Leikjarýni

Birt þann 2. júlí, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Starhawk

Starhawk er þriðju-persónu skotleikur sem var framleiddur af LightBox Interactive í samvinnu við SCE Santa Monica Studio og gefinn út af Sony Computer Entertainment. Það hafa áður verið gefnir út leikir undir svipuðu nafni, Warhawk, en þrátt fyrir það tengjast þeir ekkert sögulega séð. Leikurinn er áframhaldandi þróun á leiknum sem kom út árið 2007 og var eingöngu fjölspilunarleikur.

Leiknum er skipt í tvennt, hins vegar einspilun og svo fjölspilun í gegnum netið. Með leiknum fylgir netpassi og Warhawk frá 1995, sem er flugskotleikur og var meðal fyrstu leikjanna fyrir upprunalegu PlayStation tölvuna, en þá þarf að nálgast í gegnum netið. Leikurinn tekur nálægt 3 GB á harða disknum, og það tók mig um það bil klukkutíma að ná í allt sem þurfti og setja upp.

 

Um leikinn

Í einspilunarhluta leiksins ertu Emmett Graves sem sérhæfir sig í að endurheimta tapaðar orkueignir. Í fjarlægðri framtíð hefur mannkynið numið land á öðrum plánetum útum alla vetrarbraut. Á einni plánetunni finnst ný orkulind og hefst því ný „gullöld“. Það er þó einn galli við þessa orku, hún er stórhættuleg mönnum, ef ekki er varlega farið geta menn breyst í hálfgerð skrímsli sem eru háð þessari orku og gera hvað sem er til að eigna sér hana og varðveita. Emmett er litinn hornauga hvert sem hann fer því hann er smitaður af orkunni en með hjálp vinar síns Sydney Cutter hefur hann getað haldið í mannlega hluta sinn. Á einni plánetu þarf lögreglustjóri lítils þorps á hjálp vinanna tveggja að halda, þessar óvættir eru byrjaðar að ráðast á orkuvirkjun þeirra. Emmett tekur verkefninu, þó að hann vilji helst gleyma þessum stað, en honum til mikillar óánægju vindur verkefnið uppá sig.

Söguheimurinn er forvitnilegur, gerist í framtíðinni þar sem tæknin er mikil en samt lítur þorpið og fólkið út líkt og það komi beint úr gömlum vestra. Söguþráður leiksins er drifinn áfram með stílfærðum teiknimyndastíl sem virkar ágætlega, hefði verið allt í lagi að notast bara við leikjagrafíkina sjálfa. Sagan er ekki uppá marga fiska né eru persónurnar áhugaverðar, það sem bjargar leiknum er fjölbreytileiki.

Emmett getur safnað orkunni í tæki sem hefur verið grætt í hann, en það er aldrei farið neitt nánar útí hvernig það virkar eða hvað það gerir nákvæmlega, og notar þá orku til þess að kalla til sín til dæmis byggingar, farartæki, mannsafla og vopn. Cutter er um borð í skipi á sporbaug um plánetuna og skýtur niður því sem Emmett biður um og þá er best að vera ekki nálægt staðnum til að kremjast ekki. Þetta er það sem gerir leikinn frábrugðinn öðrum skotleikjum, maður getur byggt upp vopn og varnarveggi sér til varnar. Þetta er næst því sem ég kemst í að spila rauntíma herkænskuleiki á borð við Red Alert og Starcraft.

Leikurinn gerist ekki eingöngu á jörðu niðri heldur einnig í geimnum. Í geimnum er hægt að fljúga þotum sem geta umbreyst í gangandi vélmenni þegar niður á jörðu er komið.

Leikurinn gerist ekki eingöngu á jörðu niðri heldur einnig í geimnum. Í geimnum er hægt að fljúga þotum sem geta umbreyst í gangandi vélmenni þegar niður á jörðu er komið. Vopn fyrir þoturnar er að finna á víð og dreif og er einfaldlega flogið á merkin til þess að vopnast. Geimhlutinn er ekki flókinn, það er ekki farið eins djúpt og til dæmis í FreeSpace leikjunum. Verst þótti mér að engin fræðsla er um skotvopnin eða farartækin hvorki í né utan leiksins. Maður veit lítið um heiminn þó maður fari um víðan völl, vissulega er heimurinn fallegur á sinn hátt en samt er spilunin frekar innantóm. Manni er sama um persónurnar því þær hafa litla sem enga persónusköpun, fannst þó skemmtilegast að heyra frá honum Cutter en hann er bara í talstöðvarsambandi allan tímann. Einspilunarhlutinn tekur um það bil sex tíma, þetta er mjög stuttur leikur og ekki erfiður ef maður heldur rétt á spilunum varðandi byggingarkerfið.

Það veltur mjög mikið á því hversu gaman maður hefur af því að spila með mörgum á netinu hvort það sé þessi virði að kaupa þennan leik. Einspilunarhlutinn býr mann undir fjölspilunina, kennir manni undirstöðuna áður en maður sekkur sér í hasarinn. Ég vil þó nefna það að fjölspilunin er mun erfiðari því svæðið er mun opnara og manni er ekki sagt hvað á að gera. Í fjölspilun geta allt að 32 manns tekið þátt og er hægt að velja á milli fjögurra valmöguleika á spilun: fangaðu fánann, sölsaðu undir þig svæði, allir á móti öllum og lið á móti liði. Eflaust eiga fleiri möguleikar eftir að koma í ljós. Einnig er hægt að spila með félaga/félögum í sérleik þar sem menn berjast við sí erfiðari óvini þegar líður á leikinn.

Það eru ótal möguleikar á því hvernig umhverfi skuli berjast í og hvaða búnað megi kalla niður. Menn geta unnið saman við að byggja virki eða farið og fundið óvini. Enginn einn leikur er eins en ávallt er mikið að gerast og mér hefur oft liðið eins og það væri gamlárskvöld, slík eru lætin í leiknum. Satt að segja hefur mér fundist skemmtilegast að spila lið á móti liði, maður er ekki eins háður öðrum en allir eru þó að vinna að sama markmiði. Þegar vel gengur byrjar hetjuleg tónlist að óma og á lykilpunktum þegar stutt er í að markmiðið náist eða við lok lotunnar. Það er hægt að stofna hóp (clan) og spila á móti öðrum hópum. Það verða síðan mót haldin fyrir þessa hópa og að minnsta kosti eitt slíkt mót hefur þegar verið haldið.

Eftir því sem leikurinn er spilaður eða ákveðið verkefni tekst áskotnast manni stig sem safnast saman og notuð eru til að kaupa séreiginleika sem geta hjálpað í fjölspiluninni. Einnig aflæsast mismunandi uppsetningar á persónunni sem maður stjórnar í fjölspiluninni þegar maður safnar sér inni stigum og reynslu.

 

Tónlist og hönnun

Starhawk er vissulega flottur leikur og allt mjög sannfærandi, hvort sem maður er í geimnum eða á jörðu niðri. Talsetningin er til fyrirmyndar, þó svo að sumar persónurnar séu eilítið klisjukenndar. Öll hljóð komast vel til skila og er sérstaklega skemmtilegt að leggja við hlustir í fjölspilunarhlutanum. Það er aftur á móti tónlistin í leiknum sem mér finnst standa uppúr því hún er mjög nútíma-og framtíðarleg með smá brag af villta vestrinu. Tónlistin er samin af Christopher Lennertz sem semur tónlist bæði fyrir kvikmyndir og tölvuleiki. Það er hægt að kaupa tónlistina á geisladisk frá La-La Land Records og er þetta takmörkuð útgáfa uppá 3.000 stykki.

 

Samantekt

Starhawk er ágætur í einspilun en frábær í fjölspilun. Hins vegar tekur tíma að læra á fjölspilunina þar sem aðrar áherslur eru til staðar og spilunin mun óútreiknanlegri. Mér finnst upplýsingar um hin ýmsu tæki og tól í leiknum ábótavant. Eflaust fylgir bæklingur með leiknum með þeim upplýsingum, en ég veit það hins vegar ekki þar sem ég er með prufuútgáfu sem ég fékk til þess að gagnrýna. Jafnvel er ég ekki einu sinni viss hvernig maður vinnur svæði þegar maður á að sölsa undir sig svæði í einum spilunarmöguleikanum í fjölspiluninni. Hvort sem þú ert einn eða átt vini sem eiga leikinn líka, átt þú eftir að skemmta þér ágætlega.

 

SAGA
GRAFÍK
HLJÓÐ
SPILUN
FJÖLSPILUN
ENDING
5,5
9,0
9,0
7,5
9,0
8,0

SAMTALS

8,0

Jósef Karl Gunnarsson

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑