Bíó og TV

Birt þann 27. júní, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Abraham Lincoln: Vampire Hunter (3D)

Í Abraham Lincoln: Vampire Hunter er stiklað á stóru í lífi Abraham Lincolns, 16. forseta Bandaríkjanna. Það eru fáir sem vita þó að forsetinn barðist ekki aðeins gegn þrælahaldi í Bandaríkjunum, heldur einnig gegn blóðþyrstum vampírum!

Í stuttu máli snýst söguþráður myndarinnar, sem er byggð  á samnefndir skáldsögu eftir Seth Grahame-Smith frá árinu 2010, um vampírubanann Abraham Lincoln. Sem ungur drengur verður Abraham vitni að því þegar að vampíra myrðir móður hans og verður það til þess að Abraham verður heltekinn hefndarþorsta. Í myndinni fylgjumst við svo með ferðalagi Abrahams og baráttu hans við þessar yfirnáttúrulegu verur.

Sem sagnfræðinörd og hrollvekjuunnandi fannst mér æðislegt að sjá hvernig Bandaríkjasaga var notuð og tvinnuð saman við dularfull öfl vampíranna. Líkt og endurunna skáldverkið Pride and Prejudice and Zombies gaf nýjan og skemmtilegan vinkil á Pride and Prejudice eftir Jane Austen, þá gefur Abraham Lincoln: Vampire Hunter nýjan og skemmtilegan vinkil á  sögu Bandaríkjanna.

Ólíkt Prometheus er þrívíddartæknin í þessari mynd notuð í of miklum mæli þar sem byssuskaftinu er óhóflega oft miðað í myndavélina og óþarfa brellur notaðar aðeins í þeim tilgangi að nota tæknina en ekki til þess að gefa myndinni betri skil. Það eru nokkrir kaflar sem koma mjög vel út í þrívídd, en yfir höfuð er þetta of mikið af því góða – eða réttara sagt; því slæma.

Titill myndarinnar bræðir auðveldlega hjarta nördans en nær því miður ekki að skilja eftir sig góða sögu. Nær hefði verið að skila dýpri sögu til áhorfandans eða fylla myndina með flottum og/eða fyndnum bardaga atriðum milli forsetans og vampíranna, en myndin fer einhverskonar millileið án þess að uppfylla sögu- eða hasarþorsta áhorfandans.

Leikarar myndarinnar leika sín hlutverk þokkalega vel og fóru fram úr mínum væntingum, en ég bjóst við mun meiri B-mynda leik, en raunin var sem betur fer önnur.

Á heildina litið býður Abraham Lincoln: Vampire Hunter upp á áhugaverða samblöndu af Bandaríkjasögu og goðsögnum. Þó að áhorfandinn fái nýjan og skemmtilegan vinkil á Bandaríkjasögu nær myndin ekki að heilla áhorfandann með sögu sinni eða blóðugum hasaratriðum. Abraham Lincoln: Vampire Hunter er ágætis afþreying, en ekki mikið meira en það.

Abraham Lincoln: History prefers legends to men. It prefers nobility to brutality, soaring speeches to wild deeds. History remembers the battle, but forgets the blood. However history remembers me before I was a President, it shall only remember a fraction of the truth…

Bjarki Þór Jónsson

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑