Birt þann 18. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Neon Genesis Evangelion
eftir Axel Birgir Gústavsson
Árið er 2015 og rúmlega helmingur mannkynsins hefur verið þurrkaður út, eftir hinn svokallaða Second Impact heimsendir sem varð um aldamótin. Jarðabúar hafa þó ekki sloppið algjörlega með skrekkinn, því dularfullar verur, kallaðir Englar, eru komnar til að klára málin. Mannkynið á eina afstöðu eftir: NERV, varnarsamtök staðsett í Japan, undirbúin gegn Englunum með risavöxnum vélmennum sem kallast Evangelion-bardagavélar. Eini hængurinn við þessar vélar er að einungis fólk fætt eftir Second Impact geta stjórnað þeim innan frá, en þannig kynnumst við hinum 14 ára Shinj Ikari; aðalpersónu Neon Genesis Evangelion. Nú hefst bardagi Shinjis um mannkynið og sitt eigið sjálfsálit.
Neon Genesis Evangelion má í það minnsta kalla stórspennandi og hrollvekjandi bardagaseríu. Serían virkar í fyrstu eins og hasarmikill „monster-of-the-week“ þáttur, en þróast fljótt í ógnvekjandi sálræna persónugreiningu þar sem eymdin er hvergi spöruð og persónulegir veikleikar geta verið dýrkeyptir. Þættirnir eru skringilega aðgengilegir þó efnið sé mjög þungt á köflum og tæklar persónur sem eru allt nema tákn geðheilsu. Neon Genesis Evangelion hefur verið einn af fyrstu Anime þáttum fyrir marga (þ.á.m. fyrir undirritaðan) og það kemur á óvart hversu víðtækur aðdáendahópurinn er. Þar á meðal eru tveir frægustu aðdáendur þáttanna leikarinn og grínistinn Robbin Williams,sem sótti um hlutverk persónunnar Gendo í nýja myndabálk seríunnar, og leikstjórinn Wes Anderson. Framleiðslufyrirtækið ADVF og tæknibrellufyritækið Weta í Nýja Sjálandi höfðu byrjað forvinnslu á enskumælandi kvikmyndaseríu byggða á þáttunum undir stjórn Matt Greenfield, en ekkert hefur heyrst af því verkefni síðan í febrúar 2010.
Sögusvið þáttanna er mjög áhugavert og það er frekar súrrealískt að sjá jörðina eftir heimsendinn, þar sem fólk hefur hópað sig saman í stórborgunum og nánast enga umferð er að finna fyrir utan lestir. Allir bíð í viðbragðstöðu eftir næstu árás og Tokyo-borg hefur verið byggð upp frá grunni og gerð að sjálfvirku varnarbyrgi og vígvelli. Bardagarnir gegn Englunum eru grípandi, magnþrungnir og bjóða upp á mörg skörp vandamál sem þarf að leysa til að ganga með sigur af hólmi. Enginn Engill er eins, og er þess vegna alltaf eitthvað nýtt til að takast á við fyrir NERV teymið, oft á óvænta vegu. Álit á persónunum er ansi skipt milli aðdáenda og þá helst á milli aðalpersónanna, Shinj(í japan er hann ekki jafn umdeildur og í vestrænu löndunum), en Neon Genesis Evangelion býður uppá nánast herskara af persónum. Þó persónulegar hliðar þáttanna séu þungar er þó gamanið aldrei langt frá, og þá sérstaklega þegar þriðja Evangelion-bardagavélin bætist í leikinn.
Serían á langa sögu að rekja, en upphaflega átti sjónvarpsserían, sem hóf göngu sína árið 1995, einungis að vera stór auglýsing fyrir myndasöguna.
Serían á langa sögu að rekja, en upphaflega átti sjónvarpsserían, sem hóf göngu sína árið 1995, einungis að vera stór auglýsing fyrir myndasöguna. En sjónvarpsserían tók á sig sína eigin mynd og líf, og hefur síðan þá haft stórmikil áhrif á iðnaðinn í heimalandi sínu og var einn stærsti valdur anime-væðingarinnar í hinum vestræna heimi. Hideaki Anno, höfundur seríunnar, þjáðist þó af þunglyndi við vinnslu þáttanna og það sést klárlega í seinni þáttum Evangelion þar sem persónurnar kljást við Englana jafnt og við sína innri djöfla. Síðustu þættirnir eru líka þekktir fyrir að hafa verið gerðir fyrir nánast engan eyri, því eftir 18. þátt varð kostnaður þáttanna lækkaður heilmikið að ósk TVTokyo, sem sýndu þættina, vegna hversu óæskilegt þeim fannst efni þáttarins. Eftir þætti 25 og 26, síðustu þætti seríunnar, voru margir aðdáendur óánægðir við að fá ófullnægjandi sögulok, í kjölfarið var gerð kvikmyndin, The End of Evangelion til að bæta upp fyrir sögulok þáttanna. Kvikmyndin er byggð á upprunalega handriti þátta 25 og 26 og hefur valdið miklum deilum: Þá fyrst fyrir hvort myndinni tókst að færa aðdáendum betri sögulok eða rugla þá enn frekar, og þá næst hvort kvikmyndin var í raun bara ein stór hefnd Annos, sem sagðist þá hata aðdáendur þáttanna. Þrátt fyrir það fékk myndin mikið lof og hefur elst feikilega vel tæknilega, skreytt miklu sjónarspili og inniheldur eitt besta bardagaatriði þáttanna. Í stuttu máli er hægt að lýsa The End of Evangelion sem öðruvísi, en epískri heimsendismynd sem bindur sérkennilegan lokahnykk á sjónvarpsseríuna.
Síðan þá hefur serían verið sett í gang á ný í kvikmyndabálkinum Rebuild of Evangelion, sem endursegja sögu þáttanna frá byrjun með miklum breytingum á atvikum, sögufléttum og ný sögulok. Tónn nýju kvikmyndanna er örlítið jákvæðari og sýnir persónurnar í nýju ljósi sem hefur vakið jákvæð viðbrögð aðdáenda og gagnrýnenda. Rebuild of Evangelion, sem hófst árið 2007 endurspeglar líf Hideaki Annos í dag, því hann er nú laus við þunglyndið, á sér betra líf og virðist njóta þess að vinna að seríunni mun betur en áður. Tvær myndir úr Rebuild of Evangelion eru nú fáanlegar (ég nældi mér í þá seinni í Nexus á Blu-Ray) og tvær sem ljúka myndabálknum eru væntanlegar á næstu árum. Auk þess að betrumbæta flest varðandi efni sögunnar tekst myndunum líka að vera alveg stórglæsilegt augnkonfekt. Bardagarnir við Englana eru nú öðruvísi og magnaðir upp fyrir stóra skjáinn, í mörgum tilfellum eru jafnvel slökustu bardagar seríunnar gerðir að þeim merkilegustu, en lokabardagi fyrstu myndarinnar er gott dæmi um það. Allt við nýju kvikmyndaseríuna virðist vera á stærri skala en upphaflegu þættirnir og virka meira eins og raunverulegar kvikmyndir, með mikla rannsóknarvinnu og fínpússun á bak við tjöldin þar sem meira lífi hefur verið blásið í umheim persónanna.
Eitt við seríuna sem er talað ansi lítið um er tónlistin. Þættirnir innihalda mörg eftirminnileg stef og eitt virtasta anime-þáttaþema allra tíma: ‚Cruel Angel Thesis‘. Tónlistin í The End of Evangelion var drungalegri að mestu leyti en innihélt líka klassíska tónlist á borð við Bach fyrir frægu bardagasenuna. The End of Evangelion á líka hið stórfurðulega en skemmtilega frumsamda lagið ‚Komm, süßer Tod‘, sem hljómar eins og hamingjusöm ballaða, en textinn virkar til móts við gleðilega tón lagsins. Rebuild Of Evangelion skiptir út stefi þáttanna, Cruel Angel Thesis, út fyrir kyngimagnaða lagið ‚Beautiful World‘ sem var svo ‚remixað‘ fyrir seinni myndina (að mínu mati betri útgáfan).
Flestir ættu a.m.k. að kynna sér Neon Genesis Evangelion á einhvern máta hvort sem það er í gegnum þættina eða nýju myndirnar (ég mæli með því að horfa fyrst á þættina), því þessi magnaða sería er ekki vinsæl af ástæðulausu og tekst rækilega að sitja lengi í manni.