Spil

Birt þann 18. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

Spilarýni: Munchkin

eftir Kristinn Ólaf Smárason

Hefur þig einhvern tíman langað til þess að spila spil þar sem þú getur verið stökkbreyttur vampírukúreki sem kann Kung-Fu? Eða kannski göldróttur vélrænn geimálfur? Þá er Munchkin spil fyrir þig! Munchkin er kortaspil sem gerir létt grín að hlutverkaspilum, bíómyndum, bókum og almennri poppmenningu. Spilið hefur unnið sér til fjölda verðlauna og er gefið út af Steve Jackson Games, en það fyrirtæki er einmitt hvað frægast fyrir G.U.R.P.S. hlutverkaspilakerfið. Steve Jackson lýsir Munchkin sem hlutverkaspili án alls þess vesens sem fylgir því að spila hlutverkaspil, eins og að leika persónur eða eyða mörgum vikum eða mánuðum í eitt spil. Í Munchkin er húmorinn alltaf í fyrirrúmi, og eru öll kortin fallega (og hlægilega) myndskreytt af hinum margverðlaunaða teiknimyndasöguhöfundi og listamanni John Kovalic, sem er hvað þekktastur fyrir Dorkly Tower. Hvert spil tekur um 30-60 mínútur í spilun eftir fjölda leikmanna, en spilið er ætlað fyrir 3-6 leikmenn.

 

SPILUN

Einkunnarorð spilsins; „Drepið skrímslin, stelið fjársjóðnum, stingið félaga ykkar“ lýsa framgangi spilsins nokkuð vel. Spilunum er skipt í tvær tegundir; hurðir og fjársjóði. Í byrjun hverrar umferðar dregur leikmaður hurðarspil, en á bak við hverja hurð geta leynst hlutir sem breyta persónu leikmannsins, til að mynda ný hlutverk (t.d. galdramaður, kúreki, vampíruveiðari) eða nýr kynþáttur (t.d. dvergur, Indjáni, vélmenni). Sum hurðarspilin láta leikmenn meira að segja skipta um kyn, því að í Munchkin getur það skipt máli hvort þú ert kall eða kona. Hurðarspilin geta líka ollið leikmanninum skaða ef t.d. gildrur eða skrímsli eru dregin. Ef skrímsli er dregið getur leikmaðurinn reynt að drepa það, en ef hann er ekki nógu sterkur til þess þá getur hann fengið aðra leikmenn til þess að aðstoða sig gegn loforði um hlutdeild í fjársjóðinum sem skrímslið skilur eftir sig. Ef skrímslið er sigrað kemst leikmaðurinn upp um stig og dregur fjársjóðsspil, en í fjársjóðsspilastokknum geta leynst ýmis vopn og verjur sem gera leikmanninn öflugari. Markmið leiksins er að fyrsti leikmaðurinn sem nær upp um tíu stig vinnur spilið.

 

 

Það er þó hægara sagt en gert að vinna spilið, enda getur aðeins einn unnið spilið hverju sinni (í flestum tilvikum). Þegar einn leikmannanna er farinn að nálgast tíunda stigið er mjög algengt að allir hinir leikmennirnir hópi sig saman um að koma í veg fyrir að því takmarki verði náð. Það er oftar en ekki gert með því að leggja gildrur fyrir leikmanninn eða senda öflug skrímsli á hann sem hann hefur ekki möguleika á að sigrast á einn.

 

ÚTGÁFUR

Það hafa komið út tíu útgáfur af Munchkin spilinu og fyrir flestar þeirra eru til ótal aukapakkar. Hver og ein útgáfa er sjálfstætt spil, þannig að það er ekki nauðsynlegt að eiga upphaflega Munchkin spilið til að spila aðrar útgáfur af spilinu. Því er sniðugast fyrir þá sem hafa áhuga á að eignast Munchkin að kynna sér þær útgáfur sem til eru og velja sér síðan pakka sem spilar mest inn á þeirra áhugasvið. Þeir sem hafa mjög gaman af spilinu vilja þó eflaust eiga fleiri en eina útgáfu til þess að geta stokkað upp spilin og kryddað leikina sína aðeins, því það er hægt að taka allar útgáfurnar og blanda þeim saman sem bíður upp á óendanlega mikinn fjölbreytileika ef nokkrar útgáfur eru fyrir hendi.

Munchkin: Upphaflega útgáfa Munchkin spilsins kom út árið 2001. Munchkin gerir stólpagrín af hlutverkaspilum eins og Dungeons & Dragons. Langflestar viðbæturnar hafa verið gefnar út fyrir þessa útgáfu, en þær eru um 14 talsins. Þessi útgáfa myndi vel henta fólki sem hefur áður spilað hlutverkaspil eða hefur gaman af ævintýrasögum á borð við Hringadrottinssögu.

Star Munchkin: Þessi útgáfa kom út árið 2002 og er hægt að tengja flestar af hinum fjölmörgu fyndnu tilvitnunum á spilunum við Star Wars og Star Trek, en þó líka við mörg önnur vísindaskáldskapsverk. Star Munchkin var fyrsta spilið sem bauð upp á hjálparhellur (sidekicks) fyrir leikmenninna. Hjálparhellur eru ýmsum hæfileikum gæddar en þó er stærsta hlutverk þeirra að deyja í staðinn fyrir leikmanninn (Red Shirts!).

Munchkin Fu: Eins og nafn þessarar útgáfu gefur til kynna sækir Munchkin Fu sitt þema til ýmissa gamalla bardagalistamynda í anda Bruce Lee og Chow Yun Fat. Í þessari útgáfu, sem kom út árið 2003, gefst leikmönnum kostur á að spila sem samúræjar, ninjur og munkar svo eitthvað sé nefnt, og í staðinn fyrir vopn og brynjur læra leikmenn frekar nýjar bardagalistir, sem hafa oftar en ekki kostulega fyndin nöfn.

Munchkin Bites: Munchkin Bites kom út árið 2004 og sækir sinn innblástur í hryllingsmyndir og hlutverkaspil með hryllingsþema, líkt og World of Darkness. Leikmenn í Munchkin Bites geta gerst varúlfar, vampírur, hamskiptingar og ýmsar aðrar forynjur. En þó leikmennirnir séu sjálfir skrímsli er nóg af öðrum skrímslum í hurðastokknum fyrir þá að berjast við.

 

 

Super Munchkin: Hefur þú gaman af ofurhetjum og teiknimyndasögublöðum? Þá er þessi útgáfa fyrir þig. Super Munchkin kom út árið 2005 og í þetta sinn eru leikmenn ofurhetjur (eða ofurbófar) sem hafa aðgang að fjölmörgum hlægilegum ofurkröftum og tólum. Þó svo hægt sé að blanda þessari útgáfu saman við aðrar þá mælir höfundur ekki með því, nema fólk sé tilbúið í að lenda í mjög ójöfnum aðstæðum, enda verða leikmenn sem spila þessa útgáfu oftast mikið öflugari en gerist í öðrum útgáfum.

Munchkin Impossible: Í þessari útgáfu sem kom út árið 2006 gerast leikmenn ofurspæjarar í anda James Bond. Spurningin er bara fyrir hverja viltu vinna, því spilið bíður upp á störf hjá kínversku, rússnesku og bandarísku leyniþjónustunni svo eitthvað sé nefnt. Það þarf varla að minnast á það að leikmenn hafa einnig aðgang að mörgum frábærum njósnagræjum í anda Q úr James Bond myndunum.

Munchkin Cthulhu: Cthulhu útgáfan kom út árið 2007 og sækir sitt þema til Cthulhu Mythos heimsins sem hryllingshöfundurinn H.P. Lovecraft skrifaði um. Ef þú hefur lesið einhverjar bækur eftir Lovecraft eða spilað borðspil eða tölvuleiki tengdan inn í Cthulhu Mythos heiminn ætti þetta spil að eiga vel við þig, þar sem Steve Jackson og John Kovalic tekst vel til við að gera grín af hinum annars hryllilega heimi Cthulhu.

The Good, The Bad, And The Munchkin: Í þessari útgáfu sem kom út árið 2008 eru leikmenn staddir í Villta Vestrinu eins og við erum vön að sjá í spagettívestrum með Clint Eastwood. Leikmenn geta vopnað sig með allskyns byssum, bogum og öxum, svo eitthvað sé nefnt, á meðan þeir bregða sér í hlutverk kúreka, Indjána og útlaga. Ef þú hefur gaman af gömlum vestrum eða lékst þér í kúreka og indjánaleik á yngri árum þá er þetta útgáfan fyrir þig!

Munchkin Booty: Munchkin Booty kom út 2009 og er vel í takt við sjóræningjaæðið sem hefur verið í gangi seinustu ár, og tekur til að mynda Pirates of the Caribbean myndirnar sér til fyrirmyndar. Munchkin Booty tekur leikmenn á haf út til að gerast sjóræningjar, kaupmenn eða flotaforingjar, þar sem þeir geta rænt hvorn annan eins og það var gert í gamla daga. Ef þú átt vin frá Sómalíu, reddaðu þér þá þessari útgáfu og bjóddu honum í spil.

Munchkin Booty tekur leikmenn á haf út til að gerast sjóræningjar, kaupmenn eða flotaforingjar, þar sem þeir geta rænt hvorn annan eins og það var gert í gamla daga. Ef þú átt vin frá Sómalíu, reddaðu þér þá þessari útgáfu og bjóddu honum í spil.

Munchkin Zombies: Þetta er nýjasta Munchkin útgáfan en hún kom út á seinasta ári. Í þessu Munchkin spili eru leikmennirnir uppvakningar, en skrímslin í spilinu eru mannfólk sem eru að reyna að bæla niður uppvakningafaraldurinn. Líkt og í Super Munchkin fá leikmenn frekar ýmsa krafta og eiginleika í staðinn fyrir vopn í þessari útgáfu, og því ætti að vera gaman að blanda þessum pakka saman við Super Munchkin.

 

NIÐURSTAÐA

Helsti kostur Munchkin er að allir geta haft gaman af því að spila það, meira að segja þeir sem spila ekki kortaspil að staðaldri. Reglurnar eru mjög auðmeltar og eina sem til þarf er lágmarks enskukunnátta til að geta lesið það sem stendur á spilunum. Annar kostur er fjölbreytileiki spilsins. Það er (næstum) hægt að blanda saman öllum útgáfunum af Munchkin saman til að fá mjög skemmtilegar útkomur. Uppáhalds blanda höfundar er Star Munchkin og The Good, The Bad And The Munchkin (Geimkúrekar!). Þessi eiginleiki Munchkin gerir það að verkum að endurspilanleiki spilsins er óendanlegur, enda er óhætt að segja að engin tvö spil eiga eftir að spilast út á sama hátt. Þriðji kosturinn, og eflaust sá mikilvægasti, er að Munchkin er rosalega skemmtilegt og fyndið spil! Höfundur hefur ekki enn lent í því spili sem hefur verið án bandalaga eða samsæra milli leikmanna ásamt hláturskrampa yfir því hvað spilasamsetningarnar geta oft orðið fyndnar. Því er Munchkin spil sem er óhætt að mæla með fyrir vana jafnt sem óvana borðspilaáhugamenn.

 

Myndir:
The World of Munchkin: Kill the Monsters, Steal the Treasure, Stab your Buddy,
www.worldofmunchkin.com.

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑