Fréttir1

Birt þann 18. maí, 2012 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

0

Nomolos: Storming the Catsle – Nýr Nintendo NES leikur

Fyrir nokkrum dögum síðan kom út nýr leikur fyrir gömlu gráu Nintendo NES leikjatölvuna. Leikurinn heitir Nomolos: Storming the Catsle, en leikurinn var hannaður af Gradual Games og er gefinn út af Retrozone.

Söguhetja leiksins er kötturinn Solomon, sem lendir í þeim vandræðum að fjólublár flóðhestur úr annari vídd rænir vinkonu hans, henni Snow. Solomon veitir flóðhestinum eftirför yfir í hina víddina þar sem hann breytist í Nomolos, kattarstríðsmann með sverð og brynju. Leikurinn skiptist í 12 borð, inniheldur 5 mismunandi endakalla og fjöldan allan af aukakröftum og vopnum sem Nomolos getur safnað.

Tónlistin í leiknum er ekki af verri endanum, en fjölmörgum klassískum tónverkum frá barokktímabilinu hefur verið breytt í kubbatónlist fyrir leikinn, og má meðal annars finna lög eftir Johann Sebastian Bach og Domenico Scarlatti.

Leikurinn var framleiddur með nýjum íhlutum sem þýðir að engir gamlir NES leikir létu lífið til þess að Nomolos gæti litið dagsins ljós. Þó voru aðeins 100 eintök framleidd af leiknum og því er ekki ólíklegt að leikurinn seljist upp fljótlega í hendur safnara víðsvegar um heiminn. Fyrir þá sem hafa áhuga er hægt að nálgast eintak af leiknum HÉR á síðu Retrozone, en leikurinn kostar tæpar 4000 kr.

KÓS

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Comments are closed.

Efst upp ↑