Birt þann 30. október, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Kvikmyndarýni: The Tall Man (2012)
Fyrir stuttu skrifaði ég um kvikmynd Pascal Laugier, Martyrs (2008), og því er e.t.v. frekar snemmt að gagnrýna aðra mynd eftir sama leikstjóra. Ég get hins vegar ekki hamið mig og verð einfaldlega að hnipra niður nokkur orð um nýjustu mynd hans, The Tall Man, sem kom út í september. Hún er reyndar einnig þekkt sem The Secret í Frakklandi, ekki að það sé betri titill. En þegar ég heyrði fyrst að Laugier ætlaði að taka upp enskumælandi kvikmynd í Kanada með Jessica Biel í aðalhlutverki þá var ég vægast sagt skeptískur. Það gerist hreinlega allt of oft að frábærir leikstjórar yfirgefa heimaslóðir sínar, snúa sér að hefðbundnari kvikmyndagerð og missa þannig persónuleg einkenni sín í verkum þeirra.
Í hreinskilni sagt var ég mjög hræddur um að einmitt það hefði gerst þegar ég var byrjaður að horfa á myndina. Ég tók strax eftir því að mér fannst útlit og söguþráður myndarinnar minna ósköp á ófrumlegar Hollywood hrollvekjur. En um leið og ég sá t.d. opnunartitlana koma fyrir, þegar nokkuð er liðið á myndina, gerði ég mér grein fyrir að hér væri Laugier enn á ferð og hann ætlaði sér enga meðalmennsku. Enginn getur litið fram hjá líkindum skotanna í þessum opnunartitlum við byrjunina á einni af mínum uppáhalds kvikmyndum, The Shining (1980) eftir Stanley Kubrick.
Myndin heldur svo áfram og virkar reyndar klisjukennd um nokkurt skeið, enda er söguþráðurinn ekki ýkja frumlegur. The Tall Man fjallar um hvarf barna í sífellu úr smábænum Cold Rock, en þar er hvorki vinnu né mikið líf að finna. Þegar nýfætt barn kemur í heiminn er það lítið gleðiefni og því er haldið leyndu. Bæjarbúar telja að hávaxinn og dökkklæddur maður steli af þeim börnunum og aðalpersónan, hjúkrunarkonan Julia (leikin af Jessica Biel) lendir einmitt í slíku. Málið vandast svo talsvert þegar hún hyggst leita uppi sökudólginn og einmitt þá byrjar myndin hægt og rólega að breytast yfir í þann stíl sem Laugier er orðinn þekktur fyrir. Margar klisjur eru í boði í myndum með hverfandi börnum og forvitnum foreldrum og því varð ég nokkuð ringlaður þegar ég ímyndaði mér alla möguleikana þegar á myndinni stóð. Ég ætla hins vegar ekki að gefa upp þá leið sem þessi mynd kýs að fara, en segi þó að hún gerir myndina algjörlega þess virði að horfa á.
Hugsanlega heldur það myndinni frá glötun að vera ekki gerð í Bandaríkjunum heldur í Kanada og með kanadískum leikurum, að undanskildri fröken Biel. Jodelle Ferland, stelpan sem hræddi okkur í Silent Hill (2006), fær líka hlutverk sem hún smellpassar í. En hún leikur Jenny, sem fer stöku sinnum í hlutverk sögumanns myndarinnar og er einnig skrítin og þögul stelpa sem reynir sitt til að hjálpa söguhetjunni, Juliu, í leit sinni að réttlæti. Persónusköpun tekst vel að mestu en reiðir óþarflega mikið á týpur í aukahlutverkum. Jessica Biel stendur sig mjög vel í hlutverki sínu og þó auðvelt sé að gagnrýna Hollywoodstjörnu fyrir að standa óþarflega mikið út þá er greinilegt að andlit hennar var gert ögn gráleitara til þess laga hana að umhverfinu. Útlit myndarinnar er að mestu leyti vel útfært og náttúrufegurð Kanada fær að njóta sín í nokkrum skotum. Hins vegar eru sum atriði frekar gervileg, eins og algengt er nú þegar tölvutækni er notuð til að auðvelda og spara pening, þveröfugt við fyrri tíma kvikmyndagerðar. En hryllingsmyndanördum til mikillar gleði eru sár og blóð sem betur fer ekki gervileg og Jessica Biel kemst meira að segja nokkuð nálægt því að minna á hið afskræmda útlit sem birtist svo oft í Martyrs. The Tall Man er þó ekkert lík þeirri fyrrnefndu, nema þá helst að þær skiptast báðar í tvo hluta að vissu leyti og að þær breytast úr hefbundinni hryllingsmynd yfir í eitthvað annað og meira. Hún er kannski meiri spennutryllir en hrollvekja og því nær hún ekki að hrífa mig að fullu. Hún er engan veginn jafn sjokkerandi og nokkuð einfaldari en Martyrs, en fær þó áhorfandann til þess að hugsa (þó það sé ekki nema rétt á lokasprettinum).
Sem meginstraumshryllingsmynd með Hollywoodstjörnu er The Tall Man vel heppnuð mynd, en sem frönsk hryllingsmynd eftir sjálfan Pascal Laugier stenst hún ekki væntingar.
Handrit myndarinnar ber einkenni þeirra gildra sem auðvelt er að detta í þegar kvikmyndagerðarmenn snúa sér að meginstraumshryllingi. Það er nokkuð gloppótt og notast oft við hefðir og vísanir í stað nýrra aðferða. Sem betur fer sekkur myndin ekki í klisjusjó eins og algengt er vestanhafs og nær að snúa sér að athyglisverðum pælingum undir lok myndarinnar. Boðskapurinn, þó áhugaverður sé, birtist með heldur beinskeyttum hætti og þar er munurinn á evrópskri og amerískri kvikmyndagerð undirstrikaður. Sem meginstraumshryllingsmynd með Hollywoodstjörnu er The Tall Man vel heppnuð mynd, en sem frönsk hryllingsmynd eftir sjálfan Pascal Laugier stenst hún ekki væntingar. Stærsti galli myndarinnar er kannski sá að maður kemst ekki hjá því að bera hana saman við síðustu mynd leikstjórans og það er ekki með öllu móti sanngjarnt, þar sem myndirnar sýna aðrar áherslur og ætla sér ólíka hluti. Það tvenna sem ég kann mest að meta í kvikmyndagerð, myndataka og tónlist, mætti vera meira áberandi í myndinni. Myndatakan fær jú að njóta sín í fáein skipti en hefur möguleika á að bæta myndina verulega en nýtir þá ekki.
Tónlistin er að mestu hefðbundin og stendur sig ekki nógu vel í hlutverki sínu til að vekja upp hroll og sterkar tilfinningar. Hún skilar þó alveg sínu og fylgir stemningu myndarinnar ágætlega. Meðalmennska myndarinnar hefur verið gagnrýnd nokkuð eftir að hún var frumsýnd á bandarísku kvikmyndahátíðinni South by Southwest í mars síðastliðnum. Þó finnst mér myndin eiga skilið lof fyrir að þora að fara á slóðir meginstraums og reyna að brjóta upp ríkjandi hefðir. Það gerir hún hins vegar alls ekki nógu mikið og eiginlega of seint. Því hefði uppbyggingin mátt vera töluvert einbeittari. Laugier hefur sýnt fram á hæfileika sem virðast ekki fá að njóta sín til fulls í þessari mynd og þó hún sé nokkuð vel heppnuð á hann meira inni og ég vona að það komi fram í næstu mynd hans.
Helstu kostir myndarinnar eru þeir að þó að hún virðist oft ætla að detta í klisjur og meðalmennsku þá rífur Laugier áhorfandann reglulega upp og minnir hann á að allt geti gerst. Hann sýnir að hann geti auðveldlega leikstýrt frægri leikkonu og Jessica Biel stendur sig betur en nokkru sinni fyrr. Jodelle Ferland er líka sannfærandi í týpuhlutverki sínu sem skrítna og skuggalega stelpan og Stephen McHattie klikkar ekki sem lögguharðjaxlinn. Landslagið sem birtist í myndinni er gríðarlega fallegt, þ.e.a.s. þegar farið er út fyrir bæjarmörkin, og það hefði mátt nýta betur. Myndin er nefnilega svakalega flott þegar hún leyfir sér það og myndatakan kemur stundum á óvart. Þó að handritið sé alls ekki fullkomið þá eru ákveðin atriði sem færa það ofar meðalmennsku og bæta myndina töluvert.
Á heildina litið virkar myndin í fyrstu nokkuð hefðbundin og ómerkileg, en þegar betur er að gáð koma gæði hennar í ljós og í lokin er hún algjörlega þess virði að sjá. Hún mun alltaf standa í skugganum af Martyrs og því ekki fá þá athygli sem hún á skilið, en það hvetur vonandi Pascal Laugier til að sanna sig enn frekar í hrollvekjugerð.
Höfundur er Andri Þór Jóhannsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.