Bækur og blöð

Birt þann 31. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Fimmta besta vísindaskáldsaga allra tíma!

Jóhann Þórsson fjallar um FIMM BESTU VÍSINDASKÁLDSÖGUR ALLRA TÍMA.

Bókin Dune kom út árið 1965 og vann bæði Hugo og Nebula verðlaunin það árið. Reyndar var þetta í fyrsta skipti sem Nebula verðlaunin voru gefin út, en þau hafa reynst ágætis mælikvarði á gæði vísindaskáldsagna. Atburðirnir í Dune eiga sér stað á eyðimerkurplánetunni Arrakis sem er þakin því sem kallast melange. Melange er kallað krydd í bókinni („spice“) en er í raun hálfgert eiturlyf og veitir þeim sem taka það inn lengra líf, meiri þrótt og bætta vitund. Í heiminum sem Dune gerist í telst melange dýrmætasta efni sem völ er á og því eru yfirráð yfir plánetunni Arrakis afar dýrmæt. Dune gerist 23.000 árum í framtíðinni og eitthvað „atvik“ var til þess að tölvubúnaður og gervigreind eru ekki leyfð lengur, heldur er hópur manna sem geta reiknað með ofurmannlegum hraða og enn aðrir sem eru sérhæfðir í að stýra geimflaugum, með aðstoð melange.

Dune gerist 23.000 árum í framtíðinni og eitthvað „atvik“ var til þess að tölvubúnaður og gervigreind eru ekki leyfð lengur, heldur er hópur manna sem geta reiknað með ofurmannlegum hraða og enn aðrir sem eru sérhæfðir í að stýra geimflaugum, með aðstoð melange.

Bókin fjallar mestmegnis um Paul Atreides og komu hans til Arrakis, og valdabaráttuna milli Atreides og Harkonnen ættarinnar. Harkonnen ættin hefur lengi haft yfirráð yfir plánetunni en keisari heimsveldisins lætur Atreides ættina fá Arrakis sem yfirskyn til að láta Harkonnen ráðast á þá, því hann getur ekki hætt á að ráðast á Atreides beint, en hann var farinn að hafa áhyggjur af styrk Atreides ættarinnar, sérstaklega hermönnum hennar. Keisarinn hefur sjálfur yfirráð yfir sérþjálfuðum her sem talinn er ósigrandi og kallast Sardaukar.

Sagan hefur smá fantasíukeim þegar það kemur að Paul, en hann á að vera „sá útvaldi“ auk þess sem að í eyðimörk Arrakis er að finna risastóra sandorma, sem teygja ansi vel á trúverðugleika vísindanna sem eiga að vera til staðar í vísindaskáldskap (ef við gefum okkur að það sé óraunhæft að risastórir ormar geti  lifað í sandi og ferðast í gegnum hann á miklum hraða, auk þess sem vatn virkar sem eitur á þá). Dune er þannig, næstum bæði fantasía og vísindaskáldsaga og er bara betri fyrir vikið, en það að fantasíu-element læðist inn dregur ekki úr stöðu sögunnar sem vísindaskáldskap því þarna er mikið um nýja tækni, ferðalög milli pláneta, og menning Arrakis gerð góð skil auk þess er valdabarrátta um yfirráð heimsveldis í bakgrunni. Semsagt, vísindaskáldskapur með smá fantasíukeim.

 

 

Það sem heillaði mig einna mest við lestur bókarinnar var menning innfæddra á Arrakis, hins dularfulla Fremen ættbálkar. Án þess að skemma mikið fyrir þeim sem eiga eftir að lesa Dune, þá fær lesandinn að kynnast menningu þeirra ansi náið. Fjallað er um hvernig Fremen komast af í eyðimerkur umhverfi Arrakis, bæði tæknilega og menningarlega, auk þess hvernig samskipti Paul eru við þá og sandormana. Bókin er á köflum virkilega spennandi, og í því samhengi (og til að tæla lesendur til bókakaupa) ætla ég að minnast sérstaklega á að í Dune er mikið um flotta hnífa og hnífabardaga. Hvað er svalara en það?

Þá má einnig líta á Dune sem dýpra verk í bókmenntalegum skilningi, en í henni er umhverfismál, ósamræmi menningarheima og lítillega dulin ádeila á olíuiðnaðinn (sem á reyndar meira og meira við) sterk þemu undir yfirborðinu. Dune er bók sem eldist mjög vel, auk þess sem heimurinn sem Frank Herbert hefur búið til er svo ítarlegur að maður gleymir sér við lesturinn.

Dune hefur gefið af sér margar, misgóðar, framhaldsbækur, bíómynd í leikstjórn David Lynch,  sjónvarpsþætti, auk þess sem merkilega góðir tölvuleikir hafa verið framleiddir. Bókin Dune er áhugaverð, spennandi og vel skrifuð. Í henni er skemmtileg pólítík, framandi og nýstárlegir menningarheimar og, síðast en ekki síst, heilmikið að gerast. Þetta er ekki bara bók, heldur er þarna að finna heilan, vel mótaðann og trúverðugan heim sem hægt er að sökkva sér í. Það er ekki að finna við lesturinn að bókin sé skrifuð fyrir rúmum 45 árum. Hiklaust bók sem allir sem hafa einhvern áhuga á vísindaskáldskap ættu að lesa.

Að mínu mati er Dune fimmta besta vísindaskáldsagan sem skrifuð hefur verið.

Jóhann Þórsson


Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑