Birt þann 25. maí, 2021 | Höfundur: Steinar Logi
0Returnal – „Ekki fyrir alla“
Samantekt: Góður en ekki nógu aðgengilegur
3
Þriðju-persónu rogue-like leikur
Það er ekki mikið um hreina PS5 leiki en núna er Returnal frá Housemarque (hönnuðum Resogun, Super Stardust og Nex Machina) kominn út. Hann lítur kannski ekki út fyrir það en hann er svokallaður „rogue-like“ leikur í anda Binding of Isaac, Enter the Gungeon, Rogue Legacy, Spelunky, Hades o.s.frv. nema hann er þriðju-persónu skotleikur. Útlitslega minnir hann á hið stórgóða Mooncrash DLC fyrir Bethesda leikinn Prey en spilunarlega séð á hann meira sameiginlegt með Enter the Gungeon / Binding of Isaac enda mikið skothelvíti (e. Bullet-hell).
hann er svokallaður rogue-like leikur í anda Binding of Isaac, Enter the Gungeon o.sfrv. í öllu nema útliti
Án þess að gefa of mikið þá ertu geimfari sem brotlendir á óþekktri plánetu og lendir í „Groundhog day“ aðstæðum þar sem þú vaknar alltaf aftur til lífsins eftir dauða og reynir að finna út af hverju, þannig að leikjategundin og söguþráðurinn samtvinnast að því leyti.
Það er mikið af tannhjólum og gulrótum í leiknum en þú byrjar hverja tilraun með nánast ekkert og þarft smátt og smátt að byggja þig upp. Í stíl við Binding of Isaac geturðu fundið hluti eins og vopn og bónusa og haft aðgengi að þeim í seinni tilraunum og þannig byggt upp “bankann” þinn af góðum hlutum og eiginleikum. Einnig geturðu fundið hljóðupptökur og fengið að vita meira um karakterinn þinn og bakgrunn, ásamt að spila stutta fyrstu-persónu kafla sem minna á P.T demóið fræga á PS4 af Silent Hill leiknum sem aldrei var gerður.
Leikurinn lítur vel út, hljóð og sjónræn upplifun er til fyrirmyndar þó að óvinirnir sjálfir séu ekki það eftirminnilegir. Þetta er leikur fyrir fólk sem vill hraða spilun og áskorun en einnig smá sögu. Hann notar vel “haptic” eiginleika PS5 fjarstýringarinnar og eykur þannig upplifunina ásamt 3D audio eiginleikum. Hann keyrir líka á 60 FPS og í 4K þannig að þetta er ekkert slor. Lýsingin, blossar, endurvarp og allt í þeim stíl kemur frábærlega út.
Þetta er leikur fyrir fólk sem vill hraða spilun og áskorun
Eftir að maður hefur opnað þennan glæsilega pakka og spilað hann að ráði þá fer sjarminn að fara af honum. Í fyrsta lagi þá tekur hver tilraun allt of langan tíma. Á meðan aðrir líkir leikir taka kannski hálftíma eða aðeins meira þá getur maður auðveldlega eytt 2-3+ tímum í hverja tilraun. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum þá hafa Housemarque ákveðið að það er ekki hægt að vista leikinn. Þetta er sérstaklega slæmt fyrir fjölskyldur eða heimili þar sem fleiri en einn eru að skiptast á að nota PS5. Þetta er langstærsti gallinn að mínu mati fyrir annars góðan leik. Þetta kemur sérstaklega í ljós þegar maður er búinn að klára leikinn alveg einu sinni og vill ná nokkrum góðum tilraunum eða “runs”. Þá þarf maður að taka frá 2-4 tíma því að allir nema þeir allra, allra bestu þurfa að byggja sig upp og ná sem mestu lífi, hæfileika og vopn fyrir lokabardaga því að auðvitað eru engir aukasénsar. Eftir að maður klárar leikinn þá getur maður skipt á milli tveggja aðalsvæða sem virkar sem hálfklaufaleg lausn til að draga úr þessu vandamáli en hjálpar of lítið. Þetta væri allt svo mikið skemmtilegra ef það væri hægt að vista a.m.k. einu sinni og koma aftur.
Á meðan aðrir líkir leikir taka kannski hálftíma eða aðeins meira þá getur maður auðveldlega eytt 2-3+ tímum í hverja tilraun
Varðandi erfiðleikastigið þá var undiritaður í þeirri aðstöðu að einn fjölskyldumeðlimurinn er mjög góður í þessum leikjum og hann náði að klára allan leikinn á rétt rúmum 5 tímum með 5 dauða (þar af voru tveir dauðar því að hann þurfti að hætta sem vegna áðurnefndra ástæða). Sjálfur er ég mun verri spilari með mun fleiri tilraunir og það var eins og ég væri að spila annan og mun hægari leik. Það sem kom í ljós við þennan samanburð er að leikurinn verðlaunar betri spilurum hlutfallslega meira en það hjálpar verri spilurum. Það að verða ekki fyrir skoti er gífurlega mikilvægt til að byggjast fljótt upp og verða sterkari því að því lengur sem þú verður ekki fyrir skoti því hraðar færðu gjaldmiðil og betri byssur (það fara ákveðnir bónusar í gang sem kallast “adrenaline levels”). Það er líka nokkuð mikilvægir (nánast “gamebreaking”) hlutir sem tengjast þessum bónusum og leyfa þér að halda þeim lengur (s.s. skjöldur í hvert sinn sem þú nærð í líf). Þess vegna er upplifun leiksins ólík út frá hversu góður þú ert í svona leikjum; verri spilarar byggjast upp mun hægar og geta verið 20-40+ tíma að klára allan leikinn meðan aðrir taka minni tíma og hugsanlega endist þeim leikurinn bara í 5-10 tíma áður en þeim fer að leiðast. Það er líka búið að vera vandamál hjá sumum að leikurinn frjósi þegar hætt er og þá getur allt sem var ekki búið að halast upp í skýjið af því sem þú varst kominn áleiðis í leiknum tapast. Vandinn með of löng run og save kerfið kemur niður á leiknum að mörgu leyti.
Áhætta versus verðlaun hluti leiksins er mjög áberandi; það er t.d. mikið af hlutum sem gefa þér eitthvað jákvætt en um leið eitthvað neikvætt og þú þarft að velja og hafna. Þannig að það er ekki bara hæfileiki spilarans heldur er líka heppni í leiknum en að sama leyti þá þarf spilarinn að meta útfrá reynslu hvort hann eigi að taka áhættu núna eða ekki. Sum neikvæð áhrif geta nánast gert út um leikinn eins og að þú meiðist í hvert sinn sem þú tekur upp hlut (en það er hægt að losna við neikvæðu áhrifin ef maður finnur rétta hlutinn).
Komum því að stóra gallanum nr. 2 sem er að leikurinn er verðlagður með hæsta mögulega verði í dag eða $70 sem er óskiljanlegt fyrir leik með takmarkaða spilun sem er í raun meira í ætt við indí leiki. Ef þið kaupið hann þá er ódýrast núna að kaupa hann í bandarísku búðinni.
En ef þú ert sá eini eða eina sem ert með aðgang að PS5, skiptir ekki á milli leikja og notar rest mode ásamt því að eiga nóg af pening þá er þessi leikur reyndar ágætis skemmtun. Hann er haltu-mér-slepptu-mér samband í leikjaformi. Það er hálfsorglegt að það væri svo auðvelt að gera hann aðeins aðgengilegri og hreinlega betri en hönnuðir hafa aðeins tapað sér í að gera hann “áskorun” þegar áskorunin er í raun hvort þú getur haldið fókus í 2+ tíma og að utanaðkomandi aðstæður þurfi ekki að láta þig hætta áður en þú klárar. Hann hefði auðveldlega fengið mun hærri einkunn væri hann ódýrari og ef hægt væri að vista a.m.k. einu sinni hverja tilraun.