Greinar

Birt þann 17. júlí, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

Spurt og spilað: Blaz Roca

Í liðnum Spurt og spilað forvitnast Nörd Norðursins um tölvuleikjaspilun þjóðþekktra einstaklinga með stuttum spurningum. Okkar fjórði viðmælandi er Erpur Eyvindarson, einnig þekktur sem Blaz Roca.

Erpur (Blaz Roca) er tónlistar-, útvarps- og sjónvarpsmaður og jafnframt er hann talsmaður og umboðsaðili Johnny NAZ sem er væntanlegur á Skjá Einn í lok september, þar sem hann leysir úr öllum vandamálum íslensku þjóðarinnar frá upphafi landnáms.

Blaz Roca hefur gefið frá sér fjölmarga slagar, þar á meðal „Stórasta land í heimi“ og „Stikluvík“. Erpur er einnig liðsmaður rappsveitarinnar XXX Rottweiler hundar sem hafa meðal annars gefið frá sér breiðskífurnar Þú skuldar og XXX Rottweiler hundar, en sú síðari er gjarnan talin ein af merkari skífum íslenskrar tónlistarsögu.

 

Hverskonar tölvuleiki spilaru helst?

- Ég er ekki nörd, svo ég hangi ekki inni í góðu veðri og spila Angry Birds og Black Ops. Hinsvegar þegar fer að skyggja og kólna spila ég massíft ákveðna leiki sem innibera hluti sem ég geri ekki í mínu daglega lífi. Fatta ekki þegar fólk spilar leiki þar sem það er að gera sömu hlutina og það ætti að vera að gera í alvörunni bara í sínu daglega lífi. Eins og að spila frísbí og reka fótboltalið. Ég vil spila tölvuleiki þar sem ég er glæpamaður af erlendu bergi brotinn, frá rómönsku ameríku, blökkumaður, Suður-Evrópubúi, Austur-Evrópubúi og formið er iðulega þriðju persónu leikir í þessu klassíska GTA sjónarhorni.


 

Uppáhalds tölvuleikur?

- Þeir eru nokkrir, GTA serían eins og hún leggur sig, Guðfaðirinn, Saints Row serían, Red Dead Redemption og Scarface. Er líka að skoða nýjasta Max Payne. Spurningaleikurinn Buzz er alltaf hressandi þegar maður er með fjölmenni. Það er örugglega einn af mínum uppáhalds leikjum og heilbrigður þar að auki.


 

Fyrsta leikjatölvan?

- Fyrsta leikjatölvan voru litlu lófatölvurnar þarna, King Kong og Mario og Luigi bræðurnir. Maður eignaðist líka Sinclair Spectrum en spilaði líka í borðtölvum eins og Amstrad og Apple II e á sínum tíma. Þar bar hæst Batman, Conan, Goonies, Wings of Fury og íslenski hjálparsveitarleikurinn Þyrlubjörgun. Allt á glæsilegum grænum skjá.

 

Uppáhalds leikjatölvan?

- Ég spila bara PlayStation 2 og PlayStation 3 leiki. Hef ekki tíma í hitt. enda er PlayStation að mínu viti fullkomnasta leikjatölvan í dag.
BÞJ
Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑