Bíó og TV

Birt þann 14. júlí, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Martyrs (2008)

Sumar kvikmyndir hafa þau áhrif á okkur að þær breyta sýn okkar á þeim möguleikum sem vissar kvikmyndagreinar hafa upp á að bjóða. Eftir að hafa horft á endalausar klisjur í hryllingsmyndum getur verið hressandi að sjá myndir sem reyna að fara ótroðnar slóðir og vinna með formið á nýja vegu. Þó að ég hafi gaman af myndum sem spila eftir reglum ákveðinnar kvikmyndagreinar þá eru bestu myndirnar yfirleitt þær sem láta hefðir ekki hamla sér frá því að skapa einstaka upplifun. Kvikmyndin fær þá að njóta sín frekar sem listaverk heldur en afþreying.

Ég kann að meta góðar hryllingsmyndir, jafnvel slæmar ef þær hafa áhugaverða eiginleika. Síðustu ár hafa Japanir, Suður-Kóreumenn og Frakkar farið fram úr öðrum þjóðum í hryllingsmyndagerð. Þeir síðastnefndu hafa sérstaklega náð athygli minni með myndum á borð við À l’interieur, Ils, Haute Tension og Frontier(s). Þó stendur ein öðrum fremri og er upplifun sem hinir viðkvæmu ættu að forðast. Þá er ég ekki að tala um svakaleg bregðuatriði eða yfirdrifið magn af blóði og innyflum. Ég er að tala um andlegt ferðalag sem áhorfandinn fer í með hjálp vandaðs handrits, kvikmyndatöku, klippingar, góðrar tónlistar og alls þess sem gerir kvikmyndir framúrskarandi. Myndin sem hér um ræðir ber nafnið Martyrs (2008) og er óneitanlega með betri hryllingsmyndum síðari ára.

Myndin byrjar á nokkuð hefðbundin hátt. Ung stelpa að nafni Lucie (Jessie Pham / Mylène Jampanoï) var lengi lokuð inni og pyntuð en sleppur úr prísundinni. Hún getur þó lítið tjáð sig um sökudólgana við lögreglu vegna myrkurs og andlegs skaða. Líf hennar á munaðarleysingjahæli er erfitt en þó eignast hún eina trausta vinkonu, Anna (Morjana Alaoui), sem hjálpar henni að lifa með fortíðinni. Lucie fær reglulega köst þar sem hún sér skuggalega veru með ör um allan líkamann sem reynir að meiða hana en Anna sér veruna hinsvegar aldrei með eigin augum og efast því um tilvist hennar. Þegar Lucie eldist fær hún löngun til þess að hefna sín og finnur, að hún heldur, heimili sökudólganna. Þangað ferðast vinkonurnar til að komast að hinu sanna og vonast til þess að geta bundið enda á þjáningar Lucie. Þar á bæ gerist hins vegar ýmislegt sem fer með söguna í aðra átt og í kjölfarið myndast ein af athyglisverðari framsögum í hryllingsmyndagerð síðari ára.

Pyntingar hafa mikið verið notaðar í kvikmyndum til þess að auka hryllinginn sem þar á að birtast en það er sjaldan sem þjáningin birtist á jafn sannfærandi hátt og í Martyrs. Myndin er ekki pyntingaklám í stíl við Hostel og Saw heldur fer hún aðra leið í slíkri myndbirtingu.

Pyntingar hafa mikið verið notaðar í kvikmyndum til þess að auka hryllinginn sem þar á að birtast en það er sjaldan sem þjáningin birtist á jafn sannfærandi hátt og í Martyrs. Myndin er ekki pyntingaklám í stíl við Hostel og Saw heldur fer hún aðra leið í slíkri myndbirtingu. Áhorfandinn upplifir þjáningu og sorg með ákveðnum tilgangi frekar en að horfa upp á pyntingar án markmiðs. Leikstjórinn, Pascal Laugier, notar hér þjáningu sem aðferð til vakningar og aukinnar meðvitundar. Hann kastar fram spurningunni um hvort að sársauki geti leitt fólk á æðra vitundarstig og ef myndin skilar sér rétt til áhorfanda tel ég að eins konar vitundarvakning geti átt sér stað. Að minnst kosti er hún það áhrifamikil að ég held að fáir verði algjörlega ósnortnir eftir áhorfið.

Í viðtali sagði Laugier að innblástur myndarinnar hafi að miklu leyti komið frá setningu eftir hrollvekjumeistarann H.P. Lovecraft þar sem hann segir að hrollvekja eigi að vera á móti heiminum, samfélaginu og siðmenningunni. Þessi sýn birtist nokkuð skýrt í Martyrs, enda er sagan sögð á eigin forsendum myndarinnar og setur sér engin takmörk. Lucie samsamar sig aldrei fyllilega með samfélaginu og þó að tengsl þeirra vinkvenna séu sterk fara þau aldrei lengra en hentar Lucie.

Gæði myndarinnar sjást á mörgum sviðum. Handritið er virkilega vandað og þó það mætti kafa enn dýpra í persónur sögunnar þá er persónusköpunin og þróunin sannfærandi. Myndbirtingin á geðsýki Lucie og þau djúpristu sár sem pyntingar í æsku hennar skildu eftir sig er mjög áhrifarík og fær reyndar innblástur úr japanskri hryllingsmyndahefð. Kvikmyndatakan er vel útfærð og nær hápunkti undir lok myndarinnar þar sem áhrif frá Stanley Kubrick skína í gegn. Tónlistin er einnig vel valin og er það frönsk hljómsveit að nafni Seppuku Paradigm sem sér um þá fögru og skuggalegu tóna sem einkenna dramatísku atriði myndarinnar. Þó að tónlistin magni upp tilfinningalega upplifun myndarinnar verða leikarar einnig að standa sig vel, sem þeir gera. Það er ekki sjálfgefið að maður upplifi þjáningar manneskju sem maður sér á skjánum eins og þær væru manns eigins og því tel ég að aðalpersónurnar fái að njóta sín í meðhöndlun leikara.

Þó að sumum kunni að þykja skrítið að myndin breyti um stefnu fyrir miðju þá tel ég það vera stóran kost. Hún byrjar sem frekar hefðbundin, en þó vel heppnuð hryllingsmynd og gæti þess vegna endað fyrir miðju. Laugier fer þó aðra leið og skyggnist dýpra inn í óvissuna. Þá öðlast myndin eigin rödd og rannsakar ótroðnar slóðir í vitund mannverunnar og möguleika þess sem óvitað er. Tengsl hennar við hrylling bylta svo hefðum greinarinnar hingað til og opna hana fyrir frekari rannsóknum framtíðarinnar.

Í Martyrs virðist markmið franskrar hryllingsmyndagerðar kristallast. Hún boðar framþróun og dýpri rannsóknir í kvikmyndaformi og stendur eftir sem ein af mikilvægustu hryllingsmyndum okkar tíma. Því hvet ég þá sem telja sig vera hryllingsmyndanörda og alla þá sem hafa ánægju af vönduðum kvikmyndum í grófari kantinum til að gefa þessari séns. Hún getur verið erfið áhorfs fyrir hina viðkvæmu en skilar mun dýpri upplifun en gæsahúð, hrolli eða ógleði. Nú er einnig tilvalið að horfa á hana áður en bandaríski markaðurinn gleypir hana í sig, en framleiðendur Twilight myndarinnar ætla sér víst að endurgera hana. Guð hjálpi okkur.

Í stað þess að spilla of miklu með trailer mæli ég frekar með því að hlusta á tónlistina úr myndinni:

Andri Þór Jóhannsson

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑