Birt þann 14. apríl, 2012 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason
0Hvað voru þeir að hugsa? II
Vegna anna hef ég ekki getað skrifað eins mikið á þetta blessaða blogg eins og ég hefði viljað, en þar sem ég er með nagandi samviskubit yfir því ákvað ég að henda í eina stutta færslu. Fyrir sirka hálfu ári síðan sýndi ég nokkra Famicom pirate leiki sem ég á hérna á Leikjanördablogginu. Það sem var sérstakt við þá leiki var að límmiðarnir á þeim voru í engu (eða alla vegana mjög litlu) samræmi við leikinn sem leikjahylkið hafði að geyma. Það virðast ekki vera nein takmörk fyrir því hvað pirateframleiðendur geta verið í samhengislausir þegar kemur að því að útbúa límmiða fyrir leikina sína, en í þessari færslu ætla ég að sýna nokkra pirate leiki sem er nokkuð erfitt að toppa þegar kemur að heimskulegum límmiðum.
Double Dragon III: The Sacred Stones (Technos 1991)
Hver man ekki eftir Double Dragon leikjunum? Þeir voru meðal fyrstu almennilegu slagsmálaleikjanna þar sem einn, eða tveir spilarar, gátu slegist saman á móti flóðbylgju af óvinum, og notað til þess nokkur fjölbreytt brögð. Utan á leiknum sjáum við Billy og Jimmy, aðalpersónur leikjaseríunnar, ásamt hinum tveim persónunum (sem ég man ekki hvað heita) sem er líka hægt að spila. Allt í allt myndi ég segja að þessi límmiði sé með þeim betri sem ég hef séð fyrir Famicom leik. Hann passar vel við svarta hylkið og listamaðurinn nær vel að sýna að Billy og Jimmy voru ekta 80’s töffarar.
Listamaðurinn sem gerði límmiðann fyrir þetta piratehylki lagði hins vegar ekki eins mikinn tíma í sína vinnu. Það stendur vissulega Double Dragon 3 á límmiðanum (á tveim stöðum meira segja), en hvernig datt honum í hug að setja mynd af Jackie Chan og Chris Tucker framan á leikinn? Billy og Jimmy eiga að vera harðir Kung-Fu kappar sem öldust upp við gengjalíf götunnar, og þar fyrir utan eru þeir að öllu nema eftirnafninu til, hvítari en vanilluís. Jackie Chan kann vissulega Kung Fu, en Chris Tucker er bara góður í að leika pirrandi stereótýpur. Jakkafötin eru ekki heldur beint í stíl við rifnu vestin sem Lee bræðurnir ganga vanalega í.
Hvað voru þeir að hugsa?
Listamaðurinn: „Vá hvað þessar tölvuleikjapersónur er svooo seinasti áratugur! Það á engin eftir að vilja kaupa leik sem virðist vera auglýsing fyrir nýjasta strákabandið. Ég veit! Ég set náungana úr Rush Hour framan á leikinn. Ég meina myndin var FRÁBÆR! Hvaða heilvita maður myndi ekki vilja spila Rush Hour tölvuleik?!“
Little Nemo: The Dream Master (Capcom 1990)
Þessi leikur er einn af mínum uppáhalds 8-Bit leikjum allra tíma, enda eru Capcom þekktir fyrir að gefa út frábæra titla (Mega Man, Ducktales). Ég átti líka teiknimyndina á VHS og hafði endalaust gaman af því að horfa á hana, þótt hún hafi verið frekar skrítin og drungaleg á pörtum. Miðin á þessum leik er líka mjög fallegur, og fyrir þá sem sáu teiknimyndina þá fer ekki á milli mála hvaða leikur er hér á ferð.
Ég veit ekki alveg hvernig dúkkur sem eru notaðar til að árekstrarprufa bíla tengjast Nemo á nokkurn hátt. Það stendur reyndar Dream Master á límmiðanum en ef ég myndi sjá þennan leik á flóamarkaði í Rússlandi myndi ég strax gera ráð fyrir að þetta væri einhvers konar bílaleikur, frekar en leikur um ungan strák sem berst við hið illa í draumunum sínum. Allt í allt þá er þessi límmiði með þeim samhengislausustu sem ég hef nokkurn tíman séð.
Hvað voru þeir að hugsa?
Framleiðandinn: „Jæja, við vorum að framleiða 10.000 eintök af leik um strák sem berst við skrímsli í draumunum sínum. Hvernig viltu tækla þetta?“
Listamaðurinn: „Hvernig væri ef ég myndi teikna svona dúkkur eins og eru notaðar í árekstarprófum að klessa á brunahana, og ein dúkkan er búin að skjótast út um framrúðuna á bílnum, og vatnið úr brunahananum sprautast á hana af fullum krafti?“
Framleiðandinn: „Geturu látið dúkkurnar líta út eins og þær séu að skemmta sér konunglega?“
Listamaðurinn: „Ekki málið!“
Framleiðandinn: „Glæsilegt! Hvar væri ég eiginlega án þín kæri listamaður.“
Dragon Fighter (Towachiki 1990)
Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki spilað þennan leik. En ef ég man rétt þá er þetta svona klassískur side-scroller leikur þar sem söguhetjan getur breytt sér úr manni yfir í dreka, og bæði formin hafa mismunandi hæfileika. Miðin segir það svo sem ekki, en það má ekki gleyma því að það fylgdu bæklingar með öllum upplýsingum um leiki með orginal Famicom leikjum. Pirate leikir hins vegar eru jafnan seldir án allra umbúða og því þarf límmiðinn að gefa nokkra hugmynd um hvað leikurinn snýst. Þessi miði er engu að síður frekar töff. Fáránlega vel vaxinn maður með sverð og dreka í bakgrunninum ásamt titli leiksins. Þetta þarf ekki að vera flókið.
OK, ég viðurkenni að þessi miði er reyndar ekki svo slæmur. Hann er vel merktur, það er hetja með sverð, eldspúandi dreki og svo RISASTÓR BJÖRN. Hvað er málið með hann? Var ekki drekinn og hetjan nóg? Þegar maður lítur nánar þá sér maður að björninn er greinilega hluti af bakgrunnsmyndinni meðan drekinn og sverðakallinn eru splæstir inn á myndina. Var í alvörunni ekki hægt að finna bakgrunn sem var ekki með risastórum birni sem kemur leiknum ekkert við?
Hvað voru þeir að hugsa?
Framleiðandinn: „Hvernig gengur með Dragon Fighter límmiðana?“
Listamaðurinn: „Bíddu bíddu, sagðiru ekki að leikurinn héti Dragon Fighting Bear Battle Jungle Heroes við mig seinast?“
Framleiðandinn: „Neee, ég held ekki. Gæti samt hafa mismælt mig. Ég á það til.“
Listamaðurinn: „Ég er nokkuð viss sko. Ég er alla vegana ekki að fara henda 8 mínútum af MS Paint vinnu út um gluggann út af þínum talgalla.“
Framleiðandinn: „Heyrðu, þetta er frábært. Í prentun með þetta!“
Chip ‘N Dale: Rescue Rangers 2 (Capcom 1993)
Chip ‘N Dale leikirnir eru enn eitt frábært dæmi um hvað Capcom gera fáránlega góða platformer leiki. Ég spilaði fyrri leikinn í drasl á sínum tíma, en seinni leikinn (sem er mjög svipaður þeim fyrsta) hef ég ekki spilað, enda gefinn út það seint á líftíma Famicom/NES tölvunnar að hann seldist illa og er frekar sjaldgæfur í dag. Þetta er flottur límmiði. Báðar aðalpersónurnar sjást og merkingin er bæði á ensku og japönsku.
Hvar á ég að byrja… Hvorugur af hinum heimsþekktu íkornabræðrum sjást framan á þessum leik. Í staðinn hefur verið sett mynd af hundi að lúskra á ketti, sem virðist reyndar ekki hafa neitt á móti því. Bakgrunnurinn virðist vera rólegt bavarískt sveitaþorp, og svo er Tails úr Sonic leikjunum þarna MEÐ HREINDÝRAHORN Á HAUSNUM! Maður verður að spyrja sig hvort listamaðurinn sem gerði þennan miða hafi bara verið skítsama hvað hann gerði eða hvort hann hafi einfaldlega verið brjálaður húmoristi.
Hvað voru þeir að hugsa?
Framleiðandinn: „Hvað ertu að gera maður? Þetta er leikur um íkorna sem lenda í ævintýrum!“
Listamaðurinn: „Alveg rólegur, svona höfðum við til miklu breiðari áhorfendahóps. Íkornar hættu að vera töff árið 1992! Þetta er árið 1998 maður! Krakkar fíla hunda á sterum, masókíska ketti og hreindýrarefi í dag.“
Framleiðandinn: „Þú ert rekinn.“
Takk fyrir lesturinn!