Tækni

Birt þann 13. apríl, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

2

PlayStation Vita prófuð

Fyrr á þessu ári kom hin marg umrædda PlayStation Vita leikjavél út. Vita er þriðja handhelda leikjatölvan sem Sony gefur út. Eftir vel heppnaða frumraun (PSP) áttu þeir þó brattann að sækja því enginn vafi liggur á um að PSP Go frá árinu 2009, var í einu og öllu misheppnaðasta leikjavél Sony til þessa. Sony menn voru þó ekki tilbúnir að gefast upp og gerðu sitt besta til þess að vinna neytendur aftur á sitt band. Loks eftir þriggja ára framleiðslu leit PS Vita dagsins ljós, en hefur hún það sem til þarf til að koma Sony aftur á strik  markaði handheldra leikjatölva eða er hún einfaldlega næsta PSP Go?

 

Tölvubúnaðurinn

Þessi hluti fer í tæknilegri hluta vélarinnar og fyrir þá sem hafa ekki áhuga á slíku mæli ég með að farabeint í næsta hluta. ARM Cortex™-A9 core 4-kjarna örgjörvinn og SGX543MP4+ skjákortið, í sameiningu við 512mb RAM og 128mb VRAM gera það að verkum að Vita tölvan er öflugasta handhelda leikjatölvan sem hefur verið framleidd til þessa.

Til að gera gott betra hefur tölvan 5” OLED skjá með 960×544 pixla upplausn sem er til að mynda töluvert hærra en var að finna á PS2 leikjatölvunni, þar sem að nánast allir leikir buðu upp á 640×448 pixla upplausn. Auk þess er að finna finna tvær myndavélar á Vita vélinni, bæði að framan og að aftan, tvo snertifleti, þ.e. aðalskjá tölvunnar og bakflöt tölvunnar sem er í heild sinni snertiskjár, innbyggða hátalara, hljóðnema, netkort (fyrir þá sem kaupa dýrari útgáfuna fá þar að auki Wi-Fi).

Tölvan er með innbyggðann hreyfiskynjara sem gerir tölvunni kleift að greina hvernig hún snýr og hreyfist, tæknin á bakvið þetta er sú sama og má finna í fjarstýringum PlayStation 3. Rafhlöðuending tölvunnar er á bilinu 3-5 tímar með tölvuleik í gangi, en allt að 10 tímar þegar hlustað er á tónlist með læstann skjá.

 

Notendaviðmót

Ef við förum aftur að tala mannamál þá er nauðsynlegt að líta næst á notendaviðmótið. Tölvan hefur alla þá takka sem er að finna á venjulegri PS3 fjarstýringu, að frátöldum tveimur hliðartökkum (R2 og L2), þ.e.a.s. hún hefur fyrst allra handheldra leikjatölva 2 stýripinna, sem mörgum fannst vanta á PSP og PSP GO tölvunum. Þessa takka notar maður í flest öllum tölvuleikjum, en almennt er fremri snertiskjárinn notaður við aðra notkun. Auðvelt er að læra á viðmótið og er notkunin þægileg. Það minnir frekar á Wii viðmótið heldur en það sem er að finna í PS3 og PSP, en með tilkomu snertiskjásins skilur maður fullkomlega afhverju þessi breyting var gerð, enda væri heldur óþægilegra að vafra á gamla viðmótinu á snertiskjá.

 

Forrit og leikir

Vita býður upp á ágætis úrval tölvuleikja og hefur því verið fleygt fram að þetta sé eitt myndarlegasta „útgáfudags úrval“ sem nokkur leikjavél hefur skartað. Alla leiki og forrit er hægt að ná í rafrænt í gegnum vefverslun tölvunnar, gegn gjaldi að sjálfsögðu. Þar er að finna alla nýjustu PS Vita leikina jafnt og gamla PSP leiki, auk ýmissa forrita.

Alla leiki og forrit er hægt að ná í rafrænt í gegnum vefverslun tölvunnar, gegn gjaldi að sjálfsögðu. Þar er að finna alla nýjustu PS Vita leikina jafnt og gamla PSP leiki, auk ýmissa forrita.

Hinsvegar má sjá að listinn er enn sem stendur fremur stuttur og margir stærstu titlarnir sem nefndir hafa verið til útgáfu eiga enn eftir að líta dagsins ljós. Þangað til verða leikir á borð við Uncharted: Golden Abyss og Rayman Origins að nægja, sem er að mínu mati alls ekki slæmt. Það eru fáanlegir leikir fyrir alla aldurshópa,  allt frá Little Deviants til Unit 13 og allt þar á milli. Þegar allt kemur til alls ættu allir að geta fundið leik við sitt hæfi, og ef ekki, þá er alltaf hægt að finna einhverja gamla og góða leiki í rafrænu verslun tölvunnar.

 

Kostir og gallar

Líkt og ég minntist á fyrr í greininni býður tölvan vægast sagt upp á flott notendaviðmót, og ég efast ekki um að allir sem eignast vélina muni finna eitthvað við hana sem höfðar til sín. Hún spilar leiki alveg ótrúlega vel, í frábærri grafík og hljóðkerfið er í sama flokki. Myndavélarnar eru engar gamaldags símamyndavélar heldur vandaðar stafrænar myndavélar og snertifletirnir, fremri snertiskjárinn í það minnsta, virka mun betur en ég hafði leyft mér að vona. Snertiflöturinn á bakhlið tölvunnar er mér enn sem komið er stór ráðgáta, en ætli maður verði ekki að bíða og sjá hvort þeir geri ekki eitthvað spennandi með hann í framtíðinni.

Stýringar í leikjum eru mjög góðar, og að geta loksins spilað leiki á ferðinni með tveimur stýripinnum er gjörsamlega unaðslegt og lætur mann virkilega hlakka til leikja eins og Gravity Rush og endurútgáfu Final Fantasy X sem kemur út fyrir PS Vita og PS3 seinna á árinu. Ég gerði mitt besta til að finna galla við vélina, en í fyllstu hreinskilni reyndist mér það erfitt. Þegar ég fékk vélina fyrst í hendurnar voru væntingar mínar mjög lágar og ég hafði enga trú á þessu fyrirbæri, enda var ég aldrei hrifinn af PSP þótt hún hafi haft nokkra mjög fína leiki.

Einn stór galli heftir þó þessa vél líkt og flestar nýjar leikjatölvur, sem hefur eflaust farið fyrir brjóstið á mörgum, að mér meðtöldum. Það er að sjálfsögðu verðið. Ódýrari vélin er seld hérlendis á 49.995 kr. og sú dýrari á 69.995 kr. sem er meira en menn eru að borga fyrir PS3 nú til dags. Til að bæta gráu ofaná svart  fylgir hvorki minniskubbur né hulstur með tölvunni og er þá margan tölvuleikja unnandann farið að verkja í veskið. Þetta verð er þó alls ekki óskiljanlegt ef litið er til þess að vélin kostar 42.000 kr á bresku Amazon síðunni.

 

Að lokum

Eins og ég hef tekið fram, þá er vélin að mínu mati næsta skrefið á markaði handheldra leikjatölva.  Sony er enn og aftur að gera sitt besta til að auka samkeppni á tölvuleikjamarkaðnum, en Nintendo hafði allt til komu PSP, svo gott sem stjórnað markaði handheldra leikjatölva. Tölvan kom mér skemmtilega á óvart og get ég vottað fyrir það að hún stendur undir öllum loforðum sem gefin eru í auglýsingum og meira til.

PS Vita er virkilega vönduð vél og þrátt fyrir hátt verðlag er hún hverrar krónu virði.Þegar allt kemur til alls tel ég að Sony hafi með PS Vita lagt grunninn að því sem koma skal í framtíð handheldra leikjatölva og mér sýnist framtíðin vera björt.

Arnar Vilhjálmur Arnarsson

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



2 Responses to PlayStation Vita prófuð

Skildu eftir svar

Efst upp ↑