Það eru liðin rétt um tvö ár síðan ég skrifaði um síðasta Football Manager leikinn hérna á Nörd Norðursins. Þá hafði Football Manager 2024 nýlega komið út og var að mínu mati einn sá besti í seríunni hingað til.
Árið eftir það átti Football Manager 25 að koma út og verða ein stærsta breytingin á seríunni síðan að við fengum 3D grafíkvélina í leiknum með tilkomu FM 2009. Unity grafíkvélin var lykilbreytingin fyrir seríuna og átti að verða grunnurinn að næstu tuttugu árum fyrir leikjaseríu Sports Interactive og útgefandans SEGA.
Rauninn varð þó önnur og eftir ótal seinkanir og vandræði þá varð raunin að í febrúar á þessu ári að fyrirtækin tilkynntu að FM 25 kæmi ekki út og yrði það í fyrsta sinn síðan að FM serían spratt upp úr Championship Manager, að enginn leikur kæmi út árlega líkt og hafði tíðkast í ótal ár. Í stað þess myndi Football Manager 26 koma út síðar á sama ári, að sögn framleiðanda var þetta til að gefa ekki út óklárað leik, eða eitthvað sem þeir trúðu ekki á að myndi standast væntingar þeirra eða leikmanna.
Hvað er nýtt í FM 26?
Það stóra sem er kjarni leiksins og á sama tíma orsök ótal vandræða og tafa er tilfærslan frá sérsniðinni vél Sports Interactive yfir í að notast við Unity Engine frá danska tæknifyrirtækinu Unity Technologies.
Kosturinn við að notast við Unity, átti að verða aukin gæði í grafík leiksins og færa hann nær því sem er í boði í öðrum íþróttaleikjum á markaðnum í dag. Bjóða upp á betri upplifun á fótboltakeppnum leiksins, betri lýsingu í heiminum og boltahreyfingar á vellinum. Viðmót leiksins yrði betra og auðveldara að fara um fyrir leikmenn og auðvitað þægilegri í notkun á leikjavélum Sony og Microsoft á meðal annara. Undir þessu keyrir leikurinn áfram að sama grunni og gervigreind sem eldri FM leikir hafa notast við.
Útlit leikmanna í spilun og á skjánum á að líta raunverulegra út með tilkomu Unity, og eru síðan meiri möguleikar í að hanna sinn eigin stjóra nú með ótal nýjum valmöguleikum á útiliti hans eða hennar en hafði verið mögulegt áður.
Aukin markaðsleyfi frá deildum að notast við merki, búninga, útlit leikmanna og annað. Nú er t.d. Enska úrvalsdeildin með öll leyfi fyrir deildar og bikarkeppninar. Svo þetta nær að skapa betra andrúmsloft þegar liðið þitt er að mæta til leiks á vellinum.
Viðmót leiksins notast nú við „flísa og spila“ kerfi á skjánum og á það að vera auðveldara að notast við og notendavænna að sögn framleiðanda leiksins.
Stærsta breytingin í FM 26 er klárlega að það er nú loksins hægt að spila kvennafótbolta víðsvegar um heiminn. Með ótal leyfum frá þekktum deildum eins og WSL og NWSL, það eru síðan nýjar hreyfingar sérstaklega gerðar fyrir kvenkyns leikmenn til að líkja eftir hreyfingum þeirra á fótboltavellinum. Hægt er að stjórna kvenna- og karlaliðum og flakka á milli liða, eða bara spila annað hvort eftir hvað heillar mann.

Taktík leiksins hefur fengið uppfærslu í ár, núna er hægt að setja upp taktík eftir hvort að liðið er í sókn með boltann eða án hans í vörn eða að reyna að vinna hann aftur. Sóknar og varnar gervigreind liða hefur verið uppfærð og breytingar á stöðum leikmanna á vellinum og hlutverkum þeirra.
Hvað gengur upp?
Uppfærslur leiksins á taktíkkerfi leiksins og hvernig fótboltaliðin spila með og án boltans er líklega ein af uppáhalds viðbótunum mínum við leikinn. Þetta er auðvitað talsvert raunverulegra og færir leikinn nær hvernig raunveruleg lið spila fótbolta. Það er eðlilegt að leikinn færast upp völlinn þegar liðið er í sókn, sérstaklega ef þú ert með leikmenn sem geta nýtt sér hraða eða tæknilega hæfileika sína framar á vellinum þegar liðið þitt er að sækja. Á sama hátt er mikilvægt oft að lið, draga sig aftar á völlinn þegar það er að verjast og nýta varnarsinnaða hæfileika miðju- og varnarmanna sinna þá.
Að hafa opinberar myndir ótal leikmanna, starfsfólks og merkja fyrir lið og deilir hjálpar einnig til. Vanalega þurfti maður oft að eyða löngum tíma að bæta þessu við sjálfur við leikinn, það er en til staðar, en minna en oft áður.
Þrívíddarspilun leiksins er flottari í ár en áður, hreyfingar leikmanna með boltann eru betri en oft áður. Þetta er þó engin samkeppni við EA FC eða gömlu Fifa leikina. Þó væri óskandi að með tilkomu Unity vélarinnar væri hægt að draga útlit leiksins fram í tímann aðeins, það eru til marga ára gamlir Fifa leikir sem líta út betur en þrívíddar hluti FM 26 í dag.

Hvað gerir það ekki?
Að nota viðmót leiksins er stundum eins og að vaða í gegnum síróp, það tekur allt lengri tíma en í eldri leikjum. Upplýsingarnar sem þú ert að leita að, eru á bakvið ótal valmyndir og smelli á músarhnappinum. Eitthvað sem tók einn til tvo smelli, tekur núna oft fjóra til sex. Að sögn Sports Interactive átti það að taka vel sjóaðan CM/FM leikmann um tuttugu tíma að venjast þessu nýja kerfi, en nýir leikmenn ættu að fatta þetta fyrr, ekki bundnir eldri kunnáttu og vana. Eftir að hafa spila FM 26 í um 400 tíma samanlagt á PC og leikjavélunum, þá er ég langt frá að vera sammála þessu hjá þeim. Mér finnst ég enn vera að slást við viðmót leiksins, sem er klunnalegt, hægfara, virkar oft ekki rétt eða hreinlega er ekki með aðgang af sömu upplýsingar um eldri leiki, nema djúpt á bakvið ótal músarsmelli.
Það er svo mikið af ónotuðu plássi á skjánum að það er grátlegt að horfa upp á, í ár er mjög erfitt fyrir áhugafólk að koma með sín eigin „skinn“ fyrir leikinn. Það er takmarkaður aðgangur þeirra að þessum gögnum, og vanalega er mikil áhætta að þessi skinn fyrir leikinn brjóti eitthvað í honum.
Svo mikið af því sem leikmenn áttu að venjast að notast við, er ekki til staðar í leiknum í ár. Hlutir eins og að stjórna landsliðum (sem á að koma á næsta ári), að öskra á leikmenn þína í miðjum leik til að hvetja þá eða skamma, að búa til þinn eigin klúbb og keppnir til að keppa við aðra, ótal tölfræði og aðrar upplýsingar er annað hvort ekki til staðar, eða strípað vel niður. Það er ekki lengur í boði að sjá eftir nokkur ár, hvernig leikmönnum sem þú hefur selt hefur gengið annars staðar, hitakort fyrir hvar boltinn er á vellinum og hvað helstu átök leikmanna fara fram á vellinum er ekki lengur sjáanlegt.

Leikurinn sem kom út fyrir rétt um mánuði síðan er en það sem ég myndi kalla frekar „hrár“ eða ekki tilbúin. Sem er sérstakt að sjá, miðað við hve mikið SI Games töluðu um í viðtölum að þeir vildu ekki gera, og það hefði verið ein af stóru ástæðunum fyrir að FM 25 var saltaður. Það verður að segjast að FM 26 hefði alveg mátt við nokkra vikna eða mánaða seinkun líka.
Ég hef ekki lent í jafnmiklum villum og hrunum á leiknum eins og aðrir á netinu, þó hef ég séð ótal villur og rugl þegar leikurinn hreinlega neitaði að virka eða gera það sem hann átti að gera, eitthvað lagaðist ekki vanalega fyrr en ég slökkti á honum og ræsti hann upp aftur.
Mér finnst viðmót leiksins vera hryllilegt á köflum og gera allt óþarflega flókið og grafið á bakvið ótal valmyndir sem eiga að vera eitthvað flott að sjá, en í stað þess láta mig bara smella oftar á músina til að nálgast grunn upplýsingarnar sem mér vantar að sjá.
Það hefur einkennt CM/FM leikina að það hafi sjaldan þurft rosalegan tölvuvélbúnað, en sé serían í raun bara „spilanlegt Excel skjal“ að mati margra. Í FM 26 er það ekki alveg eins, það eru töluvert hærri vélbúnaðarkröfur en í eldri leikjum. Vinnsluminnis kröfurnar hafa hækkað mikið, það sama má segja um skjákorts kröfurnar. Jafnvel þó að þú sért vel yfir þeim kröfum, ég er t.d. með 64GB í vinnsluminni tölvunnar, og leikurinn biður um 4-12GB í minnsta og mesta lagi. Jafnvel þá á leikurinn til að vera óþarft þungur og erfiður í keyrslu. Þegar er síðan komið að spilað þrívíddar hlutaleiksins þegar liðin mætast á vellinum þá fyrst fer oft margt á hliðina.
Það er beðið um Nvidia GeForce RTX 2060 í hæsta lagi, það skjákort er með um 6GB af vinnsluminni. Til samanburðar er ég með Nvidia GeForce RTX 3080Ti með 12GB af vinnslu minni. Þegar var varið fyrst í leikinn þá var rammahraði leiksins oft í 1-2fps á sek og átti til að hökta oft hrikalega mikið. Þetta hefur batnað gríðarlega með uppfærslum á leiknum síðustu vikurnar, en þetta undirstrikar að leikurinn hefði aldrei átt að koma út í þessu ástandi.


Er seríunni bjargandi?
Að mínu mati er efni í góðan í leik hérna, en líklega verður það ekki fyrr síðar á næsta ári þegar að Football Manager 27 kemur út að við byrjum að sjá hvað getur orðið. Það er ljóst að ytri hvatar urðu til þess að FM 26 kom út í því ástandi sem hann var við útgáfu hans, serían hefur verið að skila inn stórum upphæðum árlega til SEGA og má telja að missa út árið í fyrra hafi haft talsvert um að segja að þetta myndi ekki gerast aftur.
Það er sérstakt að sjá hver sársaukafull þess tilfærsla yfir í Unity hefur reynst Sports Interactive. Þetta er eitthvað sem fyrirtækið hafði verið búið að nefna í nokkur ár að þetta stæði til, fyrir vikið hefði maður haldið að þetta væri vel undirbúið og ekki stökkið beint á það „nýja“ og heita á markaðnum án þess að rannsaka það nánar fyrst. Líklega til lengri tíma mun þessi tilfærsla reynast rétt fyrir leikinn og SI Games, en hvernig var staðið að þessu öllu er annað mál.
FM 26 er ekki slæmur leikur, það er vel hægt að hafa gaman af honum og efast ég ekki um að ég eigi eftir að sökkva nokkrum hundruðum tíma í leikinn áður en hið væntanlega framhald kemur út á næsta ári. Ég vona virkilega að þeir haldi áfram að laga leikinn til á meðan og við fáum fyrir vikið betri upplifun þegar FM 27 skilar sér, það er bara svekkjandi að þessi tími áður var ekki nýtur nógu vel og við þurfum að vera áframhaldandi beta-prófarar með núverandi leik til að gera þann næsta af því sem þessi hefði átt að verða.
Það er kjarni af góðum leik í boði í ár, en hann er á kafi í óþarflega flóknum valmyndum, tæknilegum örðugleikum, hönnun sem er óskiljanlega flókin, ótal hlutir sem hafa verið árum saman í seríunni sem vantar núna í leikinn. Eins og staðan er núna, þá eru þetta tvö skref aftur á bak og rétt um eitt áfram.
Football Manager 26
Það góða
- Kvennafótoltinn
- Leyfið fyrir Ensku úrvalsdeildina
- Hægt að vera með sóknar- og varnartaktík
Það slæma
- Viðmótið er vont
- Margvísleg tæknileg vandamál
- Hlutir grafnir undir valmyndum
- Grunnhlutir sem vantar í leikinn
- Erfitt að læra á fyrir nýja og gamla notendur
- Keyrir illa á PC og leikjavélum
