Birt þann 15. október, 2021 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson
Verðkönnun og framboð SSD diska hérlendis fyrir PS5
Þann 15. september síðastliðinn kom út langþráð uppfærsla fyrir PlayStation 5 sem leyfði notkun NVMe SSD harða diska með vélinni og þar með geta eigendur tölvunnar aukið geymslurýmið svo hægt sé að geyma fleiri leiki og gögn á vélinni.
Þegar að PS5 kom út fyrir tæpu ári síðan var vélin með um 825 GB SSD innbyggt drif og af því hafa notendur aðgang af um 667 GB þar sem viss hluti fer undir stýrikerfi vélarinnar og aðra hluti sem hún þarf til að keyra.
Við mælum með að lesa ítarlega umfjöllun okkar á PlayStation 5 leikjatölvunni sem var birt af tilefni útgáfu vélarinnar í fyrra
Tölvuleikir eru að stækka og má rekja stóran hluta þess til aukinna gæða í grafík tölvuleikja og hærri upplausnar sem leikir eru að keyra í á 4K sjónvörpum og tölvuskjám. Leikir hafa farið frá því að vera um 7-25 GB á PlayStation 3 og 20-35 GB á PlayStation 4 og hafa tölurnar bara vaxið með tilkomu PlayStation 5. Má nefna dæmi eins og Call of Duty: Black Ops – Cold War sem er kominn upp í 220GB eða ⅓ af lausu plássi á PS5. Sá leikur er samt undantekningin frekar en reglan þar sem Cod WarZone og fjölspilun leiksins taka nokkuð mikið pláss. Flestir vinsælir leikir eru um 40-80 GB að stærð í dag.
Eins og má sjá, þá er plássið fljótt að hverfa, sérstaklega ef að fólk á PS5 Digital og þarf að niðurhala öllu efni sem það kaupir í stað þess að vera með það á diskum í PS5 diskadrifs vélinni. Það þarf þó að setja upp leikina á harða diskinn og sækja þá plástra og niðurhalsefni sem fólk á.
Japanska fyrirtækið Sony hefur verið frekar framsækið í þessum málum með leikjavélar sínar og boðið notendum að uppfæra harða disk vélarinnar á PS3 og PS4 og síðan bæta við utanáliggjandi USB drifi undir leiki á PS4 og PS5 (fyrir PS4 leiki), til að láta plássið endast lengur.
Á PlayStation 5 er SSD diskur vélarinnar fastur við móðurborðið svo fólk hefur ekki möguleiki á að uppfæra þar. Í staðinn er M.2 Socket 3 (Key M) Gen4 x4 NVME SSD rauf á vélinni þar sem hægt er að smella studdum disk í vélina látið PS5 vélina setja hann upp og nota undir leiki, myndbönd og annað efni.
Stærðir diska sem eru studdir eru frá 250 GB til 4 TB og þurfa diskarnir að tilheyra fjórðu kynslóð af PCI-Express Gen4x4 og uppfylla vissa hraðastaðla sem Sony mælir með. Ef að óstutt drif er tengt við PS5 vélina þá fá notendur upp annað hvort villumeldingu eða vélin neitar að ræsa sig fyrr en diskurinn hefur verið fjarlægður.
Sony eru með góðar og ítarlegar leiðbeiningar á vef þeirra um hvernig á að bæta hörðum diski við PS5 sem við hvetjum fólk að skoða nánar hérna.
Sony mælir einnig með að fólk kaupi drif sem eru með kæliplötu eða kaupi kæliplötu og setji á drifið áður en það er sett í. Þar sem að SSD diskar eiga til að hitna talsvert og getur ónæg kæling haft áhrif á vinnslu þeirra og einnig ef PS5 vélin er staðsett þar sem er lélegt loftflæði.
Við hérna á Nörd Norðursins erum hrifnir að alls konar tækni og höfum leitt hugann af einmitt því hvernig fólk ætti að snúa sér ef því langaði að bæta við plássið á PlayStation 5 vélinni sinni.
Könnun hjá söluaðilum
Við sendum tölvupóst á helstu tölvuverslanir landsins og lögðum einmitt fyrir þá þessa spurningu og fengum upplýsingar um hvað þau væru að bjóða upp á eins og er. Það þarf að hafa þann fyrirvara á því að það er viss skortur á ýmsum raftækjum í heiminum og hefur það áhrif á það sem er í boði eins og er.
Kísildalur
„Sæll Það litla sem við höfum séð af requirements frá Sony og diska sem fitta í PS5 þá virðist vera þeir vilji ekki diska undir 5000 Mb/s
Við erum með 2 diska sem hægt er að nota í vélarnar (með það í huga að þeir gefa út minnst 5000 Mb/s)
Þetta er þá miðað við þau requirements frá Sony, Við höfum ekki verið mikið að vinna með playstation 5 vélarnar og erum því ekki viss hvort minni hraði sé studdur í þeim vélum.
Við mælum að sjálfsögðu með 1TB diskinn fyrir meiri geymslu ásamt BeQuiet MC1 PRO.
Við bjóðum upp á þjónustu í kringum stækkanir á þessum vélum og uppsetningu á kerfi.
Við eigum einnig von á fleirum M.2 NVME diskum sem myndu falla undir þennann flokk 🙂“
Tölvutek
„Eins og er þá bjóðum við uppá eitt módel, í tveim stærðum, sem uppfyllir allar kröfur frá Sony og er með kæliplötu.
Þetta er „Aorus 7000S“ og erum við með hann í úrvali hjá okkur bæði í 1TB útgáfu á 49.990 kr.- og 2TB á 99.990 kr.-. Ég myndi án efa mæla með þessum diskum.
Snillingarnir hjá Gigabyte eru búnir að hanna disk í þetta sem er ekki bara með kæliplötu að ofan heldur utan um diskinn allan og heldur honum þannig kaldari á þessum mikla hraða. Þessi diskur, sem er af stærðinni 2280, passar fullkomlega í raufina á PS5 og býður upp á allt að 7.000 mb/s í leshraða.“
Elko
„Við í ELKO erum ekki með SSD drif með kæliplötu í okkar úrvali ennþá en við erum að vinna í því. Eins og er erum við með Samsung 980 Pro í 250, 500 og 1.000 GB útgáfum og koma þau mjög vel út í prófunum. Þó er mælt með að notendur setji kæliplötu á þau fyrir notkun í PS5.
Varðandi SSD með kæliplötum þá erum við helst að reyna að komast í WD Black þar sem þau hafa komið mjög vel út.“
Við fórum á vefi Tölvulistans, Tölvutækni og Computer.is þann 5. október og eru verð og upplýsingar miðað við þann tíma.
Uppsetning á disknum
Hérna fyrir neðan er myndband frá PlayStation Support á YouTube sem fer í gegnum ferlið að bæta M.2 SSD disk við PlayStation 5 vélina, þetta gildir fyrir bæði PS5 diskadrifs og diskalausar vélar.
Það er sæmilega gott úrval af drifum í tölvuverslunum landsins en helsti vandinn er hve erfitt er að finna kæliplötur með diskunum sem Sony mælir með að nota upp á bestu upplifun. Amazon, Ebay og AliExpress eru flest með ýmsar kæliplötur sem henta vel. Muna bara að skoða mjög vel og athuga hvort að passi vel.
https://www.ebay.co.uk/sch/i.html?_from=R40&_trksid=p2380057.m570.l1313&_nkw=ps5+ssd+cooler&_sacat=0
https://www.ebay.co.uk/itm/234176204657?hash=item3685fd4f71:g:BK4AAOSw629hNzKR
Digital Foundry hjá EuroGamer vefnum hafa verið duglegir að birta gæða myndbönd um tölvuleiki, tækni og annað og eru þeir einmitt búnir að kanna SSD uppfærsluna á PS5 og hvernig ferlið gengur fyrir sig. Þetta var gert þegar betan fyrir stýrikerfið var í gangi í lok sumars en þetta á enn vel við og er mjög fræðandi að horfa á.
Það er ekki ólíklegt að þegar líður á mun úrvalið aukast ásamt að verðin ættu eitthvað að lækka. Í augnablikinu er viss skortur á skjákortum, örflögum, leikjavélum o.fl. sem hefur áhrif á diskana eins og er. Vonandi verður síðar boðið upp á pakka sem fólk getur verslað sem er með kæliplötu innbyggða og þau sem eru ekki svo tæknivædd geti haft minna fyrir því að setja drifið í vélina, skrúfa fast og byrja að njóta þess að vera með aukið pláss.
Við hjá Nörd Norðursins viljum þakka þeim tölvu- og tæknifyrirtækjum sem sáu sér fært að svara spurningum okkar.
Uppfært: Tveir diskar sem voru í upprunalegu greininni stóðust í raun ekki kröfur Sony fyrir PS5 og hafa þess vegna verið fjarlægðir úr henni.
Heimild: Kísildalur Tölvutek Elko Computer.is Tölvutækni