp!

Höfundur er  Andri Þór Jóhannsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnEfst upp ↑