Viðburðir

Birt þann 16. júlí, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Ofurhetjur og illmenni á London Film & Comic-Con 2012

Ritstjórar Nörd Norðursins fóru á kvikmynda- og teiknimyndasöguhátíðina London Film & Comic-Con sem fór fram 6.-8. júlí síðastliðinn.

Gillian Anderson, Hayden Panettiere, Jeri Ryan, Adam Baldwin, Holly Marie Combs og Tom Skerritt ásamt leikurum úr Star Wars og Game of Thrones voru meðal þeirra þekktu andlita sem sáust á hátíðinni. Fjöldi gesta mætti í glæsilegum búningum (cosplay) og var fullur salur af fjölbreyttum básum sem veittu nördum gott úrval af ýmiskonar varningi.

 

Klæddu sig upp sem ofurhetjur

Líkt og á MCM Expo London Comic Con voru fjölmargir sem klæddu sig upp í búninga. Mikill metnaðar var lagður í búningana og klæddu flestir gestir sig upp sem ofurhetjur eða persónur úr kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum.

Meðalaldur gesta var töluvert hærri en á  MCM Expo London Comic Con þar sem að unglingar voru mjög áberandi, hinsvegar virtust lang flestir á  London Film & Comic-Con vera á þrítugs og fertugsaldri. Það var virkilega gaman að sjá svona stóran hóp af fullorðnu fólki hafa gaman af lífinu með því að klæða sig upp og duttu margir hverjir algjörlega inn í hlutverk persónanna sem þeir klæddu sig upp sem.

 

Stjörnurnar mæta

Á hátíðina mætti stór og fjölbreyttur hópur misþekktra kvikmynda- og sjónvarpsstjarna. Stærstu nöfnin voru Gillian Anderson (X-Files), John Simm (Life on Mars), Karl Urban (Star Trek), Hayden Panettiere (Heroes), Jeri Ryan (Star Trek) og Tom Skerritt (Alien), en í heildina mættu 72 þekktir gestir á hátíðina. Það var gaman að sjá kunnugleg andlit sem hafa ekki sést lengi á sjónvarpsskjánum eins og Alex Winter sem lék á móti Keanu Reeves í Bill & Ted myndunum, Michael Winslow og (ó)hljóð hans úr Police Academy og Ke Huy Quan sem lék litla strákinn Short Round í Indiana Jones and the Temple of Doom. Auk þess komu leikarar úr Firefly, Star Wars, Game of Thrones, Star Trek, Charmed og Lord of the Rings.

Efri röð frá vinstri; Tom Skerritt, Adam Baldwin og Mitch Pileggi.
Neðri röð frá vinstri;  Michael Winslow og Robert Maschio.

Líkt og í Mad Monster Party mættu leikarar og leikkonur til þess að gefa, eða réttara sagt selja, eiginhandaráritanir og leyfðu myndatökur með áhugasömum aðdáendum. Flest rukkuðu á bilinu 2.000 kr. til. 4.000 kr. fyrir eina eiginhandaráritun og svipaða upphæð fyrir mynd af sér með gesti í litlu stúdíói sem var á staðnum. Gillian Anderson var þó lang duglegust að rukka og seldi hún áritanir á 9.000 kr. stykkið. Það var skemmtileg upplifun að vera meðal svona margra þekktra andlita og fá að sjá stjörnurnar með eigin augum, en það er nauðsynlegt að takmarka upphæðina sem maður vill eyða á hátíðinni þar sem þúsundkallanir eru fljótir að fljúga úr veskinu.

 

Heilsuðum upp á Boba Fett og John Connor

Við spjölluðum aðeins við Jeremy Bulloch, en hann er hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Boba Fett úr Star Wars myndunum. Um leið og hann heyrði hvaðan við komum var hann fljótur að segja „Jájá, Ísland, við kennum ykkur um allt það hræðilega.“ Í ótta um að lenda í hræðilega niðurdrepandi samræðum um Icesave deiluna kom fljótt í ljós að hann var að tala um eldgosið í Eyjafjallajökli og hló bara. Á borðinu hjá honum lágu nokkrar bækur og spurðum við betur út í þær. Um er að ræða  bókina Flying Solo. Tales of a Bounty Hunter sem verður aðeins gefin út í 2.000 eintökum sem öll eru árituð af höfundi. 1.200 eintök höfðu verið seld þegar við ræddum við Jeremy og fer seldum eintökum fljótt fjölgandi. Það tók hann nokkur ár að skrifa bókina en í henni segir hann ekki aðeins frá reynslu sinni sem Boba Fett heldur fer hann í gegnum leikferil sinn frá barnæsku til dagsins í dag og inniheldur bókin auk þess fjölda ljósmynda úr starfsferli hans sem og úr hans persónulega lífi. Bókin kostar 30 bresk pund (u.þ.b. 6.000 kr.) og fæst á heimasíðu  Jeremy Bulloch hér.

Jeremy Bulloch (t.v.) og Kenny Baker ásamt Dave Prowse (t.h.).

Jeremy Bulloch var í góðra vina hópi þar sem fleiri leikarar úr Star Wars sátu við sama borð. Þar á meðal var Kenny Baker (R2D2), Dave Prowse (Darth Vader) ásamt Tim Dry, Anthony Smee, Sean Crawford, Simon J Williamson, William Hoyland og Gerald Home. Þar sem að við erum miklir Star Wars aðdáendur fengum við Dave Prowse,  Kenny Baker og Jeremy Bulloch til að árita Star Wars plakat fyrir okkur.

Við rákumst einnig á Thomas Dekker sem er meðal annars þekktur sem John Connor úr sjónvarpsþáttunum Terminator: The Sarah Connor Chronicles og Adam Conant í þáttunum The Secret Circle. Hann var ósköp vinalegur og var sérlega hrifinn af bolnum sem ritstjórinn klæddist, sem er uppvakninga útgáfa af Mona Lisa málverkinu fræga.

Thomas Dekker

Frábært vöruúrval

Á sýningunni var fjöldi fyrirtækja með litla bása þar sem þeir kynntu og seldu vörur sínar. Margir básar voru tileinkaðir söfnurum eiginhandaáritana þar sem gestir gátu keypt áritanir og myndir af lifandi og látnum Hollywood stjörnum.

Þó nokkrir básar seldu listaverk sem voru byggð á teiknimyndasögum, ofurhetjum, hrollvekjum, tölvuleikjum eða vísindaskáldsögum. Einn básinn heillaði okkur alveg upp úr skónum, en þar var hægt að kaupa styttur gerðar eftir ofurhetjum, uppvakningum og öðru nördalegu.

Einnig var töluvert úrval af fatnaði, og þá aðallega stuttermabolum og búningum (cosplay búningum). Tveir básar seldu finna annað orð takk af hlutum (props) úr kvikmyndum, og var boxið úr Hellraiser þar á meðal.

Einnig mátti finna töluvert af Star Wars varningi og básum með nýjum sem gömlum teiknimyndasögum.

 

Margar hátíðir framundan í Bretlandi

Á London Film & Comic-Con voru nokkur veggspjöld sem auglýstu komandi viðburði. Ef þú ert á leið til Bretlands er vel þess virði að athuga hvort að eitthvað spennandi muni eiga sér stað. Hér eru nokkrar sýningar og hátíðir sem vert er að minnast á, Destination Star Trek og Return to Middle-Earth hljóma sérlega spennandi!

 

Ert þú á leið á sambærilega hátíð eða sýningu?

Hafðu samband við okkur á nordnordursins(at)nordnordursins.is ef þú hefur áhuga á að deila upplifuninni með okkur!

BÞJ

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑