Birt þann 4. febrúar, 2024 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson
0Er framtíðin streymandi?
Fyrir stuttu kom út forvitnileg græja frá Japanska tæknirisanum Sony, PlayStation Portal. PS Portal er „Remote Play“ tækni sem leyfir þér að spila PS4 eða PS5 leiki streymt frá PlayStation 5 tölvu yfir á Portal-tækið þó að sjónvarpið eða tölvuskjárinn sé í notkun af öðrum á heimilinu.
Það eina sem þarf er að PS5 og Portal séu á sama Wi-Fi netinu og með sæmilegan hraða, upp á samskiptin á milli vélanna. Það er mælt með lágmarki 5Mbps en helst 15Mbps til að fá sem besta upplifun.
Spekkar:
- Skjár: 8 tommu LCD snertiskjár með 1920×1080 upplausn og 60Hz endurnýjunartíðni.
- DualSense möguleikar á áfastri fjarstýringu, „haptic feedback og Adaptive triggers“ ásamt
- innbyggðum hljóðnema og stereó hátölurum
- Tengimöguleikar: Wi-fi 5, PS Link (styður ný þráðlaus heyrnatól frá Sony), 3.5mm heyrnatólstengi, USB-C hleðsla.
- Innbyggð Lithium-ion rafhlaða með allt að 8 klukkutíma ending á rafhlöðu.
- Þyngd: 540g
Þegar ég opnaði kassann þá blasti við mér skrítin sjón, það var eins og einhver hefði rifið DualSense fjarstýringu í sundur og fest hana á sitthvora hlið 8“ skjás. Portal-ið er samt ótrúlega létt og almennt þægilegt í hendi, jafnvel í langri leikjaspilun.
Kostir og gallar Portal
Þegar allt virkar þá er mjög fínt að geta lagst upp í sófa á meðan konan eða börnin eru að nota sjónvarpið og halda áfram að spila Yakuza 0 eða taka nokkrar umferðir í Call of Duty. Rafhlaðan er að endast vel og gerir þetta spilun leikja hentugri fyrir marga sem vantar þennan færanleika sem lífið krefst stundum.
Skjárinn er bjartur, litríkur og er með gott sjónsvið, sama hvernig þú hreyfir hann eða hallar. Það er samt svekkelsi að hann er ekki með OLED tækni, en það hefði líklega ýtt verðinu á PS Portal upp.
Snertiflötur DualSense fjarstýringarinnar er eitthvað sem hefur gengið erfiðlega að færa yfir á PS Portal. Til að nota hann eru tveir fletir neðarlega á skjánum vinstra og hægra megin sem er hægt að ýta fingrunum á til að gera þær aðgerðir sem leikirnir þarfnast. Til að smella eins og er gert á DualShock 4 og DualSense þá þarf að smella tvisvar á skjáinn. Þetta virkar ekki alltaf vel og getur stundum verið ergjandi, en ekkert sem ætti að stöðva spilun á leikjum.
Að vélin skuli ekki koma út með stuðningi við Bluetooth tæknina til að nota þráðlaus heyrnartól er stórskrítið og takmarkar mjög hvernig er hægt að fá hljóð úr leikjunum eins og er, amk. þangað til að PlayStation Link tengdu heyrnartólin koma út. Vandinn er auðvitað að þau kosta um $150-$200 ofan á verðið á Portal. Það er 3.5mm hljóðtengi við hliðina á USB-C porti vélarinnar til að tengja eldri tengundir af heyrnartólum við PS Portal.
Í dag eiga flestir einhvers konar Bluetooth heyrnartól og hefði verið flott að geta notað þau og haft þá möguleika á að uppfæra í betra síðar, þegar nýju heyrnartólin frá Sony koma út. Fyrirtækið segir að ástæðan að PS Portal styðji ekki Bluetooth sé til að tryggja sem bestu hljóðgæði til notenda. Bluetooth tæknin hefur stundum þótt „laggy“ uppá þráðlaust hljóð, þó hefur tæknin stórbatnað síðustu ár, svo það er erfitt að sjá hversu rétt það er hjá Sony.
Það er viss missir að hugsa ekki aðeins fram á við og styðja við Wi-Fi 6 tæknina upp á betri streymis möguleika, sérstaklega þar sem þetta tækni gerir eingöngu út á það. Wi-Fi 5 er tæplega 10 ára og á síðustu árum hefur stuðningur við Wi-Fi 6 aukist gríðlega og mun bara aukast.
Ég lenti stundum í að PS Portal var leiðinlegt að tengjast við PS5 vélina mína, en vanalega var nóg að endurræsa Portal eða PS5 vélina til að laga það, ég er með Gígabit nettengingu og ekki stóra íbúð svo almennt var góð tenging á milli vélanna.
Eitt sem mér fannst vera smá mistök hjá Sony og það er PS Portal styður ekki möguleikann að streyma Youtube, Netflix eða annað yfir á tækið. Það væri fínt að geta notað það til að kíkja á smá skemmtiefni inn á milli.
Allir þessir hlutir undirstrika að PlayStation Portal er „eingöngu“ Remote Play streymi tæki til að spila leiki á PlayStation 5 vélinni þinni og ekkert annað.
Er PlayStation Portal fyrir þig?
Þetta er í raun hluturinn sem Portal stendur og fellur á. Er þetta tæki sem hentar þér? Eða geturðu notað spjaldtölvu eða farsíma til að gera nákvæmlega það sama ásamt meiru?
Það fer ekki á milli mála að PlayStation Portal er vel hannað tæki með mjög þægilega fjarstýringu og liggur vel í hendi, jafnvel í langri spilatörn. Sony hefur lengi verið einn af bestu vélbúnaðar framleiðendum heimsins þegar kemur að alls konar afþreyingartækjum. Það sem er kannski svekkjandi, eða minnsta kosti að mínu mati, er að það væri hægt að gera svo miklu meira með þetta tæki. Að það skuli ekki vera neinn vélbúnaður til að keyra leiki eða forrit beint á tækinu er svekkjandi. Það er engin að ætlast til að geta spilað PS5 leiki í toppgæðum á þessu, en t.d. eldri titla og Indie-leiki sem væri hægt að vista á Portal til að spila þegar þú ert ekki nettengdur, myndi gefa tækinu en meira líf að mínu mati.
PSP, PS Vita, PS Portal og DualSense
Kannski er vandinn að mig dreymir en um aðra lófavél frá Sony, ég elskaði bæði PSP og PS Vita og væri til í áframhald hjá Sony í þessum málum. Sprengingin með tækjum eins og Nintendo Switch, SteamDeck og annarra tækja sýnir að þessi markaður er en vel lifandi og að „hybrid“ tæki sem geta blöndu af færanlegri spilun og í sjónvarpi er eitthvað sem fólk er að sækjast eftir.
PlayStation Portal er tæki til að streyma leikjum af PlayStation 5 og eingöngu það, hvort að þetta sé fyrir þig fer eftir ýmsu líklega. Þetta er gott tæki með þrönga notkun og fyrir vissan markhóp, það eru helstu kostir og gallar þess í dag. Fyrir mínar sakir er þetta búið að reynast mér vel og get ég alveg hugsað mér að nota þetta áfram reglulega, á sama tíma óska ég þess smá að það væru aðeins fleiri möguleikar á græjunni.
Best er að kynna sér tækið vel og sjá hvort að þetta hentar fyrir ykkar leikjaspilun.
Við viljum þakka Senu á innilega fyrir afnotin af PS Portal til að fjalla um.