Bíó og TV

Birt þann 3. október, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvenhasarhetjan

Aðsend grein:

Þegar kvikmyndaaðsókn er skoðuð síðustu tvo áratugi er nokkuð ljóst að hasarmyndir skipa þar stóran sess sem gróðavænlegasta kvikmyndagrein Hollywood-iðnaðarins. Hasarmyndir eru afþreying og einkennast af einföldum söguþræði, spennandi atburðarás og slatta af kímni. Yfirleitt voru karlar í lykilhlutverkum og konur einungis settar inn í myndirnar sem augnayndi fyrir stærsta markhóp slíkra mynda sem voru ungir karlmenn, en það átti eftir að breytast.

Það má segja að sú stefnubreyting hafi orðið þegar kvikmyndaleikstjórinn Ridley Scott gerði myndina Alien árið 1979. Þar er aðalpersónan kona, leikin af Sigourney Weaver. Hún tekur sig til og slátrar geimverum eins og ekkert sé og karlmennirnir eru algjörlega vonlausir þegar kemur að því að berjast við óvættina. Hasarmyndahetjan var nú ekki lengur vöðvastælt karlmenni heldur venjulegur kvenmaður. Nú var það konan sem bretti upp ermarnar og tók til hendinni. Eflaust mætti rekja þessa stefnubreytingu í Hollywood til þess að undir lok níunda áratugarins brutust konur til metorða hjá stóru kvikmyndaverunum og fóru að leikstýra kvikmyndum í auknum mæli. Þess má geta að af þeim 7.332 myndum, sem stóru kvikmyndaverin dreifðu á árunum 1949 til 1979, leikstýrðu konur aðeins fjórtán þeirra (Bíósaga Bandaríkjanna eftir Jónas Knútsson, bls. 291).

Eftir að Alien kom út fylgdu fleiri myndir í kjölfarið þar sem konan var hetjan en ekki karlmaðurinn og má þar nefna Blue Steel (1990), Silence of the Lambs (1990), Thelma and Louise (1991) og Terminator 2: Judgement Day (1991). Að sjálfsögðu eru ekki allar þessar myndir hasarmyndir en þær eiga það sameiginlegt að konur eru í aðalhlutverkum, hugrakkar og óhræddar við að takast á við vandamál, með vopnum jafnvel, án þess að njóta liðsinnis karlmanna. Oft á tíðum spila karlmenn þó stórt hlutverk í þessum myndum. Mætti í því samhengi benda á hvernig leikstjórinn Jonathan Demme sýnir á mjög áhrifamikinn hátt feðraveldið í Silence of the Lambs.

Sarah Connor (Linda Hamilton) í Terminator 2: Judgment Day

Eftir aldamótin 2000 komu út margar myndir þar sem kvenmenn voru í hlutverki hasarmyndahetjunnar. Má þar nefna Tomb Raider (2001), Elektra (2005), Æon Flux (2005) og nú nýlega Hunger Games (2012).

Mætti ætla að feministar og þá sérstaklega þeir kvikmyndafræðingar sem höfðu skrifað mikið um konur í kvikmyndum hafi tekið þessari nýju kvenhetju opnum örmum en það var ekki raunin. Það voru margir kvikmyndafræðingar sem litu á kvenhetjuna í hasarmyndum sem karlmann ,,klæddan“ í konugervi. Töldu margir að kvenmennirnir í mörgum af þessum hasarmyndum væru í raun ekkert kvenlegar. Það kemur eflaust ekki á óvart að mörgum skuli finnast kvenhetjurnar í raun vera karlmenn í dulargervi kvenmanns. Því þegar litið er á nokkrar af þessum myndum og skoðað hverjir standa á bakvið þær þá kemur í ljós að karlmenn leikstýra meirihluta þessara mynda og karlmenn eru nánast undantekningarlaust á bakvið handritið. Þó er rétt að benda á að Thelma and Louise var skrifuð af kvenhöfundinum Callie Khouri.

Gott dæmi um kvikmynd þar sem karlhetjan er „klædd“ í kvenmannsbúning er hasarmyndin Salt (2010). Þar leikur Angelina Jolie njósnara sem er harðsvíruð drápsvél. Upphaflega var handritið skrifað með karlkynsleikara í huga og átti ofurtöffarinn Tom Cruise að leika aðalhlutverkið en hann dró sig út úr verkefninu. Var Jolie fengin til þess að leika aðalhlutverkið og var handritinu breytt lítillega fyrir hana.

The Bride (Uma Thurman) úr Kill Bill.

Kvikmyndin Kill Bill er skrifuð með kvenmann í huga og Tarantino hefur í seinni tíð haft konur í aðalhlutverkum og yfirleitt skrifað þær inn í myndir sínar með Tarantino yfirbragði. Þær koma úr hans hugarheimi og eru því yfirleitt ekki mjög raunsæjar. Ólíkt mörgum konum í öðrum hasarmyndum eins og í Alien og Terminator, þar sem kvenhetjurnar minna einna helst á karlmenn og eru stæltar og með skít undir nöglunum, þá eru flestar konurnar í Kill Bill fallegar og kvenlegar í útliti og klæðnaði. Þó mætti segja að þær hugsi og framkvæmi eins og hefðbundnar karlkynshetjur. Mörkin á milli hins kvenlega og karllega eru því að vissu leyti óljós í myndinni.

Það hafa nú verið framleiddar hundruðir mynda þar sem kvenhasarhetjur koma við sögu. Það kippir sér enginn lengur upp við að sjá konu í þessu hlutverki. Jafnvel í kvikmyndum þar sem karlmaður er í aðalhlutverkinu er nú iðullega kona sem er mjög hættuleg og virk. Hvort sem hún er vinur eða óvinur. Þá er stóra spurningin hvort risarnir í Hollywood séu orðnir feministar? Trúlega ekki. Eflaust er kvenhasarhetjan aðeins gott útspil. Með því að setja konu í hið hefðbunda karlkynshlutverk þá skapast ný sýn sem trekkir hinn almenna bíóhúsagest til að borga sig inn á myndir.

Það er að sjálfsögðu mikilvægt fyrir Hollywood að kvenhasarhetjan sé falleg og „sexí“ svo hún „tilheyri“ ennþá karlmanninum, en um leið getur það verið erfiðara fyrir konur að samasama sig kvenpersónunni. Karllega augnaráðið hefur ekki horfið með kvenhetjunni. Væntanlega vegna þess að það eru ennþá karlmenn sem framleiða flestar kvikmyndir í Hollywood. Sést það einna best þegar litið er til aldurs kvennanna sem leika í þessum hasarmyndum. Þær eru ungar og fallegar, það er ekkert pláss fyrir „ljótar“ og óaðlaðandi konur í Hollywood. Það væri kannski undantekning ef konan væri samkynhneigð því þá væri hún ekki ógn við karlmennina.

Skemmtanaiðnaðurinn, og þá sérstaklega Hollywood, er mjög upptekinn af því að brengla ímynd kvenna og það hefur sýnt sig að þessi brenglaða hugmynd um konuna sem kyntákn og augnakonfekt fyrir karlmenn hefur borist eins og eitur inn í vestræn samfélög.

Kvikmyndir eiga að spegla samfélagið sem við búum í hverju sinni, en oft er því einnig öfugt farið. Mannskepnan verður fyrir gífurlegum áhrifum frá kvikmyndum og fjölmiðlum þar sem staðalímyndir eru allsráðandi og brengla oft á tíðum hið raunverulega samfélag og hin raunverulegu gildi. Skemmtanaiðnaðurinn, og þá sérstaklega Hollywood, er mjög upptekinn af því að brengla ímynd kvenna og það hefur sýnt sig að þessi brenglaða hugmynd um konuna sem kyntákn og augnakonfekt fyrir karlmenn hefur borist eins og eitur inn í vestræn samfélög. Kvenmenn eru orðnar ónæmar fyrir sífelldum glansmyndum frá Hollywood og myndum sem er í raun beint að karlmönnum. Því er erfitt að breyta einhverju ef enginn kallar eftir breytingum. Það eru til konumyndir sem beint er að kvenkynsáhorfendum en við nánari skoðun á slíkum myndum má sjá að slíkar myndir eru þó einnig ætlaðar karlmönnum og yfirleitt er feðraveldið ekki langt undan í slíkum myndum.

Karlkynsleikarar í Hollywood spila í annarri deild en konurnar. Þeir fá að leika í hasarmyndum þegar þeir eru orðnir gamlir og krumpaðir. Það eru til ótal dæmi um karlkynsleikara sem eru komnir á sjötugs aldurinn og fá ennþá að leika í hasarmyndum og ungu konurnar í þeim myndum falla ennþá fyrir þeim. Nægir að nefna Clint Eastwood og Sean Connery. Ef einhver getur bent á sjötuga konu sem leikið hefur aðalhlutverk í hasarmynd og fær alla athygli karlmannanna í þeirri mynd þá má sá hinn sami standa upp.

Forsíðumynd: Sigourney Weaver úr Alien (1979).

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
nemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

 

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑