Bíó og TV

Birt þann 23. september, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Source Code

Maður að nafni Colter Stevens, þyrluflugmaður hjá bandaríska hernum, vaknar um borð í lest án þess að muna hvernig hann komst þangað. Stuttu eftir að hann gerir sér grein fyrir því að hann sé í líkama annars manns, springur lestin og hann vaknar í ókunnugum aðstæðum á ný. Hann virðist vera fastur á afskekktum stað og kemst hvergi; umkringdur vírum, skjám og málmi. Í gegnum skjáinn er honum gerð grein fyrir því að allt sem gerðist í lestinni var hluti af svokölluðu Source Code verkefni og að hann sé hluti af því. Markmið hans er að finna út í sýndarheimi Source Code hver sprengdi lestina til þess að koma í veg fyrir aðra hryðjuverkaárás sem á að gerast þann dag.

Duncan Jones er einn af þrem leikstjórum sem eru sagðir vera nýja blóðið í vísindaskáldskap, komnir til að dæla lífi í flokkinn, en hinir tveir eru þeir Neill Blomkamp (District 9) og Gareth Edwards (Monsters). Duncan Jones er þó sá besti af þeim þrem að mínu mati og er klárlega lærður í tungumáli kvikmynda og er fjári góður í að fiska eftir bestu frammistöðunni úr leikurunum. Fyrir þá sem hafa ekki séð Moon eftir hann ættu að rjúka á næstu leigu og næla sér í eintak, enda stórgóð kvikmynd í alla staði þar á ferð.

 

 

Mikill munur er þó á milli Source Code og Moon; fyrir það fyrsta var Source Code ekki handritið hans, heldur var það Jake Gyllenhall sjálfur sem benti honum á handritið; í öðru lagi er flæðið gjörólíkt og tónninn líka. Source Code er þéttari og hraðskreiðari en Moon og byggist minna á andrúmslofti og meira á spennu, það er hvergi dauður punktur út alla myndina. Spennan er hefðbundin fyrir utan hvað er í húfi, en Source Code fellur undir sama flokk og Inception sem vísindaskáldskapur innan mannshugans, þannig sumir munu tengja sig betur við það sem er í húfi en þeir sem geta ekki séð tilganginn hjá Colter Stevens í að reyna að bjarga öllum um borð þegar atburðurinn hefur þegar átt sér stað. Spennan um að finna hryðjuverkamanninn er hins vegar mjög áhrifarík og þær senur eru í fullkominni lengd.

Mikið er um stórleikara í Source Code og er gott að sjá Jake Gyllenhall snúa aftur í vísindaskáldskap síðan hann sló í gegn í Donnie Darko. Hér fer hann létt með að selja tilfinningalega togstreitu persónu sinnar, húmorinn og hann passar einnig mjög vel við mótleikara sína. Hinn tilbreytilegi Jeffrey Wright er ekki alveg upp á sitt besta hér og er það helst því hann ýkir of mikið á köflum, en mótleikkona hans, Vera Farmiga, bætir þó upp fyrir það með nærveru sinni og passar fullkomlega í hlutverk sitt. Veikasti leikur myndarinnar kemur þó frá Michelle Monaghan. Jafnvel Scott Bakula sem lék í Quantum Leap (þætti frá níunda og tíunda áratug sem hljómar næstum alveg eins og Source Code) spilar lítið en mikilvægt hlutverk í myndinni og segir jafnvel einkennandi setninguna sína, „oh boy,“ úr þættinum. Engin smá nördabónus fyrir þá sem elskuðu þann þátt.

Source Code er ein af fáum myndum sem hefði þurft á meiri tíma að halda. Þó að myndin sé hraðskreið, þétt og mjög spennandi tekst henni þó ekki að gera nógu vel grein fyrir óskýrum takmörkum Source Code verkefnisins og verður þú einfaldlega að kaupa hugmynd myndarinnar frá upphafi án nægrar útskýringar. Þetta vandamál er augljósast í lokin- án þess að spylla sögulokum myndarinnar vil ég bara segja að síðustu mínúturnar hefðu mátt fjúka því myndinni hafði þegar lokið fullkomlega. Hefði myndin verið lengri hefði verið meira rými til að þróa vísindaskáldskapinn og aukapersónurnar. Annar veikur hlekkur myndarinnar eru tæknibrellurnar, en þær eru alveg hlægilega lélegar á köflum, en sem betur fer ekki mikið til staðar.

Þrátt fyrir galla myndarinnar er hér samt stórmerkilegt sögusvið þar sem spennan, frammistöðurnar og persónurnar keyra myndina áfram á stórgóðum hraða í einni áhugaverðustu spennumynd ársins.

Axel Birgir Gústavsson




Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑