Fréttir

Birt þann 17. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

E3 2011: Nintendo

Hin árlega tölvuleikja- og leikjatölvusýning E3 (Electronic Entertainment Expo) var 7. – 9. júní síðastliðinn. Sýningin er ein sú stærsta sinnar tegundar og úr mörgu að velja. Hér höfum við tekið saman það helsta sem kom úr kynningunum frá leikjatölvu- og tölvuleikjarisunum þrem; Microsoft, Nintendo og Sony.

 

NINTENDO

Ein stærsta tilkynningin á E3 sýningunni kom á Nintendo kynningunni þegar þeir sögðu frá nýrri leikjatölvu sem er væntanleg árið 2012. Í kynningunni var auk þess fjallað um Nintendo 3DS og 25 ára afmæli Zelda seríunnar. Nintendo lagði mikla áherslu á að þeir vildu ná til sem allra breiðasta hóp tölvuleikjaspilara og mögulegt er og um leið dýpka spilun tölvuleikja.

 

ZELDA

Kynningin hjá Nintendo byrjaði á skemmtilegum tónum þar sem sinfóníuhljómsveit spilaði þekkt lög úr Zelda leikjunum, en það eru liðin 25 ár síðan að fyrsti Zelda leikurinn, The Legend of Zelda, kom út í gömlu góðu Nintendo Entertainment System (NES), 1986. Í tilefni þess ræddi Nintendo um þróun Zelda leikjanna og kynnti nýjan Zelda leik og endurbættar útgáfur af eldri Zelda leikjum til sögunnar; Link’s Awakening og Ocarina of Time 3D á Nintendo 3DS, Four Swords sem verður hægt að nálgast ókeypis í gegnum netþjónustu DsiWare og að lokum Skyward Sword á Wii.
Auk leikjanna mun Nintendo gefa út sérstaka gulllitaða Zelda útgáfu af Wii fjarstýringunni og sérstakir Zelda sinfóníutónleikar verða haldnir í Japan, Norður-Ameríku og Evópu til heiðurs seríunnar, og verða tónleikarnir gefnir út á geisladisk.

 

Leikjahönnuðurinn Shigeru Miyamoto (t.h.) HJÁ NINTENDO Skemmtir sér vel
á meðan sinfónía spilar lög úr Zelda á e3 í tilefni 25 ára afmælis leikjaseríunnar.

 

NINTENDO 3DS

Nintendo 3DS er handheld leikjatölva sem birtir tölvuleikina í 3D án sérstakra 3D-gleraugna. Það er fátt nýtt að frétta af Nintendo 3DS leikjavélinni sjálfri, en Nintendo tilkynnti að eftirfarandi titlar væru í vinnslu fyrir 3DS; Mario Kart, Super Mario 3D, Kid Icarus. Uprising, Luigi’s Mansion 2, Resident Evil: The Mercheneries 3D, Mario and Sonic at the London 2012 Olympic Games, Ace Combat 3D, Pac-Man & Galaga Dimensions, Tekken 3D og fleiri.

 

WII U

Á kynningunni kynnti Nintendo nýja leikjatölvu til sögunnar; Wii U. Nafnið kann að hljóma furðulega í fyrstu en hugsunin á bak við nafnið er Wii sem stendur fyrir „we“ (við) og U sem stendur fyrir „you“ (þig). Nafn nýju tölvunnar á að gefa til kynna að hún eigi að henta öllum spilurum, sama hvort um er að ræða fjölskyldufólk, harðkjarna spilara eða krakka. Markmið Nintendo er að dýpka tölvuleikjaupplifunina og um leið náð til breiðari hóps.
Það var nánast ekkert minnst á leikjatölvuna sjálfa, heldur fór nánast öll kynningin í að kynna nýju fjarstýringuna sem fylgir Wii U. Grafíkin sem Wii U skilar frá sér á að vera svipuð eða örlítið betri en í PS3 og Xbox 360, en fjarstýringin gerir spilarnum kleift að upplifa tölvuleikjaspilun á nýjan hátt.

Fjarstýringin er með snertiskjá sem hægt að er nota með ýmsum hætti, það er til dæmis hægt að spila tölvuleiki í snertiskjánum, birta auka upplýsingar um tölvuleikina, vafra um netið, hringja myndsímtöl, teikna myndir á snertiskjáinn og svo mætti lengi halda áfram.Wii U er væntanleg árið 2012.

– Bjarki Þór Jónsson

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑