Bíó og TV

Birt þann 28. maí, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Sleepaway Camp (1983)

Sleepaway Camp er hryllingsmynd frá níunda áratugnum sem fáir hafa heyrt um. Myndin fjallar um frændsystkinin Angelu (Felissa Rose) og Ricky (Jonathan Tierston) sem fara í sumarbúðir. Átta árum áður lenti fjölskylda Angelu í hræðilegu slysi sem varð til þess að hún flutti til frænku sinnar Mörthu (Desiree Gould) og sonar hennar Ricky. Angela er mjög feimin og þögul og er mikið strítt vegna þess; Ricky gerir það sem hann getur til þess að vernda frænku sína. Þegar hver stríðnispúkinn af öðrum lendir í banaslysi beinast spjótin að hinni þöglu Angelu og kjaftfora Ricky. Þegar það færist í aukana skýrast leikar í lokin með einum magnaðasta endi kvikmyndasögunnar.


Angela og Ricky

Þessi mynd sker sig úr hvað varðar þessar dæmigerðu slasher-myndir sem tröllriðu níunda áratugnum í kjölfarið á Halloween (1978) og Friday the 13th (1980); hún fer kunnuglegar leiðir fyrir utan það að lítið er um hold og blóð. Oftar en ekki sjást afleiðingarnar sem eru oft frekar ógeðfelldar, sem segir okkur að gamla góða reglan, minna er meira, á mjög vel við þessa mynd. Sögusviðið er ekki nýtt af nálinni og framvindan fyrirsjáanleg að mestu fyrir utan öðruvísi morð og svakalegan endi. Bæði óþekktir og óreyndir leikarar koma fyrir í myndinni og þrátt fyrir það standa flestir sig ágætlega. Persónurnar eru alls ekki djúpar en leikararnir ná þó að gæða þær einhverju lífi, þrátt fyrir að virðast ódýr er myndin frekar raunsæ. Myndin er kannski of sein í gang og hæg yfir höfuð fyrir þá sem eru vanir nýlegri og hraðari hryllingsmyndum; en fyrir okkur hina þá er þetta ómissandi mynd í hryllingsmyndasafnið.


Martha

Myndgæðin eru frábær miðað við aldur en aðeins sæmileg ef maður horfir á þetta sem nýja mynd. Filman sem var notuð var í góðu ásigkomulagi, en þaað sést langar leiðir að myndin hafi verið frekar ódýr. Myndin er sjaldan skýr, nema einna helst í nærmyndum, en litir koma frekar vel út þrátt fyrir að litróf myndarinnar sé frekar dauft og einsleitt. Upprunalega einóma hljóðrásin er notuð og stillt upp sem tveggja rása. Hljóðið er býsna gott og blessunarlega laus við óæskilegt hiss. Það eina leiðinlega við þennan mynddisk er sú að myndin er ekki óklippt á DVD, það vantar nokkrar sekúndur og skot hér og þar í gegnum myndina. Það  er reyndar ekkert ómissandi, en ef maður veit af því er hægt að heyra það á hljóðinu og í sumum tilfellum í klippingunni á myndinni. Ástæðan er sú að filman kom svona til þeirra og þeir vissu ekki betur, og hafa ekki lagað þetta hingað til.
Það er lítið af aukaefni, eitt umtal með leikstjóranum Robert Hiltzik sem einnig skrifaði hana, Felissa Rose og aðdáenda myndarinnar, Jeff Hayes, sem heldur úti vefsíðunni sleepawaycampmovies.com. Robert og Felissa hafa gaman að því að sjá myndina, grínast mikið og stundum koma áhugverðar sögur frá gerð myndarinnar. Því miður er ekki farið djúpt og þessi svokallaði aðdáandi myndarinnar notar ekki einu sinni tækifærið til þess að spyrja þau spurninga sem skipta máli. Hver veit, kannski vildi hann geyma það fyrir síðuna sína en þar er urmull af upplýsingum, gullkornum og viðtölum. Einnig er skrítið að hann hafi ekki minnst á þessar óvæntu úrklippur á meðan umtalinu stóð. Það er farið illa með gott tækifæri hér, frekar slappt umtal en samt ekki alveg einskins virði. Svo fylgir einnig upprunalega stiklan með sem er stutt og laggóð og sýnir sem betur fer ekki of mikið.

Þetta er mynd sem allir sannir hryllingsmyndaaðdáendur ættu að kanna, diskurinn er ágætur þrátt fyrir að innihalda ekki óklippta útgáfu. Ég er ánægður með að það er notast  við upprunalegu hönnunina á plakatinu fyrir hulstrið á disknum. Myndin hefur sína kosti og galla, hún gæti verið fjörugarri og hraðari en hún er þó stutt og hefur þessa sérstöðu á meðal slasher-myndanna. Það er kannski ekki óvitlaust að líkja myndinni við óslípaðan demant, efniviðurinn er góður en það vantar smá uppá hana. Því fær myndin 2 og hálfa stjörnu af 5 mögulegum.

Jósef Karl Gunnarsson

Deila efni

Tögg: , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑