Birt þann 18. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Kvikmyndarýni: Super 8
Flestir sem þekkja til eldri mynda Steven Spielbergs, á borð við E.T. og Close Encounters of the Third Kind, sem eru goðsagnakenndar í kvikmyndaheimi vísindaskáldskaps, vita eflaust að Super 8 er óður til leikstjórnar Spielbergs frá þeim tíma. Ekki nóg með það heldur framleiddi hann myndina ásamt J.J. Abrams, leikstjóra og handritshöfund myndarinnar. Hér, líkt og með Cloverfield (sem Abrams framleiddi líka) hefur legið mikil leynd yfir söguþræði myndarinnar og ætla ég svo sannarlega ekki að svipta hulunni af myndinni því það er eitt það besta við Super 8.
J. J. Abrams getur nú skellt því í ferilskrána sína að hann vinnur vel með leikurum því allir í aðalhlutverkum Super 8 skila óneitanlega góðri frammistöðu og þær kraftmestu koma frá krökkunum sem þurfa mest megnis að halda myndinni uppi. Það er ekkert lítið afrek og fáum hefur tekist það jafn afbragðslega og hér. Joel Courtney, sem fer með aðalhutverkið, er mjög raunsær í frammistöðu sinni og tekst að bæta miklum þunga í atriði sem við sjáum í gegnum persónu hans. Til móts við hann er svo Ella Fanning sem kom mér mest á óvart því hún er mjög víðtæk í leik sínum og getur hoppað á milli í tilfinningaspili á náttúrulegan hátt sem jafnvel eldri leikarar eiga oft erfitt með. Aukaleikararnir eru þá Kyle Chandler, sem leikur föður persónu Joels og er bestur í senunum með samtölum þeirra, eitt þannig atriði er með sterkustu senunum í myndinni og skilar miklu um samband þeirra feðga, með stuttri þögn þar sem þeir fá að spreyta sig rækilega sem leikarar. Persónurnar fá líka flestar nógu fullnægjandi lok og tekst Abrams ansi vel með að binda þéttan hnút á sögur persónanna.
Útlit myndarinnar er gullfallegt og notkun á staðsetningum er glæsileg. Kvikmyndatökuvandamálin úr Star Trek eru nánast á bak og burt því „lens-flare“ ofnotkunin þar virkaði við að bæta útlit myndarinnar í fyrstu en varð fljótt þreytt, en hér er notkunin á því við hæfi því fyrrnefndar myndir Spielbergs voru einmitt fullar af lens-flare. Hér er það líka mun minna til staðar og er ekki nærri því jafn truflandi. Annað sem J. J. hefur bætt síðan í Star Trek er hversu mun raunverulegri sambönd persónanna eru og að hjartnæmu atriðin virka mun betur þess vegna. Persónurnar eru þó ansi einfaldar og ekki ólíkar þeim sem hægt er að finna í gömlu myndum Spielbergs.
Eitt sem J. J. má eiga er að hann kann virkilega að skapa raunverulega spennu þar sem hættan er á hverju horni. Sprengingar í myndinni virka raunverulegar og þegar það er algjör glundroði í kringum persónurnar líður manni virkilega eins og að hvert skref eigi á hættu við að verða þeirra síðasta. Hann er líka góður í að skrifa samtöl milli krakka – virkilega góður reyndar því öll orðaskipti hér eiga við hæfi og hljóma eins og eitthvað sem krakkar myndu segja, auk þess að færa okkur yfir í þeirra sjónarhorn. Þó á J. J. við eitt vandamál að stríða hér: söguþráðurinn. Söguþráðurinn er í raun ansi ómerkilegur og alls ekki nýr þó sagan sjálf sé mjög áhrifamikil. Síðasti þriðjungur myndarinnar þar sem kemur í ljós hvað sé að gerast og hvernig er tekist á við það er líklega of mikið til að gleypa við fyrir marga. Bregðuatriðin, þó þau færu ekki í mig, gætu líka drepið stemninguna fyrir þá sem eru orðnir þreyttir á þeim.
Það er langt síðan mér hefur fundist skrímsli í kvikmynd ógnvekjandi (maðurinn kann að færa okkur mjög frábrugðin skrímsli), en Super 8 tókst það, út mest alla myndina. Allt í allt þjáist myndin þó vegna vandamála varðandi söguþráðinn og er frekar undirþyrmandi, en er þó góð skemmtun sem á auðvelt með að byggja upp andrúmsloft og spennu ásamt því að fiska margvísleg viðbrögð með góðum leik og leikstjórn. Einnig vil ég benda fólki á að bíða uns kreditlistinn hefur lokið sínu máli, helmingurinn stóð eftir til að sjá það sem var þar á stjá, enda mjög fyndin viðbót.
Ofurgóð skemmtun.
– Axel Birgir Gústavsson