Greinar

Birt þann 17. júní, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Umfjöllun: „Ég drep fyrir dós af baunum” (DayZ, mod fyrir Arma 2)

Myrkrið umkringir mig, ég sé ekki handa minna skil, einungis dimmar útlínur einstakra trjáþyrpinga hér við ströndina. Fyrir aftan mig gjálfrar hafið, glansar af fölri birtu stjarnanna fyrir ofan, föl birtan lýsir upp örþunna ræmu strandlengjunnar. Bara ef föl birtan myndi gera hið sama fyrir þykksvartan landmassann fyrir framan mig, bara ef ég gæti séð betur inn í kolniðamyrkrið sem ég neyðist til að stinga mér í. Dauðastunur uppvakninganna sem ráfa um í stefnulausri leit að bráð er það eina sem gefur til kynna að eitthvað annað en myrkrið sé til. Ég stefni til vinstri, ýlfrandi hafið mér til leiðsagnar. Ég hef enga hugmynd um í hvaða átt ég er að raunverulega að fara; vestur, suður, norður? Það skiptir ekki máli, svo framarlega sem ég rekst ekki á uppvakning í myrkrinu. Ein mistök og innyfli mín verða á matseðlinum. Vildi óska þess að ég gæti bara grafið mér holu, og breytt yfir mig þar til fer að birta.


Þetta er fjölspilunar „moddið“ DayZ, fyrir leikinn Arma 2 (en „mod“ er viðbót sem spilarar hafa búið til fyrir tölvuleik). Inngangurinn hér fyrir ofan, og sem áfram fylgir fyrir neðan þessa umfjöllun er ekki fegraður lofsöngur, heldur upplifun úr spilun þessa mods eins og það kemur fyrir. Upplifun sem brennir sig inn í hið frumstæða, reynsla af örvæntingarfullri baráttu upp á líf og dauða, upplifun sem fyrir suma verður svo raunveruleg að leikurinn hættir að vera einungis hreyfimynd á skjá, og þær upplýsingar sem þú færð verða skilningarvit þín. Ég hef fundið leik sem ég lifi mig inn í og sekk algjörlega inní.

Þrátt fyrir að vera einungis á prufustigi, eða „alpha“ eins og sagt er á enskunni, þá hefur þetta mod ollið því að leikurinn Arma 2 hefur rokið upp í sölu eins og sjá má t.d á vinsældarlistanum hjá Steam. Fólk sér sig knúið til að segja frá sínum upplifunum, þar sem enginn lendir í því sama og maður veit aldrei við hverju má búast þegar kveikt er á leiknum.

Fyrir þá sem ekki þekkja Arma 2, þá snýst leikurinn um það að gefa spilaranum eins raunverulega mynd af hernaði og hægt er, án þess þó að eyðileggja skemmtanagildið.

Fyrir þá sem ekki þekkja Arma 2, þá snýst leikurinn um það að gefa spilaranum eins raunverulega mynd af hernaði og hægt er, án þess þó að eyðileggja skemmtanagildið. Þolinmæði og vilji til að skríða um í moldinni þjónar betur heldur en snörp músarhendi, á meðan skotið er á óvini í fjarska, sem eru varla sjáanlegri en litlir deplar á skjánum. Sú hegðun sem gildir í venjulegum skotleikjum, veldur skjótum dauðdaga, og DayZ er alveg jafn óvæginn, nema þar geturðu ekki hlaðið upp gömlum „save-game“ til að redda þér.

Þar af leiðandi er hann enginn hnykkju (twitch) skotleikur, heldur taugastrekkjandi upplifun sem snýst um baráttu upp á líf og dauða á meðan ferðast er um hina gríðarstóru eyju Chernorus (200 ferkílómetrar að stærð) í leit að vistum líkt og mat, skotfærum, betri vopnum og fleiri nauðsynjum. Landsvæðinu deilir þú með 30-50 spilurum á vefþjóninum  og allir hafa sama markmið og þú; að lifa af. Vandamálið er hinsvegar það að það er ávallt nóg af uppvakningum en aldrei nóg af vistum. Þar af leiðandi getur verið mun auðveldara á stundum að myrða einhvern grandalausan spilara með vel miðuðu skoti í hnakkann og hirða þau vopn og vistir sem hann hefur á sér, þar sem það getur verið mun hættuminna heldur en að læðast inn í þorp og eiga á hættu að rekast á uppvakninga. Sérstaklega ef spilarinn er orðinn sársvangur og við það að deyja úr þorsta. Sökum þess eru hver einustu kynni við aðra spilara spennuþrungin stund, „friendly?“ er maður spurður, allir óttast að fá skot í bakið af nýfundnum vinum og tortryggnin ræður ríkjum.

Hinsvegar ef þú fremur morð missiru mannúð (humanity), og ef þú missir það allt, breytist útlit þitt í hettuklæddan laumupúka og allir sem sjá þig, vita undir eins að hér er á ferð stigamaður eða bandit. Eftir það geturu ekki sannfært neinn um það að þú sért vinveittur, nema þú finnir aðra siðleysingja eins og þig, menn sem hika ekki við að drepa fyrir eina skitna dós af baunum.

Hví þessi taugastrekkingur, hví ekki bara að hlaupa um allt, skjóta allt sem hreyfist, plaffa næsta spilara sem maður finnur þangað til einhver gerir hið sama við mann sjálfan og maður byrjar aftur (respawnar)? Málið snýst nefninlega um það að þó þú skráir þig úr leiknum, þá vistast staða þín í gagnagrunni leiksins svo að næst þegar þú ferð inn í leikinn, sama á hvaða vefþjóni, byrjaru aftur á sama stað og þú varst síðast, með sömu vistir og búnað.

Þegar þú svo loksins deyrð, þýðir það að þú missir allt sem þú hefur safnað, og vaknar aftur einhverstaðar á strandlengju Chernorus með ekkert nema grút lélega skammbyssu og smávægilegar vistir. Til þess að eggja þig áfram má sjá á forsíðu moddsins töluna : 0 klst og 28m sem yfir stendur „Average life expectancy“  sem stendur fyrir meðal tímann sem spilarar endast.

Varanleikinn að halda áfram með sama karakter, ásamt algjörum skorti á reglum og skilyrðum gefur leiknum stórkostlega dýpt. Þú lærir að meta þetta líf sem þú hefur og tengist karakternum þínum sterkum böndum, nánast svo sterkum að þetta hættir að vera leikur. Frekar skríður maður um í grasinu og grandskoðar lítið þorp í skjóli trjánna frá öllum hliðum áður en maður hættir sér áfram. Leikurinn hættir að snúast um fjölda drápa eins og hinn venjubundni skotleikur og í staðinn verður hver einasta mínúta upplifun, jafnvel þó að eina afrek kveldsins hafi verið að skríða um í grasinu og læðast fram hjá uppvakningum fyrir eina skitna dós af baunum sem maður fann í yfirgefinni hlöðu.

Þú veltir því fyrir þér hvernig heimsendir myndi líta út, þetta er hann; ófyrirgefanlegur og siðlaus. Spurningin er, hversu lengi getur þú lifað af?

Þegar ég hef  læðst fram hjá uppvakningum í myrkrinu í nokkurn tíma sé ég framundan rauðleitan bjarma skera sig úr myrkrinu; blys. Titrandi birtan lýsir upp það sem virðist vera einhverskonar þyrping af vöruhúsum. Spurningin er hver bíður þar; siðlausir stigamenn í von um auðvelda bráð, eða einfaldir eftirlifendur líkt og ég. Algengt bragð slíkra stigamanna er einmitt að kveikja á blysum í myrkrinu og bíða svo fyrir handan mörk ljósbjarmans eftir að reynslulausir bjálfar stígi inn í birtuna, líkt og flugur að ljósaperu. Baunadósir og hvað annað gagnlegt er svo hirt af líkunum.

Ég tek áhættuna, ákveð að læðast áfram, forvitinn, bjartari kostur heldur en að ana blindur út í myrkrið, hver veit, ég gæti fundið einhverja vinveitta. Ég skríð framhjá uppvakningi sem vaggar áfram í myrkrinu á meðan hann gefur frá sér kokhljóðum og stunur, líkt og hann sé að reyna að tjá sig, kannski er hann að spyrja til vegar, þeir virðast aldrei vita hvert þeir eru að fara, ráfa bara í endalausa hringi í grennd við þorp og byggingar, þangað til að þeir sjá bráð til að elta.

Nálægt vöruhúsaþyrpingunni sé ég einhvern hlaupa um með blys í höndunum; fífldirfskan, gerir sjálfan sig að skotmarki. Hann sér mig ekki, ég hleyp í felur á bakvið nálægan vegg áður en ég tek annað skref…

Nálægt vöruhúsaþyrpingunni sé ég einhvern hlaupa um með blys í höndunum; fífldirfskan, gerir sjálfan sig að skotmarki. Hann sér mig ekki, ég hleyp í felur á bakvið nálægan vegg áður en ég tek annað skref. Skothvellur rífur í sundur þögnina, hann hlýtur að vera að skjóta í átt að mér. Ég stekk fyrir hornið með sigtið á skammbyssunni fyrir framan mig, bjálfinn með blysið stendur fyrir ofan lík sem var ekki þarna áðan, hann snýr í mig bakinu. Væri auðvelt hugsa ég, að skjóta hann þar sem hann stendur, yrði auðveld aftaka, en þá yrði það bara ég og yfirþyrmandi myrkrið aftur. Skyndilega tekur hann eftir mér, hann snýr sér að mér og horfir á mig, ég ennþá með miðið á honum. Hjartað tekur kipp. Ég sný mér frá honum nánast samstundis og í smástund stöndum við kyrrir, segjum ekkert. Fingur minn enn tilbúinn að taka í gikkinn við minnstu ógnun. „Friendly?“ spyr hann, ég svara honum játandi í þeirri von um að hann treysti mér. Hann lítur í burtu, ákveður greinilega að ég sé traustsins verður og heldur áfram að leita að vistum í kofunum í kring. Ekki flóknara en það fyrir hann, ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að svíkja traustið, en læt það vera, hann þjónar allavega tilgangi sínum sem mannlegt vasaljós ef hann heldur þessu áfram, get ég elt hann á mörkum ljósbjarmans. Við finnum annan eins og okkur, fullt af líkum, eflaust látnir stigamenn, við hirðum það litla sem þeir hafa á sér, einhverjir aðrir hafa tekið vopn þeirra en ég næ hinsvegar að fylla vasa mína af skothylkjum.

Innantómt öskur bergmálar úr jaðri rauðleitu birtunnar, hjarta mitt frýs. Ég vildi óska þess að ég væri liggjandi í sófanum heima. Ég sný mér til hliðar, í faðm uppvaknings sem slær mig harkalega beint í andlitið. Ég bakka örvæntingarfullur, reyni að hleypa af skoti en í skelfingu minni hitti ég ekkert nema skuggana og malbikið. Nýju félagar mínir hleypa af skotum, og innan skamms liggur uppvakningurinn á jörðinni. Fleiri græðgis stunur berast úr myrkrinu, við afgreiðum þá án vandkvæða sem fyrstu skothvellirnir lokkuðu að sér. Af þeim skothylkjum sem ég fann, á ég núna sex eftir, þau eyðist hratt. Við búum um sár okkar og höldum af stað inn í myrkrið, bönd okkar styrkt af sameiginlegum átökum, Luke heitir hinn, og svo bjálfinn með blysið. Ég elti varfærnislega á jaðri rauðglóandi bjarmans, af ótta við að ljósið dragi að sér óæskilega athygli.

Við finnum fleiri eftirlifendur, í næsta bæ og fyrr en varir erum við orðnir sex. Óskipulagðir samt, hinir þjappa sér saman í miðju birtunnar, og í myrkrinu rekumst við á hóp af  uppvakningum, skot okkar eru óhnitmiðuð og við erum óskipulagðir, en við stöndum eftir sem sigurvegarar. Einn okkar féll í valinn, klóraður í tætlur, umkringdur sundurskotnum uppvakningum. Fimm halda áfram í myrkrinu. Við höldum áfram í gegnum þrjú lítil þorp til viðbótar, skjótum okkur í gegnum þá uppvakninga sem verða á leið okkar, skotfærin tæmast hægt og rólega og ég er varkár með að taka í gikkinn nema að ég sé öruggur um að hitta, einn af okkur fellur í valinn beint fyrir framan mig, ég var ekki nógu fljótur að ná miði. Svona heldur þetta áfram, finnum ný þorp, nýja vini og fleiri uppvakninga. Við krjúpum á hné við lík fallinna félaga, ekki til að votta þeim virðingu okkar, heldur til þess að hirða vistir þeirra.

Núna er flugvöllur fyrir framan okkur, við stöndumst ekki mátið, aðallega ég, ýti á þá í þeirri von um að við gætum mögulega fundið almennilegar vistir, vonandi riffla sem eiga það til að leynast á stöðum eins og þessum . Við hikum þó við flugturn sem stendur upp úr í myrkrinu, umkringdur föl bláum bjarma glóstykkja, það gæti þýtt að leyniskytta bíði þar eftir grænum skotmörkum eins og okkur. Græðgin keyrir mig áfram, ég næ að sannfæra hópinn. Við förum stóran hring, ég leyfi hinum að vera fyrir framan, minni áhætta fyrir mig. Við finnum nokkrar vistir í einu flugskýlanna. Ég grip vasaljós og skotfæri fyrir eitthvað vopn sem ég hef ekki. Eitt skýli í viðbót og svo er turninn handan við það, ég ákveð að læðast fyrst að skýlinu, í von um að finna eitthvað gagnlegt áður en við rannsökum turninn.

Ég hika þó, sé að félagar mínir eru ekki eins varkárir og ég, hlaupa um á opnu svæðinu, beint fyrir framan turninn. Ég hristi hausinn og samstundis sker lítið hvísl í sundur þögnina og einhver fellur niður. Það næsta sem ég heyri eru háværari hvellir í skammbyssum félaga minna, sem standa varnarlausir á auðu malbikinu og skjóta í átt að turninum. Þeir eru dauðir hugsa ég og tek sprett inn í skýlið í þeirri veiku von um að finna gagnlegt vopn, ég finn ekkert, allt til einskis. Turninn er rétt við skýlið svo að ég hleyp upp að honum á meðan kúlnahríðin smellur allt í kring, ég fleygi mér í grasið og hefst handa við að læðast í kring. Nokkrir bölva á spjallrásinni yfir svokölluðum heigulskap skyttunnar fyrir að hafa skotið sig í bakið; eðli leiksins hugsa ég og glotti, við hverju bjóst hann. Ég er kominn hálfan hringinn í kringum turninn þegar einn af okkur tilkynnir að hann hafi fundið lík stigamannsins, einhvern spöl frá turninum, einhver hefur hitt marks, honum blætt út í grasinu á flótta.

Þrír halda nú áfram í gegnum myrkrið, ég, bjálfinn með blysið og hinn veit ég ekki einu sinni hvað heitir. Við eigum lítið af skotfærum eftir, ég læt þá fá sitthvort skothylkið í skammbyssur sínar, eftir það á ég sjálfur tvö. Ég horfi til baka á vígvöllinn, það var mín græðgi sem olli dauða hinna tveggja, ég ætti líklega að finna til sektarkenndar, en ég bjóst við þessu, á vissan hátt beið ég eftir að óþolinmæði þeirra myndi draga einhverjar skyttur fram úr felum.

Stuttu frá flugvellinum finnum við einhverskonar bráðabirgðaspítala, umkringdan gaddavír. Ég ákveð að fara hringinn. Félagar mínir segjast hinsvegar sjá haug af uppvakningum fyrir innan vírinn. Þeir ræða sín á milli hvort þeir eigi að skjóta þá í gegnum girðinguna, teljandi sig örugga fyrir tilstilli víravirkisins. Ég er við það að svara þeim, biðja þá um að bíða aðeins með slíkar fljótfærnisákvarðanir á meðan ég kanna hvað er handan jaðars þessarar litlu birtu sem við höfum. Áður en ég get skrifað skilaboðin heyri ég skothvelli, örvænting þeirra hefur gert þá óþolinmóða. Stríðstunur hinna dauðu nálgast, fyrr en varir er ég umkringdur uppvakningum, ég bakka til félaga minna, stoppa til að hleypa af skotum, felli tvo, klára heilt skothylki, þrjú skot í sitthvorn, tvö út í myrkrið.

Fyrr en varir höfum við skotið síðustu kúlunum okkar, það er nóg af uppvakningum, það eina sem hægt er að treysta á. Sjón mín er orðin blóðlituð og allt titrar og skelfur, ég sé varla hvert ég hleyp. Ég heyri hljóð úr bílvél, jeppa heyrist mér í gegnum titrandi hjartslátt minn, getur bara þýtt eitt ; stigamenn. Frábært hugsa ég í kaldhæðni minni, og faðma grasið, loksins hafa blysin dregið að okkur athygli. restin af uppvakningunum ráfar um í grennd við mig,á eftir vinum mínum heyrist mér. Ef ég kemst ekki í burtu núna, munu þessir nýju gestir án efa drepa mig þar sem ég ligg í grasinu. Ég rís á fætur, hleyp af stað. Ef ég kemst bara út fyrir ljósbjarmann get ég falið mig, hugsa ég. Í staðinn hleyp ég í faðminn á uppvakningi, sem ýlfrar á mig og klórar í átt að mér. Ég tek í gikkinn á skammbyssunni, skothylkið er tómt, ég veit það, en sá hluti af mér sem neitar að gefast upp viðurkennir þá einföldu staðreynd ekki.  Mín síðustu mótmæli eru endurtekin klikk þegar ég tek aftur og aftur í gikkinn; líkvaka mín, ásamt endurteknum dauðahryglum uppvakningsins.

 

Moddið má finna á www.dayzmod.com.

Kristjón Rúnar

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑