Leikjarýni

Birt þann 24. febrúar, 2022 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Aloy snýr aftur í Horizon Forbidden West

Aloy snýr aftur í Horizon Forbidden West Bjarki Þór Jónsson

Samantekt: Söguríkur leikur sem býður upp á gullfallegan og spennandi heim, skemmtilega upplifun og fjölbreytileika í spilun.

4.5

Mjög góður


Horizon Forbidden West er opinn hasar- og ævintýraleikur frá hollenska leikjafyrirtækinu Guerrilla Games. Leikurinn kom í verslanir 18. febrúar síðastliðinn og er eingöngu fáanlegur á PlayStation 4 og PlayStation 5 leikjatölvurnar.

Fyrri Horizon leikurinn, Horizon Zero Dawn frá árinu 2017, þótti einstaklega vel heppnaður og hlaut lof gagnrýnenda. Til að mynda gáfum við hjá Nörd Norðursins leiknum fjórar stjörnur af fimm mögulegum og endaði leikurinn einnig á lista yfir bestu leiki ársins 2017. Það er því ekkert skrítið að margir hafa beðið spenntir eftir framhaldinu og krossa nú fingur að leikurinn standist væntingar.

Söguríkur leikur

Horizon Forbidden West er beint framhald af Horizon Zero Dawn þar sem spilarinn stjórnar hetjunni og bardagakonunni Aloy, sem er vel vopnuð og alveg sérlega fim með boga og spjót.

Horizon Forbidden West er beint framhald af Horizon Zero Dawn þar sem spilarinn stjórnar hetjunni og bardagakonunni Aloy, sem er vel vopnuð og alveg sérlega fim með boga og spjót. Þar sem leikurinn tengist söguþræði fyrri leiksins sterkum böndum er eðlilegt að spyrja sig strax í byrjun hvort nauðsynlegt sé að klára fyrri leikinn áður en Horizon Forbidden West er spilaður? Stutta svarið við því er já, ef þú vilt fá sem mest út úr sögu leiksins. Þar sem rík áhersla er lögð á söguríka upplifun í leiknum er æskilegt að spila fyrri leikinn fyrst, eða ef hoppað er beint í Forbidden West að minnsta kosti finna vel valið YouTube-myndband þar sem söguþráður fyrri leiksins er rakinn. Í Horizon Forbidden West er vitnað í ýmis atriði úr fyrri leiknum sem skilur eftir sig ákveðið tómarúm ef engin tenging er til staðar.

Án þess að kafa eitthvað dýpra í söguna þá nær leikurinn að koma sögunni vel til skila. Á leið þinni hittir þú eftirminnilegar persónur og eru flest samtöl vel skrifuð. Sögunni er reglulega hrint áfram með myndbrotum (cut-scenes) sem eru vel gerð og halda spilaranum vel við efnið.

Riðið um á róbotarisaeðlum

Þó svo að æskilegt sé að þekkja forsöguna þá er það ekki skilyrði þess að njóta Horizon Forbidden West. Sögusvið Horizon leikjanna er sérlega áhugavert en leikurinn gerist í Bandaríkjunum á 31. öldinni þar sem við fáum að kynnast jörðinni okkar löngu eftir heimsendi (post-apocalypse). Mannfólkið hefur með tímanum hópast í ólíka ættbálka sem hver hefur sín sérkenni. Vegna áðurnefnds heimsendis hefur tækniþróunin staðnað en hún leynist þó víða, til að mynda hefur Aloy aðgang að græju sem kallast Focus sem er aukinn veruleiki (AR) sem leyfir henni að skanna svæði, óvini og afla sér upplýsinga sem aðrir geta ekki.

Tilfinningin sem vaknar upp við það að ríða um á einhverskonar róbotarisaeðlu í stórbrotinni náttúru er hreint út sagt mögnuð.

Í framtíðinni er heimurinn fullur af vélum, eða machines eins og þau eru kölluð í leiknum. Þessar vélar eru vélmenni sem líkjast dýrum sem lifa eða hafa einhvern tímann lifað á jörðinni, en ólíkt dýrum eru þessar vélar vel vopnaðar og margar þeirra árásargjarnar og fjandsamlegar. Aloy þarf oft að ferðast á milli svæða þar sem vélar eru víða og eru tvær leiðir yfirleitt í boði til að komast þar framhjá; annað hvort er hægt er að læðast um án þess að vélarnar taki eftir þér eða ráðast á þær og drepa. Fyrri leiðin krefst þolinmæði og skipulagningar en gefur þér mögulega færri reynslustig á meðan seinni leiðin býður upp á hraða og spennandi bardaga sem geta endað vel eða illa fyrir Aloy. Með tímanum lærir Aloy að hnekkja (override) sumar vélar og getur þannig náð ákveðinni stjórn á þeim og notað þær til að ferðast um á milli staða. Tilfinningin sem vaknar upp við það að ríða um á einhverskonar róbotarisaeðlu í stórbrotinni náttúru er hreint út sagt mögnuð.

Opinn heimur og margir möguleikar

Heimurinn í Horizon Forbidden West er mjög opinn og býður leikurinn upp á tugi klukkutíma af góðri spilun.

Heimurinn í Horizon Forbidden West er mjög opinn og býður leikurinn upp á tugi klukkutíma af góðri spilun. Sjálfur kláraði ég aðalsöguþráð leiksins ásamt nokkrum völdum hliðarverkefnum á alls 30-35 klukkutímum. Auk söguþráðar leiksins er hægt að taka að sér fjölmörg hliðarverkefni ásamt því að hægt er að safna ýmsum safnhlutum eins og upptökum (sem veita dýpri skilning á sögu leiksins) og vopnum og aukahlutum sem gera vopn eða brynjur betri.

Með því að ljúka verkefnum og drepa vélar öðlast Aloy reynslustig sem á endanum hækkar styrkleikastig hennar (level). Spilarinn getur haft áhrif á sérhæfingu Aloys og valið hvaða nýja hæfileika hún lærir næst. Sviðin sem hægt er að velja á milli í leiknum eru bardagakappi (warrior), gildrumeistari (trapper), veiðimaður (hunter), eftirlifandi (survivor) og laumupúki (infiltrator). Með þessu gefur leikurinn spilaranum ákveðið vald yfir því hvernig hann spilar leikinn og leyfir honum þá að velja sérhæfingu sem hentar sínum spilunarstíl.

Hvert verkefni er sérstaklega merkt með æskilegu styrkleikastigi og ef fylgt er aðalsöguþræðinum kemur í ljós að nauðsynlegt er að taka að sér nokkur hliðarverkefni til að gera Aloy sterkari. Kosturinn við hliðarverkefni leiksins eru hversu vel þau eru útfærð. Með þessu breytast nauðsynleg hliðarverkefni ekki í leiðinlega eða einhæfa kvöð eða svokallað grænd eins og við leikjanördar köllum það. Leikurinn kemur einnig til móts við spilara sem vilja sleppa hliðarverkefnum alfarið með því að bjóða upp á mismunandi erfiðleikastig, allt niður í erfiðleikastig sem kallast story og er auðveldara en auðvelt (easy mode). Leikurinn býður upp á fleiri gagnlegar stillingar sem þóknast fjölbreyttri flóru spilara, til dæmis með því að stilla leikinn þannig að þú veist alltaf hvar næsta verkefni er að finna á landakortinu eða hvort þú viljir finna úr öllu sjálfur, sem getur verið skemmtilegt en á sama tíma tímafrekt.

Fallegur að innan sem utan

Horizon Forbidden West er virkilega fallegur leikur. Grafíkin er mjög flott og umhverfið er gullfallegt og lifandi þar sem hugsað hefur verið fyrir hverju smáatriði. Útkoman kemur virkilega vel út á PlayStation 5 og má geta þess að þá var PS5 útgáfa leiksins spiluð fyrir þessa gagnrýni. Landslagið býður upp á mikla fjölbreytni þar sem er að finna skóga, eyðimerkur og fjalllendi. Svipaða sögu er að segja um spilun og skemmtanagildi leiksins. Auðvelt er að gleyma sér í þessum töfrandi heimi sem Aylo þar sem allt nær að smella svo vel saman í leiknum.

Auðvelt er að gleyma sér í þessum töfrandi heimi sem Aylo þar sem allt nær að smella svo vel saman í leiknum.

Eina sem skortir í leiknum eru spennandi eða skemmtilegir nýjungar. Þetta er einn af þessum flottu stórleikjum sem eru skemmtilegir í spilun en hér hefði verið gaman að sjá eitthvað nýtt og ferskt, sérstaklega þegar leikurinn býður upp á langa spilun. Annað atriði sem getur í ákveðnum tilfellum sett blett á upplifunina er að Aloy getur aðeins klifrað á völdum svæðum en sá möguleiki væri afskaplega gagnlegur á fleiri stöðum. Á heildina litið skipta þessi atriði heldur litlu máli. Þetta er leikur sem býður upp á gullfallegan heim, frábæra upplifun, góða skemmtun og fjölbreytta nálgun í spilun.

Eintak af tölvuleik var í boði útgefanda.

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑