Bækur og blöð

Birt þann 19. desember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Bókarýni: Íslensk dægurlög eftir Hugleik Dagsson

Hugleikur Dagsson er einn af betri teiknimyndassagnahöfundum Íslands og dansar skemmtilega óvarlega meðfram línu kaldhæðninnar. Myndasögur hans eru þekktar fyrir að sjokkera, vekja umræðu og kynna lesendum fyrir grófum bröndurum. Ekkert er bannað. Allt er leyfilegt.

Það er ekki erfitt að skilja þá sem þykja Hugleik ganga of langt í bröndurum sínum sem þykja stundum of grófir. Ég er aftur á móti ósammála þessum hópi, enda er það grófleiki og einfaldleiki húmorsins sem nær að grípa lesendann. Það sem fælir einn hóp frá, dregur aðra að.

Flestir teiknimyndasögulesendur ættu að þekkja til stíls Hugleiks, þar sem svart-hvítar og einfaldar fígúrur eru áberandi. Einfaldleiki myndanna og kaldhæðnislegur kúk-og-piss-húmor nær auðveldlega að fanga íslenska lesendur (nema mögulega þá íhaldssömu).

Í Íslensk dægurlög myndskreytir Hugleikur íslenska dægurlagatitla á stórskemmtilegan hátt. Til dæmis við „Tunglið, tunglið, taktu mig“ er mynd af manni að glenna rassinn upp í loft í átt að tunglinu, sem er með langt lafandi typpi. Ég hló.

Bókin er í minni kanntinum og ekki nema 50 litlar blaðsíður og 1-2 dægurlög tekin fyrir á hverri opnu. Það tekur því ekki nema örfáar mínútur að fara í gegnum alla bókina, en hún endist vel og brandararnir verða seint þreyttir. Íslensk dægurlög gefur fyrri bókum Hugleiks lítið eftir. Aftur á móti er hún heldur dýr fyrir svo litla bók, en hún kostar á bilinu 1.500 til 2.000 kr. út í búð. Heldur myndi ég bæta nokkrum hundrað krónum við og kaupa þykkari og eigulegri bók eftir Hugleik. Íslensk dægurlög er tilvalin gjöf í skóinn fyrir þá sem hafa aldur til, til að eiga upp í bústað eða fyrir unnendur íslenskra tónlistar – steiktur húmor lesanda er þó algjört skilyrði!

Í stuttu máli er Íslensk dægurlög ómissandi í myndasögusafnið fyrir aðdáendur Hugleiks og allra þeirra sem elska piss-og-kúk-og-vel-yfir-strikið-húmor hans. Þar sem bókin er stutt (eiginlega of stutt) er hún góð byrjun fyrir þá sem hafa áhuga á að kynnast myndasögum Hugleiks aðeins betur áður en þeir stökkva út í djúpu laugina. Bókin er frábær í þær mínútur sem hún endist, en þeir sem vilja vænlegri skammt af kaldhæðni sem hefur verið vel marineraður í hlandvolgum piss-og-kúk-húmor mæli ég frekar með efnismeiri og eigulegri bók eftir Hugleik – eins og t.d. Jarðið okkur eða Opinberun.

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑